Ilmandi og bragðgott Spaghetti Bolognese


Ég er ekki ennþá farin að huga að jólunum, hvorki byrjuð að skreyta né baka. 
 Prófalesturinn og dóttir mín eiga hug minn allan þessa dagana en eftir tæplega viku fer ég í síðasta prófið. Ég verð frelsinu svo sannarlega fegin.

Af nógu verður að taka í jólaundirbúningnum en ég ætla m.a. að baka 2-3 sortir af smákökum, gera jólakonfekt að hætti föðurömmu minnar og föndra lifandi jólakrans sem ég geri á hverju ári.

Ég hvet ykkur því til að fylgjast spennt með blogginu í desember kæru vinir.

Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift að Spaghetti Bolognese sem mér finnst svo ofboðslega góð.

Kjötsósan er sú sama og ég nota í mitt heittelskaða lasagna.

Galdurinn við gerð Spaghetti Bolognese er að leyfa kjötsósunni að malla sem lengst til að framkalla sterkt bragð og himneskan ilm af fjölbreyttu hráefnunum. 


Spaghetti Bolognese 
Fyrir 5-7 manns

Kjötsósa
 
2 ½ laukur
5 hvítlauksrif ólífuolía
400 g nautahakk

2-4 teningar nautakraftur
1 1/2 - 2 dl heitt vatn
415 g Hunt‘s pastasósa með hvítlauk og kryddjurtum (ein glerkrukka)
4-5 msk tómatpúrra
1 dós niðursoðnir tómatar
4 tsk oregano
6 tsk Italiano krydd
1 ½ tsk svartur pipar
handfylli fersk basilíka
1 askja sveppir

1 pakki spaghetti


Saxið lauk og hvítlauk og steikið vel í stórum potti með smá olíu.

Bætið við nautahakki og brúnið.


Leysið upp kjötkraft í heitu vatni og hellið í pottinn ásamt pastasósu.


Skerið niðursoðna tómata í bita og hrærið saman við kjötsósuna.


Því næst er tómatpúrru bætt í pottinn og sósan smökkuð til með oregano, Italian seasoning, svörtum pipar og ferskri basilíku.

Skerið sveppi í hæfilega stóra bita og blandið saman við kjötsósuna. 

Bæta má meiri kjötkrafti við til að ná fram ríkara kjötbragði en athugið að teningarnir innihalda oft mikið salt svo setjið lítið af kjötkrafti í einu.

Látið krauma við vægan hita í að minnsta kosti 90 mínútur.
Kjötsósan er best þegar hún hefur fengið að malla í 2-3 klukkustundir.Sjóðið spaghetti eftir leiðbeiningum.

Gott er að miða við 80-100 g af ósoðnu spaghetti á mann.

Berið fram með parmesanosti og góðu hvítlauksbrauði.


Ég minni svo á Facebook leikinn þar sem þátttakendur eiga þess kost að vinna gjafabréf fyrir tvo á Sushisamba.

Endilega verið með og hjálpið mér að deila uppskriftasíðunni með sem flestum.

Bestu kveðjur,


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur