Waldorfsalat með gamlárskalkúninum


 Hápunktur jólahátíðarinnar er gamlársmaturinn.
Eftir að hafa borðað dágóðan slatta af reyktu og söltu kjöti er kalkúnninn hans föður míns kærkominn á veisluborðið.
 Hann gerir kalkúninn upp á amerískan máta og fyllingin er sú allra besta sem ég hef smakkað.
Í fyrra gerði ég í fyrsta skipti ofnbakaða sætkartöflustöppu með sykurpúðum og öðru góðgæti, hún var svo ljúffeng að ég ætla að gera hana aftur núna.
Með kalkúninum geri ég einnig mitt ástkæra waldorfsalat sem er í miklu uppáhaldi hjá föður mínum.

Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að waldorfsalatinu mínu svo þið getið nú glatt ykkar feður á gamlárskvöld, já eða bara hvern sem er.
Í salatið nota ég pekanhnetur í salatið en hið hefðbundna waldorfsalat inniheldur valhnetur.
Mér þykja pekanhneturnar bragðmildari og stökkari og þess vegna tilvaldar í waldorfsalat.

Rauð epli eru oft afar mjölvamikil á þessum árstíma. Ég mæli því með ljósrauðum eplum í smærri kantinum því þau eru oftast mjölvaminni.
Ég afhýði ekki eplin því hýðið gefur waldorfsalatinu svo fallegan jólalit en það er auðvitað smekksatriði.

Athugið að á myndinni er uppskriftin tvöföld.


Waldorfsalat

1 grænt epli
1 rautt epli
250 g rauð vínber
2 stilkar sellerí
100 g pekanhnetur
80 g sýrður rjómi
150 ml þeyttur rjómi
safi úr 1/4 sítrónu
1 1/3 msk sykur

Skerið epli og sellerí í litla bita og vínber í tvennt.
Ristið pekanhnetur í stutta stund á þurri pönnu og brytjið gróflega.

Hrærið sýrðan rjóma þannig að hann verði kekkjalaus og blandið saman við þeyttan rjóma.
Kreistið sítrónusafa yfir rjómablönduna og hrærið saman við ásamt sykri.

Blandið eplum, selleríi, vínberjum og pekanhnetum saman í skál og hrærið rjómablöndu saman við.

Berið fram í fallegri skál með gamlárskalkúninum.


Verði ykkur að góðu!
 
Tinna Björg

Ummæli

  1. Takk fyrir þetta :) Var með þetta salat án rjóma og sykurs nú á áranótunum og það vakti mikla lukku! Næst set ég smá sætuefni samt, en það var mjög gott!

    SvaraEyða
    Svör
    1. Sæl Alberta, sniðugt hjá þér að gera heilsusamlegri útgáfu! Já það getur orðið svolítið súrt með sýrðum rjóma og sítrónusafa, fínt að hafa örlítið af sætu með :)

      Eyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur