Helgarsyndin


Mikið er haustlegur laugardagurinn fallegur í dag. Þessa helgina ætla ég ekki að deila með ykkur uppskrift að helgarköku heldur bombu, kókosbollubombu. Þið kannist örugglega við hina klassísku kókosbollubomu með marengs, kókosbollum og rjóma. Ég ætla að deila með ykkur minni útgáfu af þessari dýrð. Kókosbollubomban klikkar aldrei og hægt er að leika sér svo mikið með hráefnin í henni.


Kókosbollubomba
1 marengsbotn
250 g bláber
250 g jarðarber
1/2 granatepli
500 ml þeyttur rjómi
4 kókosbollur
100 g Maltesers kúlur

Brjótið marengsbotn í litla bita og dreifið yfir fat eða mót.
Skerið jarðarber í bita og sáldrið helmingnum yfir marengsbotninn ásamt helmingi af bláberjum og aldini úr 1/4 granatepli.

Skerið kókosbollur í bita, blandið saman við þeyttan rjóma og smyrjið yfir marengsbotninn. Skreytið með Maltesers kúlum og afgangi af jarðarberjum, bláberjum og granateplum. 

Þið getið notað hvaða marengs sem er, keypt hann tilbúinn eða bakað sjálf. Ég nota oftast brúnan marengs með Corn Flakes en stundum breyti ég til og hef hann hvítan. 

Berin þurfa ekki endilega að vera fersk, núna setti ég fersk bláber ofan á bombuna en frosin undir rjómann. Margir eiga eflaust frosin aðalbláber frá berjatíðinni í sumar og haust, þau er tilvalið að nota í svona rétt. Jarðarberin kaupi ég hins vegar alltaf fersk. Stundum hef ég líka sett frosin hindber í kókosbollubombuna, það er ofboðslega gott.

Möguleikarnir eru endalausir svo það er um að gera að prófa sig áfram, útkoman getur eiginlega ekki klikkað.

 Öll hráefni í þessa dýrð og dásemd eru fáanleg í Fjarðarkaupum.



Verði ykkur að góðu! 

Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur