Jólakonfekt
Þegar við vorum börn bauð föðuramma mín okkur frændsystkinahópnum í konfektgerð fyrir hver einustu jól.
Við áttum margar yndislegar stundir saman krakkarnir við eldhúsborðið á Kleppsveginum ásamt ömmu sem hafði eftirlit með herlegheitunum.
Konfektið var afar einfalt að gera og hentaði vel litlum fingrum sem byrjuðu snemma í konfektgerðinni.
Ég ætla að deila með ykkur uppskriftum að þrenns konar konfekti, marsipankonfektinu hennar ömmu með tveimur mismunandi kjörnum og súkkulaðimolunum mínum með mjúkri karamellufyllingu.
Marsipanið sem ég nota inniheldur 52% möndlumassa en mér þykir best að hafa svolítið mikið möndlubragð.
Til að ná súkkulaðinu fallega gljáandi og sléttu þarf að tempra það.
Flest súkkulaði kemur temprað frá framleiðandanum en þegar það er hitað yfir 32° skemmist temprunin og þarf að tempra það að nýju.
Hægt er að kaupa tilbúinn súkkulaðihjúp frá Nóa Síríus sem ekki þarf að tempra sérstaklega. Gott er að tempra rautt Síríus Konsum súkkulaði.
Auk þess að gefa súkkulaðinu gljáa veldur temprunin storknun sem annars tekur langan tíma með margar súkkulaðitegundir.
Hin hefðbundna temprun felst í því að smyrja hluta brædda súkkulaðisins á marmaraplötu til að kæla það niður og blanda því svo saman við afganginn.
Ég hins vegar nota einfaldari og ófagmannlegri aðferð við að tempra súkkulaðið.
Auðveldast er að tempra súkkulaði með því að bræða 2/3 súkkulaðisins yfir vatnsbaði þar til það hefur náð um 50° hita. Þá er 1/3 súkkulaðisins saxaður niður og hrært saman við brædda súkkulaðið þar til það hefur bráðnað.
Vinnsluhitastig súkkulaðisins er 32°, ef súkkulaðið er kaldara má hita það örlítið aftur yfir vatnsbaði þar til það hefur náð 32°. Gott er að mæla hitastig súkkulaðisins með kjötmæli eða venjulegum hitamæli.
Þegar súkkulaðið hefur kólnað niður í 32° hefur temprun átt sér stað og þá storknar það auðveldlega og glansar fallega.
Marsipankúlur með núggati
200 g marsipan
100 g núggat
200 g brætt súkkulaði
Skerið marsipan í smáa bita og núggat ennþá smærra.
Fletjið hvern marsipanbita út með fingrunum og setjið núggatbita í miðjuna.
Lokið marsipanbitunum og rúllið upp í kúlur þannig að núggatið sé umlukið marsipani.
Hjúpið marsipankúlurnar með bræddu súkkulaði og látið storkna á bökunarpappír.
Marsipankúlur með gráfíkjum
200 g marsipan
5-6 þurrkaðar gráfíkjur
200 g brætt súkkulaði
Skerið marsipan í smáa bita og gráfíkjur ennþá smærra.
Fletjið hvern marsipanbita út með fingrunum og setjið gráfíkjubita í miðjuna.
Lokið marsipanbitunum og rúllið upp í kúlur þannig að gráfíkjubitarnir séu umluktir marsipani.
Hjúpið marsipankúlurnar með bræddu súkkulaði og látið storkna á bökunarpappír.
Gráfíkjumolarnir hafa alltaf verið mitt uppáhald. Ávaxtakeimurinn passar svo vel við marsipanið og súkkulaðið.
Ég mæli með því að þið notið hágæða þurrkaðar gráfíkjur því þessar í bökunardeildum búðanna eru oft of þurrar og ónothæfar.
Þær þurfa að vera svolítið blautar og mjúkar.
Gráfíkjumolarnir hafa alltaf verið mitt uppáhald. Ávaxtakeimurinn passar svo vel við marsipanið og súkkulaðið.
Ég mæli með því að þið notið hágæða þurrkaðar gráfíkjur því þessar í bökunardeildum búðanna eru oft of þurrar og ónothæfar.
Þær þurfa að vera svolítið blautar og mjúkar.
Karamellumolar
100 g smjör
100 g púðursykur
1 dl rjómi
1/2 vanillustöng
80 g rjómasúkkulaði
400 g brætt súkkulaði.
Fræhreinsið vanillustöng og setjið bæði fræin og stöngina í pott ásamt smjöri, púðursykri og rjóma. Sjóðið saman og látið krauma við vægan hita í 5 mínútur.
Takið pottinn af hellunni, fjarlægið vanillustöngina og brytjið rjómasúkkulaði út í.
Hrærið saman þar til rjómasúkkulaðið hefur bráðnað og kælið.
Fyllið konfektform með bræddu súkkulaði og hellið úr því þannig að eingöngu sitji eftir þunnt lag af súkkulaði.
Gott er að slá formið með spaða þannig að súkkulaðið leki hraðar úr áður en það fer að storkna svo skeljarnar verði ekki of þykkar.
Skafið af yfirborði konfektformsins með spaða og kælið í ísskáp þar til súkkulaðið storknar.
Sprautið kaldri karamellufyllingunni í súkkulaðiskeljarnar með kramarhúsi eða sprautupoka þannig að 3/4 skeljanna fyllist.
Hellið súkkulaði yfir konfektformið að nýju, skafið afgangs súkkulaði vandlega af forminu með spaða og kælið aftur í ísskáp.
Losið molana varlega úr konfektforminu, ef formið er úr gúmmí þá er gott að teygja það út til hliðanna þannig að molarnir losni.
Við konfektgerðina notaði ég klakaform úr mjúku plasti en venjuleg klakaform duga alveg prýðilega líka.
Í staðinn fyrir kramarhús eða sprautupoka nota ég nestispoka sem ég hef klippt eitt hornið af, það er ódýrt og fljótlegt.
Svo er um að gera að leyfa sköpunargleðinni að njóta sín og skreyta konfektmolana að vild.
Konfektgerð er tilvalin afþreying fyrir alla fjölskylduna á aðventunni og börnunum þykir hún ofboðslega skemmtileg.
Ekki skemmir svo fyrir að njóta konfektsins með smá jólaglögg og ef til vill heitu súkkulaði fyrir þau litlu.
Njótið vel.
Tinna Björg
Ummæli
Skrifa ummæli