miðvikudagur, 29. október 2014

Mínus hveiti og sykur takk


Senn líður að lokum meistaramánaðarins sem ég ætlaði aldeilis að taka með trompi, en gerði ekki. En það er önnur saga. Ég tek meistaradesembermánuð bara í staðinn, eða ekki.

Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift sem ég hef áður sett á bloggið en breytti henni örlítið. Þessi bananabrauðsuppskrift datt mér í hug í einu af mínum mörgu ,,heilsuátökum'' sem entust í korter. Þið stelpurnar þekkið það eflaust flestar.
Brauðið inniheldur hvorki sykur né hveiti en er samt sem áður alveg ofboðslega mjúkt, sætt og gott og alls ekki ósvipað hinu hefðbundna bananabrauði sem er svoleiðis stútfullt af sykri. Bananabrauð án sykurs og hveitis

1 dl Sukrin
2 egg
1 tsk salt
1/2 tsk matarsódi

3 - 4 stappaðir bananar
5 dl malað haframjöl

handfylli heslihnetur

Hrærið Sukrin og eggjum saman í skál ásamt salti og matarsóda. Blandið stöppuðum bönunum og möluðu haframjöli saman við.
Smyrjið brauðform, smyrjið deiginu í og sáldrið heslihnetum jafnt yfir.
Bakið við 180° í 45-50 mínútur eða þar til bananabrauðið verður svolítið dökkt.

Athugið að haframjölið er fínmalað í blandara eða matvinnsluvél áður en það er mælt.

Þeir sem vilja hafa bananabrauðið mjög sætt setja 4 banana í deigið, mér finnst nægja að hafa þá 3 eða 3 1/2. Heslihneturnar ofan á brauðinu þykja mér ómissandi. Þær ristast í ofninum og verða svo dásamlega stökkar og bragðgóðar.

Öll hráefni í brauðið mitt elskulega fékk ég í Fjarðarkaupum, þeirri yndislegu verslun. Ég elska að koma þangað, búðin er risastór en samt sem áður svo hlýleg og lætur mér líða eins og ég sé að versla hjá kaupmanninum á horninu.

Verði ykkur að góðu! 
Tinna Björg

mánudagur, 27. október 2014

Drykkur sem hreinsar og hressir


Þið hafið eflaust flest heyrt talað um ávinning þess að drekka sítrónuvatn í morgunsárið. Fyrir viðkvæma maga eins og minn er ofboðslega gott að byrja daginn á einu glasi. Ég krydda hins vegar aðeins upp á mitt sítrónuvatn, bókstaflega.
 Hreinsar, bætir og kætir.


Frískandi hreinsunardrykkur

1 sítróna
1/4 agúrka
5 stilkar mynta
3 cm engifer
1/6 - 1/4 tsk cayennepipar
 1 l vatn

Skerið sítrónu og agúrku í sneiðar. Rífið niður myntulauf og afhýðið og sneiðið engifer. Setjið sítrónu, agúrku, myntu, og engifer í vatnskönnu eða flösku ásamt cayennepipar. Fyllið könnuna af vatni.
Látið standa í ísskáp í að minnsta kosti 2 klst. Gott er að gera drykkinn kvöldið áður og eiga hann tilbúinn morguninn eftir.

Athugið að cayennepiparinn er ofboðslega sterkur svo farið varlega með hann, byrjið á litlu og bætið svo við eftir smekk.

Þeir sem vilja smá sætu á móti sítrónunni og piparnum geta hrært 1 tsk af hunangi út í vatnið, það er alveg ljómandi gott.

Einfalt, fljótlegt, hreinsandi og gott í magann!


Tinna Björg

miðvikudagur, 22. október 2014

Vinningshafar í gjafaleik í samstarfi við Litlu Garðbúðina


Jæja þá er komið að því að tilkynna vinningshafana tvo í gjafaleiknum, spennó! Fyrst vil ég þakka ykkur öllum sem tókuð þátt kærlega fyrir. Ég átti nú svosem von á góðri þátttöku enda vinningarnir alveg dásamlegir en hún fór framúr mínum björtustu vonum. Svo takk aftur öll sem eitt.

Fyrsti vinningshafinn í Facebookleiknum er Sigríður Elísabet Benediktsdóttir. Hún ætlar að bera fram alls kyns góðgæti á nýja tveggja hæða kökudisknum sínum.


Síðari vinningshafinn er hún Kristín Hrönn Hreinsdóttir. Núna getur hún gætt sér á kaffi með góðri vinkonu úr könnunum fallegu.


Innilega til hamingju stelpur og kærar þakkir fyrir þátttökuna!

Ég hvet þá sem langar ægilega mikið í svona fallegan kökudisk eða könnu að gera sér ferð í Litlu Garðbúðina. Þar fást alls kyns fallegar vörur á góðu verði, sjón er sögu ríkari. Kökudiskurinn kostar 2.980 krónur, sem er verulega lítið fyrir fallegan tveggja hæða kökudisk í dag. Trúið mér, ég ætti að vita það enda með meiri ástríðu fyrir kökudiskum en góðu hófi gegnir. Svo kosta könnurnar aðeins 890 krónur stykkið. Gjöf en ekki gjald fyrir svona dásemd.


Takk fyrir mig!

Tinna Björg

laugardagur, 18. október 2014

Hollt helgarnammi með kaffinu


Góðgæti helgarinnar að þessu sinni er heilsusamleg súkkulaðisæla. Einn til tveir bitar eru nóg til að svala sykurþörfinni og ég ætla ekki að lýsa því hvað þetta góðgæti fer vel með kaffibollanum.

 
 
Súkkulaðisæla

200 g gróft hnetusmjör
100 g hunang
90 g kókosolía
1 1/2 tsk vanilludropar
3-4 msk kakó
140 g tröllahafrar
30 g kókosflögur

Bræðið saman gróft hnetusmjör, hunang, kókosolíu, vanilludropa og kakó. Athugið að blandan brennur auðveldlega við svo hafið hitann tiltölulega lágan verið dugleg að hræra. Takið pottinn af hellunni og blandið tröllahöfrum og kókosflögum vandlega saman við.

Ég brýt kókosflögurnar aðeins með fingrunum svo þær dreifist betur þannig að maður fái nú eins og eina litla kókosflögu í hverjum bita.

Þrýstið súkkulaðiblöndunni ofan í bökunarpappírsklætt form, ég notaði ílangt nestisbox, og kælið í ísskáp í 1-2 klst.
Óþolinmóða fólkið (ég) skellir sælunni bara inn í frysti í 30 mínútur.

Losið súkkulaðisæluna úr forminu og skerið í ferninga.
Raðið á fallegan disk og njótið með rjúkandi heitu kaffi í fallegum bolla. Það er betra fyrir sálina að drekka og borða af fallegum borðbúnaði, svo einfalt er það.

Mér finnst mjög mikilvægt að hafa hentusmjörið gróft því hnetubrotin gera svo mikið fyrir súkkulaðisæluna. Í þessa uppskrift finnst mér best að nota Original hnetusmjörið frá Whole Earth. Hnetubrotin eru frekar stór og hnetusmjörið er gert úr hnetum með hýði svo það er dekkra og svolítið öðruvísi á bragðið.

Stundum koma dagar þar sem ég er að flýta mér eða nenni hreinlega ekki að vanda mig við að mæla hráefnin. Þá dreg ég fram vigtina og vigta hráefnin í upprunalegum umbúðum, moka svo upp úr ílátinu með skeið þar til vigtin segir mér að ég sé búin að létta ílátið um það sem nemur magninu sem á að fara í uppskriftina. Það gerði ég einmitt við þessa uppskrift, þess vegna er allt í grömmum.

Öll hráefni í þessa uppskrift fást í Fræinu í Fjarðarkaupum.

Ég minni á gjafaleikinn á Facebook.
Eigið góða helgi!

Tinna Björg

miðvikudagur, 15. október 2014

Gjafaleikur í samstarfi við Litlu Garðbúðina


Ég fer reglulega í eina af mínum uppáhalds búðum, Litlu Garðbúðina, að kaupa mér eitthvað fallegt í eldhúsið. Þið sem fylgist með blogginu hafið eflaust orðið vör við ást mína á þessari verslun enda með eindæmum fallegar og rómantískar vörur hjá þeim dúlluhjónunum sem reka hana, akkurat minn stíll.

 Í Litlu Garðbúðinni er að finna alls kyns borðbúnað og dúllerí fyrir heimilið auk mikils úrvals af fallegum og öðruvísi garðyrkjuvörum.

Bloggfærslu um mína fyrstu verslunarferð í Litlu Garðbúðina getið þið lesið hér. Ein af þeim vörum sem komu heim með mér í það skiptið var þessi fallegi bleiki kökudiskur á tveimur hæðum. Síðast þegar ég verslaði í Litlu Garðbúðinni fór ég heim með einn svona kökudisk aukalega ásamt tveimur dásamlega dúllulegu könnum í stíl við diskinn. Ég er mikill könnu- og bollaunnandi, alveg óþarflega mikill. Te og kaffi bragðast bara einfaldlega miklu betur sé það drukkið úr fallegu máli, það er heilagur sannleikur.


Í dag er ég í gjafastuði og ætla að setja af stað Facebookleik, hver elskar ekki svoleiðis? Tveir heppnir Facebookvinir bloggsins fá glaðninga frá Litlu Garðbúðinni. Annars vegar dreg ég út vinningshafa fyrir kökudiskinn fallega og hins vegar könnurnar tvær.


Þvílík fegurð!

 Það sem þið þurfið að gera til að taka þátt er setja Like við Facebooksíðuna mína hér ef þið hafið ekki gert það nú þegar og deila þessari bloggfærslu áfram á Facebook. 

Svo auðvitað smella allir fagurkerar einu Like á Facebooksíðu Litlu Garðbúðarinnar líka.

Þið megið endilega segja mér hvort þið viljið heldur könnurnar tvær eða kökudiskinn.


Skellum okkur í þetta kæru vinir!

Tinna Björg

þriðjudagur, 14. október 2014

Fimmti þáttur af Matur & Vín á KrómTV


Í fimmta þætti af Matur & Vín á Króm.is sýni ég ykkur hvernig á að baka himneskar bananasnittur með kaffinu. Fjölskylduskúffukakan kemst á eitthvað allt annað og æðra stig með tvenns konar kremi, bananakremi og súkkulaðiganache.
Baksturinn þarf ekki að vera flókinn, einföld skúffukaka með smá tvisti getur verið nóg til að heilla vini og vandamenn upp úr skónum um helgina. Svo er þessi dásemd líka tilvalin fyrir kökukaffið í vinnunni.

Ég hef áður deilt með ykkur uppskrift að bananasnittukökunni en hún er svo dásamlega góð að hún á alveg skilið að vera deilt aftur.

Bananasnittur

Súkkulaðiganache

250 ml rjómi
175 g suðusúkkulaði
 


Hitið rjóma að suðu og saxið suðusúkkulaði smátt. Athugið þó að rjóminn má ekki sjóða. Setjið súkkulaðið í skál og hellið heitum rjómanum yfir. Látið standa ósnert í 5 mínútur og hrærið svo súkkulaðinu og rjómanum saman þar til blandan verður að þunnu kremi.

Kælið í ísskáp þar til kremið verður seigfljótandi og nógu þykkt til að hægt sé að hella því yfir kökuna án þess að það leki niður með hliðunum. Þetta getur tekið nokkrar klukkustundir en mikilvægt er að fylgjast vel með kreminu svo það verði ekki of þykkt. Gáið að kreminu á 30 mínútna fresti.


Skúffukaka

4 1/2 dl hveiti
4 1/2 dl sykur
1 dl kakó
1 tsk salt
1 tsk matarsódi
1/2 tsk lyftiduft
1 1/2 dl vatn
1 dl grísk jógúrt
1 dl mjólk
2 egg
175 g brætt smjör
3 tsk vanilludropar 


Blandið þurrefnum saman í skál. Hrærið vatni, grískri jógúrt og mjólk saman við þurrefnin.

 Bætið við eggjum, bræddu smjöri og að lokum vanilludropum. 
 Smyrjið ferkantað kökuform og hellið deiginu ofan í. 


Bakið við 175° í 30-35 mínútur.

Kælið kökuna á meðan kremið er útbúið. 


Athugið að ekki má opna ofninn fyrr en skúffukakan hefur bakast í um 30 mínútur eða þar til miðjan hefur bakast. Sé ofninn opnaður á meðan hún er hrá í miðjunni fellur kakan. Til að athuga hvort kakan sé bökuð í gegn, stingið prjóni í hana miðja. Ef prjónninn kemur hreinn upp úr kökunni er hún tilbúin. 


Bananakrem 

250 g mjúkt smjör
300 g flórsykur
2 tsk vanilludropar
2 bananar


Þeytið smjör þannig að það verði alveg mjúkt og kekkjalaust. Bætið þá við flórsykri og vanilludropum. Maukið banana í blandara og þeytið vel saman við kremið á hæstu stillingu. 
Smyrjið bananakremi á kökuna og hellið súkkulaðiganache yfir.  

Skerið kökuna í snittur og raðið á fallegan disk.

Ef svo ólíklega vill til að eftir verði afgangur af kökunni er best að loka hliðum kökunnar með plastfilmu og geyma hana í kæli.Endilega fylgist með mér á Facebook

og

Instagram @tinnabjorgcomVerði ykkur að góðu!


Tinna Björg

www.krom.is