sunnudagur, 29. desember 2013

Waldorfsalat með gamlárskalkúninum


 Hápunktur jólahátíðarinnar er gamlársmaturinn.
Eftir að hafa borðað dágóðan slatta af reyktu og söltu kjöti er kalkúnninn hans föður míns kærkominn á veisluborðið.
 Hann gerir kalkúninn upp á amerískan máta og fyllingin er sú allra besta sem ég hef smakkað.
Í fyrra gerði ég í fyrsta skipti ofnbakaða sætkartöflustöppu með sykurpúðum og öðru góðgæti, hún var svo ljúffeng að ég ætla að gera hana aftur núna.
Með kalkúninum geri ég einnig mitt ástkæra waldorfsalat sem er í miklu uppáhaldi hjá föður mínum.

Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að waldorfsalatinu mínu svo þið getið nú glatt ykkar feður á gamlárskvöld, já eða bara hvern sem er.
Í salatið nota ég pekanhnetur í salatið en hið hefðbundna waldorfsalat inniheldur valhnetur.
Mér þykja pekanhneturnar bragðmildari og stökkari og þess vegna tilvaldar í waldorfsalat.

Rauð epli eru oft afar mjölvamikil á þessum árstíma. Ég mæli því með ljósrauðum eplum í smærri kantinum því þau eru oftast mjölvaminni.
Ég afhýði ekki eplin því hýðið gefur waldorfsalatinu svo fallegan jólalit en það er auðvitað smekksatriði.

Athugið að á myndinni er uppskriftin tvöföld.


Waldorfsalat

1 grænt epli
1 rautt epli
250 g rauð vínber
2 stilkar sellerí
100 g pekanhnetur
80 g sýrður rjómi
150 ml þeyttur rjómi
safi úr 1/4 sítrónu
1 1/3 msk sykur

Skerið epli og sellerí í litla bita og vínber í tvennt.
Ristið pekanhnetur í stutta stund á þurri pönnu og brytjið gróflega.

Hrærið sýrðan rjóma þannig að hann verði kekkjalaus og blandið saman við þeyttan rjóma.
Kreistið sítrónusafa yfir rjómablönduna og hrærið saman við ásamt sykri.

Blandið eplum, selleríi, vínberjum og pekanhnetum saman í skál og hrærið rjómablöndu saman við.

Berið fram í fallegri skál með gamlárskalkúninum.


Verði ykkur að góðu!
 
Tinna Björg

mánudagur, 23. desember 2013

Lifandi aðventukrans, einföld kertaskreyting og skreytt greni


Á aðventunni kveiki ég alltaf á kertum í aðventukransinum sem ég geri úr greinum af lifandi greni og sýprus.
Við erum alltaf með gervijólatré um jólin, sem mér finnst alveg ómögulegt en ég bæti mér það upp með greni hér og þar um heimilið.

Þennan sama krans geri ég á hverju ári og með sama skrauti.
Bastkransinn er fáanlegur m.a. í Blómaval og Garðheimum.
 Ég kaupi greni og festi það sjálf á kransinn en einnig er hægt að fá tilbúinn grenikrans.
Í kransinn þarf einn vönd af fallegu greni og einn vönd af sýprus.

Ég klippi grenið og sýprusinn svo niður í litlar greinar og vef þeim um kransinn með þunnum vír sem fæst í föndurverslunum.Litlu greinarnar eru lagðar á kransinn þannig að þær þeki hann og festar með vír.


Þegar grenikransinn er tilbúinn er ekkert eftir annað en að skreyta hann að vild.


Gylltu laufin keypti ég fyrir nokkrum árum í Hagkaup en þau voru föst á skrautgrein sem ég klippti niður.

Ég hef einnig gert jólakransa með gylltum könglum sem er ekki síður fallegt.
Könglana tíni ég af furutré í garðinum, spreyja með hárlakki og dýfi í gyllt glimmer.

 Rauðu kúlurnar keypti ég í Blómaval en þær fást í mörgum mismunandi litum, glansandi og mattar.


Kisinn hann Loki fær líka jólaslaufu á hverju ári svo hann fari nú ekki í jólaköttinn, því hann hatar ketti.

Ég er ofboðslega mikil kertakerling og þykir fátt notalegra en fallegar kertaskreytingar.
Þessa einföldu skreytingu gerði ég með afgangssýprus úr aðventukransagerðinni og rauðum borða úr Tiger.
Fallegar skreytingar þurfa síður en svo að vera flóknar eða dýrar.

 
Hver jól skreytum við leiði bróður míns, föðurömmu minnar, móðurömmu og -afa.
Síðastliðin ár höfum við skreytt lítið gervijólatré og sett á leiði bróður míns en í ár ákváðum við fjölskyldan að skreyta lítið sýprustré sem vex á leiðinu og er orðið nógu stórt til að þjóna tilgangi jólatrés.

Móðursystir mín keypti sér grenitré og þurfti að snyrta það aðeins til og var svo sæt í sér að gefa mömmu nokkrar greinar.
Ömmur mínar og afi fá greinarnar sem móðursystir mín færði okkur, skreyttar með könglum úr garðinum, rauðum slaufum og jólakúlum.
Það er svo miklu skemmtilegra að búa til skreytingarnar sjálfur en að kaupa þær í búð.
Ef það er eitthvað sem kemur manni í jólaskap þá er það föndur með ilmandi greni og rauðar jólaslaufur.

Ég hvet ykkur til að prófa sjálf á næsta ári!

Gleðileg jól kæru vinir, ég vona að þið hafið það sem allra best yfir hátíðarnar.


Tinna Björg

föstudagur, 20. desember 2013

Jólakonfekt


Þegar við vorum börn bauð föðuramma mín okkur frændsystkinahópnum í konfektgerð fyrir hver einustu jól.
Við áttum margar yndislegar stundir saman krakkarnir við eldhúsborðið á Kleppsveginum ásamt ömmu sem hafði eftirlit með herlegheitunum.
Konfektið var afar einfalt að gera og hentaði vel litlum fingrum sem byrjuðu snemma í konfektgerðinni.

Ég ætla að deila með ykkur uppskriftum að þrenns konar konfekti, marsipankonfektinu hennar ömmu með tveimur mismunandi kjörnum og súkkulaðimolunum mínum með mjúkri karamellufyllingu.

Marsipanið sem ég nota inniheldur 52% möndlumassa en mér þykir best að hafa svolítið mikið möndlubragð.
Til að ná súkkulaðinu fallega gljáandi og sléttu þarf að tempra það.
Flest súkkulaði kemur temprað frá framleiðandanum en þegar það er hitað yfir 32° skemmist temprunin og þarf að tempra það að nýju.

Hægt er að kaupa tilbúinn súkkulaðihjúp frá Nóa Síríus sem ekki þarf að tempra sérstaklega. Gott er að tempra rautt Síríus Konsum súkkulaði.

Auk þess að gefa súkkulaðinu gljáa veldur temprunin storknun sem annars tekur langan tíma með margar súkkulaðitegundir.

Hin hefðbundna temprun felst í því að smyrja hluta brædda súkkulaðisins á marmaraplötu til að kæla það niður og blanda því svo saman við afganginn.
Ég hins vegar nota einfaldari og ófagmannlegri aðferð við að tempra súkkulaðið.
Auðveldast er að tempra súkkulaði með því að bræða 2/3 súkkulaðisins yfir vatnsbaði þar til það hefur náð um 50° hita. Þá er 1/3 súkkulaðisins saxaður niður og hrært saman við brædda súkkulaðið þar til það hefur bráðnað.

Vinnsluhitastig súkkulaðisins er 32°, ef súkkulaðið er kaldara má hita það örlítið aftur yfir vatnsbaði þar til það hefur náð 32°. Gott er að mæla hitastig súkkulaðisins með kjötmæli eða venjulegum hitamæli.

Þegar súkkulaðið hefur kólnað niður í 32° hefur temprun átt sér stað og þá storknar það auðveldlega og glansar fallega.


Marsipankúlur með núggati

200 g marsipan
100 g núggat
200 g brætt súkkulaði

Skerið marsipan í smáa bita og núggat ennþá smærra.

Fletjið hvern marsipanbita út með fingrunum og setjið núggatbita í miðjuna.
Lokið marsipanbitunum og rúllið upp í kúlur þannig að núggatið sé umlukið marsipani.

Hjúpið marsipankúlurnar með bræddu súkkulaði og látið storkna á bökunarpappír. Marsipankúlur með gráfíkjum

200 g marsipan
5-6 þurrkaðar gráfíkjur
200 g brætt súkkulaði

Skerið marsipan í smáa bita og gráfíkjur ennþá smærra.

Fletjið hvern marsipanbita út með fingrunum og setjið gráfíkjubita í miðjuna.
Lokið marsipanbitunum og rúllið upp í kúlur þannig að gráfíkjubitarnir séu umluktir marsipani.

Hjúpið marsipankúlurnar með bræddu súkkulaði og látið storkna á bökunarpappír.

Gráfíkjumolarnir hafa alltaf verið mitt uppáhald. Ávaxtakeimurinn passar svo vel við marsipanið og súkkulaðið.

Ég mæli með því að þið notið hágæða þurrkaðar gráfíkjur því þessar í bökunardeildum búðanna eru oft of þurrar og ónothæfar.
Þær þurfa að vera svolítið blautar og mjúkar.


Karamellumolar

100 g smjör
100 g púðursykur
1 dl rjómi
1/2 vanillustöng
80 g rjómasúkkulaði

400 g brætt súkkulaði.

Fræhreinsið vanillustöng og setjið bæði fræin og stöngina í pott ásamt smjöri, púðursykri og rjóma. Sjóðið saman og látið krauma við vægan hita í 5 mínútur.

Takið pottinn af hellunni, fjarlægið vanillustöngina og brytjið rjómasúkkulaði út í.
 Hrærið saman þar til rjómasúkkulaðið hefur bráðnað og kælið.

 Fyllið konfektform með bræddu súkkulaði og hellið úr því þannig að eingöngu sitji eftir þunnt lag af súkkulaði.
 Gott er að slá formið með spaða þannig að súkkulaðið leki hraðar úr áður en það fer að storkna svo skeljarnar verði ekki of þykkar.

Skafið af yfirborði konfektformsins með spaða og kælið í ísskáp þar til súkkulaðið storknar.

Sprautið kaldri karamellufyllingunni í súkkulaðiskeljarnar með kramarhúsi eða sprautupoka þannig að 3/4 skeljanna fyllist.

Hellið súkkulaði yfir konfektformið að nýju, skafið afgangs súkkulaði vandlega af forminu með spaða og kælið aftur í ísskáp.

Losið molana varlega úr konfektforminu, ef formið er úr gúmmí þá er gott að teygja það út til hliðanna þannig að molarnir losni.

Við konfektgerðina notaði ég klakaform úr mjúku plasti en venjuleg klakaform duga alveg prýðilega líka.

Í staðinn fyrir kramarhús eða sprautupoka nota ég nestispoka sem ég hef klippt eitt hornið af, það er ódýrt og fljótlegt.

Svo er um að gera að leyfa sköpunargleðinni að njóta sín og skreyta konfektmolana að vild.

 Konfektgerð er tilvalin afþreying fyrir alla fjölskylduna á aðventunni og börnunum þykir hún ofboðslega skemmtileg.

Ekki skemmir svo fyrir að njóta konfektsins með smá jólaglögg og ef til vill heitu súkkulaði fyrir þau litlu.

Njótið vel.


Tinna Björg

þriðjudagur, 17. desember 2013

Fyrsti í jólabakstri - Snickers kökurÉg var rétt í þessu að ljúka við jólaþrifin og næstur á dagskrá er smákökubaksturinn.

Á hverju ári geri ég þessar unaðslega smákökur með Snickers og ætla mér ekki að bregða út af vananum þetta árið enda með eindæmum alveg óþolandi vanaföst.


Í ár betrumbætti ég uppskriftina aðeins með karamelluhnetum og karamellusósu, þvílíkur unaður.


Snickers smákökur

Smákökur

160 g hveiti
150 g púðursykur
¼ tsk matarsódi
¼ tsk salt
80 g mjúkt smjör
1 egg
2 tsk vanilludropar
150 g Snickers
100 g suðusúkkulaði

Blandið þurrefnum saman í skál og  hrærið saman við smjöri, eggi og vanilludropum.

Saxið Snickers og suðusúkkulaði smátt og hnoðið saman við deigið.

Vigtið 8-10 g af deigi í hverja smáköku og rúllið í kúlur.
 Setjið kúlurnar á bökunarpappírsklædda ofnplötu og bakið í miðjum ofni við 175° í 6 mínútur.

Til að auðvelda baksturinn er gott að rúlla deiginu upp í lengjur, kæla þær í um 40 mínútur og skera niður í smákökur.

Kökurnar verða þó fallegri með fyrri aðferðinni.


Karamella

125 g púðursykur
100 g smjör
125 ml rjómi
1 tsk vanilludropar

Sjóðið allt saman í potti og látið krauma við vægan hita í 10 mínútur.

Látið karamelluna kólna niður við stofuhita.

Setjið karamellu í kramarhús og sprautið yfir miðjuna á hverri smáköku.


Hnetukurl

1 pakki ristaðar karamelluhnetur frá H-Berg

Saxið hnetur gróft og þekið karamelluna á smákökunum með hnetukurli.

 
Eigið ánægjulegan jólabakstur!

Tinna Björg

föstudagur, 13. desember 2013

Súkkulaðiterta með Dooley's ganache

Ég átti Dooley's karamellulíkjör sem mig langaði að prófa mig áfram með í bakstrinum.

Útkoma tilraunastarfseminnar var þessi vægast sagt ljúffenga terta en ég hef gert hana nokkrum sinnum og hún slær alltaf jafn mikið í gegn.

 Uppskriftin er ein af þeim sem birtist í Vikunni fyrr á árinu.


Súkkulaðiterta með Dooley‘s ganache

Súkkulaðibotnar:
 
6 egg
220 g sykur
200 g suðusúkkulaði
75 g hveiti
4 msk kakó

Þeytið egg þar til þau verða létt og froðukennd.
Bætið sykri við og haldið áfram að þeyta þar til blandan verður þykk og gulleit.

Sigtið saman hveiti og kakó og blandið varlega saman við eggjablönduna.

Bræðið því næst suðusúkkulaði og blandið einnig varlega saman við.

Smyrjið tvö 24 cm kökuform vel og vandlega með smjöri og sníðið bökunarpappír ofan í botna formanna.

Skiptið deiginu jafnt á milli forma og bakið við 180° í 20-25 mínútur.

Fjarlægið kökubotnana volga úr formunum og kælið alveg.


Fylling:

6 dl þeyttur rjómi
300 g rjómaostur
180 g flórsykur
1 1/2 tsk vanilludropar
6 matarlímsblöð
5 msk rjómi

Þeytið rjómaost við stofuhita, flórsykur og vanilludropa saman í skál og blandið rjóma varlega saman við.


Látið matarlímsblöð liggja í bleyti þar til þau verða mjúk.
Bræðið þau saman við rjóma og kælið örlítið.

Hellið matarlíminu í mjórri bunu út í ostafyllinguna og hrærið stöðugt á meðan.

Athugið að ostafyllingin þarf að vera við stofuhita þegar matarlíminu er hrært saman við því límkekkir geta myndast ef fyllingin er of köld.

Kælið fyllinguna í 3-4 klukkustundir eða þar til fyllingin stífnar.
Gott er að gera ostafyllinguna daginn áður og geyma í kæli yfir nótt. 


Dooley‘s ganache:
 
175 g suðusúkkulaði
125 ml rjómi
2 msk Dooley‘s karamellulíkjör

Saxið suðusúkkulaði smátt og setjið í skál.

Hitið rjóma að suðu og látið krauma í stutta stund við vægan hita.

Hellið rjómanum yfir suðusúkkulaðið og látið standa í 5 mínútur.

Mikilvægt er að leyfa blöndunni að standa þessar 5 mínútur án þess að hræra í því hún getur skilið sig.

Hrærið súkkulaðinu og rjómanum saman ásamt Dooley‘s líkjör.

Kælið í ísskáp í nokkrar klst. eða þar til blandan er orðin nógu þykk til að hægt sé að smyrja henni ofan á tertuna. Gott er að útbúa ganache daginn áður og geyma í kæli.


1 mangó
125 g bláber
125 g rifsber eða önnur ber


Hvolfið öðrum botninum á disk og smyrjið ostafyllingu yfir.

Leggið hinn botninn ofan á og smyrjið með þykku lagi af ganache.

Skerið mangó og dreifið yfir kökuna ásamt berjunum.


Þessi terta er svo aldeilis ljómandi tilvalin í aðventukaffið á sunnudaginn og ég hvet ykkur til að prófa hana.

Gleðilegan föstudag og góða helgi!


Tinna Björg

mánudagur, 9. desember 2013

Ilmandi og bragðgott Spaghetti Bolognese


Ég er ekki ennþá farin að huga að jólunum, hvorki byrjuð að skreyta né baka. 
 Prófalesturinn og dóttir mín eiga hug minn allan þessa dagana en eftir tæplega viku fer ég í síðasta prófið. Ég verð frelsinu svo sannarlega fegin.

Af nógu verður að taka í jólaundirbúningnum en ég ætla m.a. að baka 2-3 sortir af smákökum, gera jólakonfekt að hætti föðurömmu minnar og föndra lifandi jólakrans sem ég geri á hverju ári.

Ég hvet ykkur því til að fylgjast spennt með blogginu í desember kæru vinir.

Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift að Spaghetti Bolognese sem mér finnst svo ofboðslega góð.

Kjötsósan er sú sama og ég nota í mitt heittelskaða lasagna.

Galdurinn við gerð Spaghetti Bolognese er að leyfa kjötsósunni að malla sem lengst til að framkalla sterkt bragð og himneskan ilm af fjölbreyttu hráefnunum. 


Spaghetti Bolognese 
Fyrir 5-7 manns

Kjötsósa
 
2 ½ laukur
5 hvítlauksrif ólífuolía
400 g nautahakk

2-4 teningar nautakraftur
1 1/2 - 2 dl heitt vatn
415 g Hunt‘s pastasósa með hvítlauk og kryddjurtum (ein glerkrukka)
4-5 msk tómatpúrra
1 dós niðursoðnir tómatar
4 tsk oregano
6 tsk Italiano krydd
1 ½ tsk svartur pipar
handfylli fersk basilíka
1 askja sveppir

1 pakki spaghetti


Saxið lauk og hvítlauk og steikið vel í stórum potti með smá olíu.

Bætið við nautahakki og brúnið.


Leysið upp kjötkraft í heitu vatni og hellið í pottinn ásamt pastasósu.


Skerið niðursoðna tómata í bita og hrærið saman við kjötsósuna.


Því næst er tómatpúrru bætt í pottinn og sósan smökkuð til með oregano, Italian seasoning, svörtum pipar og ferskri basilíku.

Skerið sveppi í hæfilega stóra bita og blandið saman við kjötsósuna. 

Bæta má meiri kjötkrafti við til að ná fram ríkara kjötbragði en athugið að teningarnir innihalda oft mikið salt svo setjið lítið af kjötkrafti í einu.

Látið krauma við vægan hita í að minnsta kosti 90 mínútur.
Kjötsósan er best þegar hún hefur fengið að malla í 2-3 klukkustundir.Sjóðið spaghetti eftir leiðbeiningum.

Gott er að miða við 80-100 g af ósoðnu spaghetti á mann.

Berið fram með parmesanosti og góðu hvítlauksbrauði.


Ég minni svo á Facebook leikinn þar sem þátttakendur eiga þess kost að vinna gjafabréf fyrir tvo á Sushisamba.

Endilega verið með og hjálpið mér að deila uppskriftasíðunni með sem flestum.

Bestu kveðjur,


Tinna Björg