Alls kyns kræsingar í 4. þætti af Matur & Vín


Fjórði þáttur af ,,Matur og Vín'' kom inn á Króm.is síðasta fimmtudag. Að þessu sinni sýni ég áhorfendum þrenns konar smárétti sem auðvelt er að gera fyrir saumaklúbbinn, já eða partíið.

Til hátíðarbrigða er svo tilvalið að útbúa sér eins og einn eða tvo kokteila með smáréttunum. Eða þrjá eða fjóra...
 Í þættinum geri ég tvær útgáfur af Cointreau Fizz, kokteil sem inniheldur appelsínulíkjör ásamt fleira góðgæti. Einstaklega bragðgóður og svalandi kokteill sem kemur verulega á óvart. Ég er ekki sérlega hrifin af sterku áfengisbragði svo þessi drykkur hentar mér mjög vel, hann er mildur og bragðið af ferskum ávöxtum fær að njóta sín.







Smáréttir

Ostasalat 

2 mexíkóostar 
2 hvítlauksostar 
1 púrrulaukur 
1 vínberjaklasi 
1 gul paprika 
1 rauð paprika 
1 ½ dós sýrður rjómi 
½ lítil dós majones 
1 snittubrauð


Skerið mexíkó- og hvítlauksosta í litla teninga. Skerið púrrulauk í sneiðar, vínber í tvennt og papriku í litla bita.
Hrærið majones í skál svo það mýkist og verði kekkjalaust.
Bætið við sýrðum rjóma og blandið saman við osta, púrrulauk, vínber og papriku.
Sneiðið gott snittubrauð og berið fram með ostasalatinu.


Camembert snittur

1 snittubrauð
1 krukka grænt pestó
blaðsalat
salami
1 askja piccolotómatar
1-2 camembertostar


Skerið snittubrauð í sneiðar og smyrjið þær með grænu pestó.
Raðið blaðsalati yfir pestóið, sneiðið salami og camembertost og raðið ofan á snitturnar. Skerið piccolotómata í tvennt og skreytið herlegheitin með tveimur helmingum á hverja snittu ásamt einu laufi af basilíku.


Parmaskinkurúllur 

6 sneiðar parmaskinka
50 g hvítlauksrjómaostur

Klettasalat
6 litlar kúlur mozzarellaostur


Smyrjið klípu af hvítlauksrjómaosti á hverja sneið af parmaskinku. Leggið nokkur blöð af klettasalati yfir hvítlauksostinn. Setjið að lokum eina mozzarellakúlu ofan á hverja parmaskinkusneið og rúllið þeim upp.
Gott er að stinga tannstönglum í miðjar rúllurnar ef þær á að bera fram sem pinnamat.
  

Kokteilar

Cointreau Fizz með aðalbláberjum og jarðarberjum 

2 msk aðalbláber
2-3 jarðarber
5 cl Cointreau
klakar
Sprite
¼ lime

Setjið aðalbláber og jarðarber í þykkbotna glas og kremjið vel.
Hellið Contreau í glasið og fyllið glasið af klökum. Hrærið berin upp með skeið og fyllið upp með Sprite. Kreistið lime yfir kokteilinn og skreytið. 


Cointreau Fizz með mangó og granatepli

¼ mangó
2 msk granateplaaldin
5 cl Cointreau
klakar
Sprite
¼ lim


Skerið mangó í litla bita og losið aldin úr granatepli.
Setjið mangó og granatepli í þykkbotna glas og kremjið vel.
Hellið Cointreau í glasið og fyllið glasið af klökum. Hrærið berin upp með skeið og fyllið upp með Sprite. Kreistið lime yfir kokteilinn og skreytið.


 Fallegu framreiðsludiskana fékk ég í Litlu Garðbúðinni.

Peysan sem ég klæðist er úr Lolita.is.


Endilega fylgist með mér á www.facebook.com/matarbloggtinnu
og
Instagram @tinnabjorgcom


Sjáið næsta þátt af Matur og vín á KrómTV á morgun!


Tinna Björg


www.krom.is

Ummæli

Vinsælar færslur