Meistaramánuðurinn minn

Í fyrsta skipti á ævinni hef ég ákveðið að taka þátt í  lífsstílstengdu átaki, meistaramánuði.
Ég mun þó hafa báða fætur á jörðinni við markmiðasetningu og ætla mér ekki um of.

Mín markmið fyrir meistaramánuð eru þessi:

1. Stunda líkamsrækt 5 sinnum í viku.
2. Elda og baka meira af hollari mat.   

 Sumum þykir eflaust fullmikið að byrja á líkamsrækt fimm sinnum í viku en ég geri það meira samkvæmt læknisráði en til að koma mér í form. Komandi kúlurass er bara aukaatriði. Samt ekki.
Undanfarna mánuði hef ég nefnilega verið að fá slæm höfuðverkjaköst, mígreni og svima og blóðþrýstingurinn verið lágur. Læknirinn minn sendi mig í sneiðmyndatöku og ítarlega blóðprufu en allt kom vel út. Skýringin á þessu öllu saman er víst bara streita og álag.

Viti menn, eftir því sem ég hreyfi mig oftar eykst spennulosunin og höfuðverkirnir minnka. En þar með er þó aðeins hálfur sigur unninn. Þótt þau hafi minnkað til muna þá koma þessi verkjaköst og mígreni ennþá reglulega og þá sæki ég sko í sykur og hveiti. Já ójá. Svo heiftarleg verður sykurþörfin að ég borða það sem hendi er næst. Þá er óþarfa tímaeyðsla að smyrja sultunni á brauðið, henni er bara skóflað beint upp í munn og brauðinu á eftir.
 Það slær á höfuðverkinn, í smástund. En svo verður mér illt í maganum.

Þá kemur seinna markmiðið til sögunnar. Þegar sykurþörfin kemur ætla ég að vera tilbúin með sætindi af hollara tagi en venjulega. Þótt ávaxtasykur sé ein tegund af sykri þá er hann náttúrulegur og fer betur í maga, að minnsta kosti minn. Ég ætla því að vera duglegri að búa til hollt snakk sem ég get gripið í þegar þörfin er sem mest.
En örvæntið ekki kæru sælkerar, helgarkökur og alls konar gómsætt mun einnig birtast hér á blogginu eins og venjulega.

Meistaramánuðinn ætla ég að hefja með uppskrift að ótrúlega einföldu og gómsætu ávaxtanammi, mangórúllum.
Sykraðar og súrar sælgætisrúllur eru í miklu uppáhaldi hjá Tinnu sykurtönn, meira en góðu hófi gegnir.
Í staðinn fyrir að vippa mér á nammibarinn bjó ég til þessar líka dásamlegu mangórúllur sem innihalda eintómt mangó. Þvílík sæla. Klara Sóllilja og Sóllilja Sara frænka hennar voru yfir sig hrifnar af nýstárlega namminu, enda frábært snakk fyrir litla heilsukroppa.


Mangórúllur

2 mangó
olía

Afhýðið mangó, skerið í bita og maukið vel í blandara.
Sníðið til tvær bökunarpappírsarkir þannig að þær passi í botninn á sitthvorri ofnplötunni. Smyrjið pappírinn með örþunnu lagi af olíu. Ég nota eldhúspappír til að dreifa úr olíunni.

Deilið mangópúrrunni jafn á ofnplöturnar og smyrjið með sleikju þannig að þunnt lag þekji svo til allan bökunarpappírinn.


Þurrkið mangóplöturnar í ofni við 80° í 4-5 klukkustundir eða þar til þær hafa þornað inn að miðju.

Klippið mangóplöturnar í ræmur og rúllið upp.


Einfaldara gæti það ekki verið.

Gleðilegan meistaramánuð!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur