Heilsunammi helgarinnar


Hollusta um helgar getur stundum verið svolítið erfið viðureignar, að minnsta kosti á mínu sælkeraheimili. Það á sérstaklega við þegar helgarnar fara í verkefnavinnu eins og þessi. Í þetta skipti ákvað ég að vera skrefi á undan sykursvíninu sjálfri mér og útbúa mun hollara helgarnammi en venjulega.
  
Margir kannast eflaust við Lärabar, hrástykki úr hnetum, þurrkuðum ávöxtum og alls kyns góðgæti. Stykkin eru afar góður kostur þegar sykurpúkinn gerir vart við sig en ekkert sérstaklega ódýr. Í gær gerði ég mína eigin útgáfu af hrástykkjum sem heppnaðist svona líka ljómandi vel. Ótrúlega bragðgóð og fullnægja sykurþörfinni fullkomlega. Ásamt sætu döðlubragðinu finnur maður í hverjum bita smá súrt bragð af trönuberjunum og hneturnar gefa hrástykkjunum góðan keim og fyllingu.Hrástykki
8 stk

20 mjúkar döðlur
60 g trönuber
50 g kasjúhnetur
50 g pecanhnetur
30 g kókosflögur

Hakkið döðlur, trönuber, kasjúhnetur, pecanhnetur og kókosflögur í matvinnsluvél þar til deigið verður klístrað og hnoðast saman í kúlu.

Sléttið úr deiginu í sílíkonform eða bökunarpappírsklætt brauðform og frystið í um 40 mínútur.
Takið úr forminu og skerið í hæfilega stór hrástykki.
Vefjið hverju stykki inn í bökunarpappír og geymið í ísskáp eða frysti.

Ég hef mín hrástykki fremur lítil því þau eru svo ofboðslega sæt og orkumikil.

Ofureinfalt og svo ljúffengt, þið verðið að prófa.

Öll hráefni í hrástykkin fást í Fræinu, heilsuvörudeild Fjarðarkaupa. Þar fæst allt milli himins og jarðar sem tengist hollum mat og heilbrigðu líferni.Góða helgi!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur