fimmtudagur, 27. febrúar 2014

Pottréttur fyrir sælkerabörn


Nú stendur yfir hinn árlegi bókamarkaður Félags íslenskra bókaútgefenda sem að þessu sinni er staðsettur undir nýju stúkunni við Laugardalsvöll.
Bók föður míns, Frá heimsstyrjöld til herverndar, sem gefin var út árið 2007 er þar til sölu meðal margra góðra bóka. Hún er sú þriðja sem pabbi hefur skrifað og fjallar um tilurð Keflavíkurstöðvarinnar á stríðsárunum, um innihald hennar getið þið lesið hér.


Þótt bók um herinn á Íslandi tengist ekki mínu dálæti á mat á nokkurn hátt þá vil ég vekja athygli á henni fyrir þá sem gætu haft áhuga því umsvif breska og síðar bandaríska hersins hér á landi skipa jú afar stóran sess í sögu Íslendinga. Auk merkilegrar sögu inniheldur bókin ofboðslega skemmtilegar myndir frá gömlum tímum sem vert er að skoða.
Ég hvet ykkur því eindregið til að skella ykkur á bókamarkaðinn og verða ykkur úti um eitt af þeim fáu eintökum sem eftir eru!

En snúum okkur nú að matarpælingum.
Ég á það til að vera hugmyndasnauð þegar kemur að mat fyrir 9 mánaða gamla dóttur mína sem þykir afar gott að borða. Hugmyndaleysið leiðir stundum til þess að ég gef henni brauð í stað einhvers staðgóðs matar. Ég takmarka brauðneyslu við eitt mál á dag og þá gef ég henni helst gróft dökkt brauð eða flatkökur.
 Mér finnst mikilvægt að halda mataræðinu fjölbreyttu og reyni því reglulega að gefa Klöru Sóllilju kjöt með kvöldmatnum. Ég brá því á það ráð að kaupa svínagúllas og frysta nokkra bita saman í plastfilmu. Þannig get ég tekið út kjöt fyrir eitt mál í einu án þess að þurfa að afþíða heilan bakka.

Úr gúllasinu gerði ég einfaldan og fljótlegan pottrétt sem er tilvalið að gera þegar maður á grænmeti inni í ísskáp og soðnar kartöflur frá kvöldinu áður.


Svínapottréttur fyrir litla kroppa 

4-6 kirsuberjatómatar
1 sveppur
smá olía
1 soðin kartafla
5-6 bitar grísagúllas
1 tsk tómatpúrra
1 msk kókosmjólk


Skerið kirsuberjatómata í fernt, sveppinn smátt og steikið með smá olíu þar til tómatarnir verða mjúkir. Skerið gúllas og kartöflu  í hæfilega stóra bita fyrir litla munna og steikið með tómötum og sveppum. Bætið tómatpúrru og kókosmjólk saman við og látið krauma við vægan hita í um 10 mínútur.

 Sveppir eru kannski ekki fyrir öll börn en litla mín borðaði pottréttinn með bestu lyst svo það er um að gera að prófa.

Bestu kveðjur,


Tinna Björg

þriðjudagur, 25. febrúar 2014

Syndsamlega gott kjúklingasalat


Þetta kjúklingasalat gerir móðir mín stundum fyrir okkur fjölskylduna en uppskriftina fékk hún hjá samstarfskonu sinni. Þær krúttkerlingar eru alltaf að skiptast á girnilegum uppskriftum svo það eru reglulega nýir réttir á boðstólnum hjá mömmu sem ég fæ að njóta. Við uppskriftina bætti ég kasjúhnetum, mér finnst ómissandi að hafa einhvers konar hnetur í svona salati.
 Kjúklingasalat í balsamiksósu

1 dl sykur
1 dl balsamikedik
3 msk majones
1 dós sýrður rjómi
3 kjúklingabringur
salt
svartur pipar
1 bréf beikon
1 rauðlaukur
1 krukka fetaostur
1 1/2 dl kasjúhnetur
100 - 130 g klettasalat


Sjóðið sykur og balsamikedik í potti þar til sykurinn bráðnar og kælið. Hrærið majones og sýrðan rjóma saman í skál og bætið balsamikblöndunni við.

Saltið og piprið kjúklingabringur og steikið þær í ofni við 170° í 40-50 mínútur. Skerið bringurnar í bita og látið kólna.
Skerið beikon í bita og steikið á pönnu eða í ofninum með kjúklingabringunum.

Saxið rauðlauk smátt, hellið olíu af fetaosti og blandið saman í skál ásamt kjúklingabitum, beikoni, kasjúhnetum og klettasalati. Hrærið balsamikediksósunni saman við salatið.

Ég kýs að steikja kjúklingabringurnar frekar heilar í ofni en að steikja þær í bitum á pönnu því þá verða þær síður brasaðar, stökkar og þurrar. Beikonið finnst mér betra að steikja á pönnu því mér finnst það verða svolítið eins og gúmmi þegar það er eldað í ofni.


 Verði ykkur að góðu!


Tinna Björg

föstudagur, 21. febrúar 2014

Gamli góði brauðrétturinn


 Þegar við systkinin vorum börn gerði móðir okkar svo ofboðslega góðan brauðrétt fyrir öll afmæli og veislur, gamla góða skinku- og aspasbrauðréttinn.
Ég leyfi mér að fullyrða að flestir, ef ekki allir, hafi smakkað þennan dásamlega brauðrétt í einhverri útfærslu. Mamma gerir réttinn með jafningi, systir mín gerir hann með smurosti og sumir gera hann með majonesi. Brauðrétturinn er einn af þeim uppáhalds réttum sem ég geri án þess að nota uppskrift. Ég ber hann á borð í öllum veislum því mér finnst nauðsynlegt að hafa eitthvað salt á boðstólnum með öllum sætindunum. Hægt er að gera brauðréttinn á ótal vegu en mig langar að deila með ykkur minni aðferð.


Skinku- og aspasbrauðréttur

3 msk smjör
4 msk hveiti
700 ml nýmjólk
1 askja sveppasmurostur
1 dós aspas
1 bréf skinka
2-3 tsk grænmetiskraftur
15 brauðsneiðar
250 g rifinn ostur  

Bræðið smjör í stórum potti, takið hann af hellunni og hrærið hveiti saman við með pískara - búið til svokallaða smjörbollu. Hrærið smá nýmjólk saman við smjörbolluna og setjið pottinn aftur á helluna. Eftir því sem jafningurinn þykknar, hrærið þá mjólk smátt og smátt saman við. Hveitið á það til að hlaupa í kekki þegar mjólkinni er bætt við og því er best að byrja á lítilli mjólk og hræra kekkina út á meðan jafningurinn er þykkur. Athugið að jafningurinn brennur auðveldlega við svo mikilvægt er að hræra hann stanslaust.

Bætið sveppasmurosti við og hellið soði úr aspasdósinni í jafninginn. Skerið aspas og skinku í hæfilega stóra bita og blandið saman við. Smakkið til með grænmetiskrafti, byrjið á 1 tsk því krafturinn er misjafnlega saltur. Ég nota grænmetiskraft frá Oscar í duftformi. Hitið jafninginn að suðu og látið krauma við vægan hita í nokkrar mínútur á meðan brauðið er skorið.

Fjarlægið skorpu af brauðsneiðum og skerið þær í teninga. Setjið helming brauðteninganna í botninn á eldföstu móti og ausið helmingi jafningsins yfir. Dreifið afganginum af brauðinu yfir jafninginn í mótinu og hellið svo jafningi yfir. Sáldrið að lokum rifnum osti yfir brauðréttinn og bakið í ofni við 200° í 20-25 mínútur eða þar til osturinn verður fallega brúnn og svolítið stökkur.


Þessi dásamlegi gamli og góði brauðréttur er tilvalinn í allar veislur eða bara sem ljúffengur kvöldverður um helgina. Hvet ykkur öll til að prófa.

Takk fyrir að fylgjast með!


Tinna Björg

þriðjudagur, 18. febrúar 2014

Avocadojógúrt með jarðarberjasósu og múslí


Vinkona mín benti mér á svo góða avocadojógúrt í skólanum um daginn sem ég varð að smakka. Mötuneytið í HR hefur löngum verið þekkt fyrir háu verðin sín en ein avocadojógúrtdós kostar 590 krónur. Buddan fékk vel að blæða en góð var hún!
Mér finnst algjört brjálæði að eyða himinháum upphæðum í eitt millimál svo í staðinn fyrir að kaupa jógúrtina aftur gerði ég mína eigin útgáfu af henni sem er sko alls ekki síðri, eiginlega bara betri ef eitthvað er.


Avocadojógúrt með jarðarberjasósu

Jógúrt

1/2 avocado
3 msk grísk jógúrt

Maukið avocado og gríska jógúrt í matvinnsluvél eða blandara þar til jógúrtin verður silkimjúk og kekkjalaus.
Mér þykir best að nota gríska jógúrt en hægt er að setja venjulega hreina jógúrt í staðinn eða jafnvel sleppa henni alveg.


Jarðarberjasósa

6-7 frosin jarðarber
1-2 tsk hunang

Afþíðið jarðarber og sjóðið í potti með hunangi. Ég er svo mikill sælkeri að ég set 2 tsk af hunangi í mína jarðarberjasósu. Fyrir þá sem vilja algjörlega sleppa sykri er gott að setja nokkra steviudropa í staðinn.

Setjið avocadojógúrt og jarðarberjasósu lagskipt í skál eða krukku og stráið múslí eða muldum hnetum yfir.


Hollur og góður morgunmatur og tilvalið sem millimál í vinnuna eða skólann!


Tinna Björg

sunnudagur, 16. febrúar 2014

Créme Brûlée með engifer- og hindberjasósu


Á fimmtudaginn átti ég rjóma á síðasta söludegi og skellti í eina uppskrift af yndislegum eftirrétti sem ég er alveg sjúk í, créme brûlée. Mér finnst rétturinn svo elegant og gaman að bera hann fram. Það kemur á óvart hversu einfalt og fljótlegt er að gera créme brûlée og þess vegna finnst mér allir verða að prófa.

Þegar ég var með matarboð fyrir Morgunblaðið hafði ég
créme brûlée í eftirrétt og bjó til sósu með því. Engifer passar ofboðslega vel við þennan ljúffenga rjómabúðing og ekki síður hindber.

 Mynd: Þórður Arnar Þórðarson, ljósmyndari Morgunblaðsins

Créme Brûlée með engifer- og hindberjasósu
Créme Brûlée

500 ml rjómi
1 vanillustöng
100 g sykur
6 eggjarauður

Kljúfið vanillustöng, skafið úr henni fræin og skerið hana í bita. Hitið rjóma, vanillufræ og –stöng að suðu, lækkið hitann og látið krauma í 5 mínútur.
Pískið sykur og eggjarauður saman í skál í stutta stund þar til blandan lýsist örlítið. Athugið að ef eggjarauðurnar eru pískaðar of mikið bakast þær eins og kaka í ofninum og eyðileggjast. 
Hitið rjómann aftur að suðu og hellið rólega í skálina með eggjablöndunni. Hellið aðeins smávegis í einu svo eggin soðni ekki.
Sigtið rjómablönduna og hellið í þar til gerðar créme brûlée skálar. Sprengið loftbólur á yfirborði blöndunnar í mótinu, best er að gera það með brennara. Fyllið skálarnar að 2/3 hluta og setjið þær í ofnskúffu. Hellið heitu vatni í ofnskúffuna upp að helmingi hæðar skálanna.

Bakið í miðjum ofni við 150° í 20-30 mínútur eða þar til rjómablandan hefur stífnað aðeins. Mikilvægt er að fylgjast vel með því ef créme brûlée bakast of lengi verður það stíft og bragðast svolítið eins og harðsoðið egg. Mínar skálar eru grunnar og stórar og því er nóg að hafa þær í 20 mínútur í ofninum. Hærri og þykkri skálar gætu þurft að vera 5-10 mínútum lengur. Créme brûlée-ið er tilbúið þegar það hefur stífnað aðeins en það á að hristast eins og hlaup þegar ýtt er við skálunum.

Kælið og stráið þunnu lagi af hrásykri yfir. Brennið sykurinn með sérstökum créme brûlée brennara eða setjið skálarnar á grind efst í ofninum á grillstillingu í nokkrar mínútur þar til hrásykurinn hefur bráðnað og brunnið.


Engifer- og hindberjasósa

250 g frosin hindber
3 cm engifer
1 msk sýróp

Afhýðið engifer og rífið. Sjóðið hindber, engifer og sýróp saman í potti í 5-7 mínútur eða þar til berin hafa soðnað niður. Sigtið sósuna, hellið yfir créme brûlée í röndum eða yfir miðju þess og skreytið að vild, ef til vill með fallegum berjum.


Ég hvet ykkur til að skella í eina svona uppskrift kæru vinir, sérstaklega ykkur vanilluelskandi !


Tinna Björg

fimmtudagur, 13. febrúar 2014

Kjúklingaborgari með BBQ-rjómasósu


Nú er nóg að gera þessa dagana í skólanum og lífinu svo lítill tími hefur gefist undanfarið til matargerðar og bloggskrifa. Við mæðgurnar fórum í skemmtilega myndatöku í gær til að ferska aðeins upp á útlit síðunnar, ég hlakka mikið til að sjá útkomuna og sýna ykkur. Myndatakan er í tengslum við nýtt og spennandi verkefni sem ég er svo heppin að fá að taka þátt í en mér bauðst að blogga í samstarfi við nýja og spennandi vefsíðu sem opnar þann 13. mars. Ég get ekki greint meira frá samstarfinu eða nýju vefsíðunni eins og er en ég get þó fullvissað ykkur um að hún verður snilldin ein. Spennan er í hámarki og ég hvet ykkur til að fylgjast vel með.

Við fjölskyldan byrjuðum vikuna á dýrindis kjúklingaborgurum sem við höfum reglulega í kvöldmat. Þótt ég eldi mikið er ég afar matvönd og borða helst ekki hamborgara nema ég geri þá sjálf frá grunni. Ég er hrifnari af kjúklingaborgurum og þá sérstaklega þessum eðalborgara með dásamlegri BBQ-rjómasósu. Þótt kalt sé í veðri grillum við reglulega enda ekkert því til fyrirstöðu að kveikja upp í grillinu sem stendur í skjóli úti á svölum. Kjúklingaborgarar
Fyrir 4
 
 4 kjúklingabringur
olía
salt
svartur pipar
8-12 sneiðar ostur
4 hamborgarabrauð

Penslið kjúklingabringur með olíu og kryddið með salti og pipar. Grillið bringurnar á hvorri hlið í 5-7 mínútur eða þar til þær hafa eldast í gegn. Setjið 2-3 ostsneiðar á hverja kjúklingabringu þegar 3 mínútur eru eftir af grilltímanum. Osturinn á að bráðna en ekki verða stökkur.
 Takið hamborgarabrauð í sundur og látið bakast á báðum hliðum á efri grind grillsins þar til þau verða stökk að utan en mjúk að innan.


BBQ-rjómasósa
400 ml rjómi
6-8 msk BBQ-sósa
sósujafnari (má sleppa)

Hitið rjóma og BBQ-sósu saman og látið krauma við vægan hita í 5 mínútur. Mér þykir gott að hafa sósuna þunna en þeir sem vilja þykkja hana geta notað sósujafnara.


12 sneiðar beikon
1 avocado
salat
annað grænmeti eftir smekk
 
Steikið beikon og skerið avokado í sneiðar ásamt öðru grænmeti eftir smekk. Setjið kjúklingaborgarana saman með salati, avocado, beikoni og öðru grænmeti og hellið BBQ-rjómasósu yfir áður en brauðlokin fara ofan á. 

Berið fram með sætkartöflufrönskum eða ofnbökuðu grænmeti. 
 
Njótið dagsins kæru vinir! 


Tinna Björg 

fimmtudagur, 6. febrúar 2014

Dásamlegur svínapottréttur


Áhugi minn á pottréttum hefur aukist til muna undanfarið. Mér þykir virkilega skemmtilegt að prófa mig áfram með hinar ýmsu kryddblöndur og pottréttir eru tilvaldir í þá tilraunastarfsemi.

Þennan grísapottrétt gerðum við pabbi saman í vikunni. Uppskriftina fékk ég hjá eiginmanni tengdamömmu minnar sem er sannkallaður pottréttasérfræðingur. Það er alltaf svo dásamlegt að fara í mat til tengdó á Akranesi og fá dýrindis pottréttina sem hann er svo góður í að gera.


Karrýpottréttur
Fyrir 6-7 manns

600 g grísahnakki eða gúllas
2 msk smjör
2 msk olía
3 tsk karrý
salt
svartur pipar
1 1/2 laukur
2 stórar gulrætur
1 rauð paprika
1 gul paprika
400 g sveppir
3 hvítlauksrif
1 dós niðursoðnir tómatar
2-3 msk tómatpúrra
500 ml matreiðslurjómi
2 teningar nautakraftur

Skerið grísahnakka í bita og brúnið á pönnu með smjöri og olíu. Sáldrið karrý yfir kjötið ásamt salti og svörtum pipar eftir smekk. Skerið lauk, gulrætur, papriku og sveppi í hæfilega stóra bita og pressið hvítlauk. Steikið grænmetið þar til það fer að mýkjast og setjið í pott ásamt kjötbitum. Skerið niðursoðna tómata í smáa bita og setjið í pottinn ásamt tómatpúrru og rjóma. Hitið pottréttinn að suðu og látið krauma í 45  mínútur. Smakkið til með nautakrafti, salti og svörtum pipar.

Ég nota grísahnakka frekar en gúllas því hann verður mýkri í pottréttinum. Gott er að skipta svínakjötinu út fyrir nautakjöt við fínni tilefni eða jafnvel hafa nautakjöt og svínakjöt til helminga.

Best þykir mér að bera karrýpottréttinn fram með hrísgrjónum, salati og heimagerðu hvítlauksbrauði.

Verði ykkur að góðu!


Tinna Björg

mánudagur, 3. febrúar 2014

Sushi með humar tempura

Ég er mikill sushiunnandi, sem er svolítið sérkennilegt því ég borða ekki hráan fisk. En það kemur ekki að sök því flestir ef ekki allir sushistaðir á höfuðborgarsvæðinu bjóða upp á bita með grænmeti og ýmsu öðru góðgæti.

Nýlega fór ég að prófa mig áfram í sushigerð og hefur nokkuð vel til tekist. Ég tek það þó fram að ég er enginn snillingur í þeim efnum og mig langar mikið að skella mér á námskeið við tækifæri til að læra réttu handtökin.
 Þegar ég útbý sushi fyrir mig og fjölskylduna geri ég makirúllur með laxi og grænmetisrúllur fyrir mig. Kærastinn minn fær svo oftast nokkra nigiribita aukalega því þeir eru hans uppáhald. Sushi með fersku grænmeti getur tæplega klikkað en mér þykir avocado ómissandi í makirúllurnar. Auk avocado er afar gott að hafa hvítlaukssteiktan aspas, gulrætur og klettasalat. Kjúklingastrimlar eru góðir með grænmetinu en allra best þykir mér þó sushi með humar tempura.
Fyrir þá sem ekki vita er humar tempura djúpsteiktur humar í tempuradeigi. Af því að ég er svo hrifin af humri með hvítlauk þykir mér ofboðslega gott að setja smá hvítlauksmaj0nes inn í makirúllurnar með djúpsteikta humrinum í stað spicy mayo eins og sushi inniheldur svo oft.

Þessa sushiuppskrift gerði ég fyrir saumaklúbbsmatarboð sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins í janúar. Myndina tók Þórður Arnar Þórðarson, ljósmyndari hjá Morgunblaðinu.Makirúllur með humar tempura 

Hrísgrjón 

80 ml hrísgrjónaedik
30 g sykur
1/3 tsk salt
500 g sushi hrísgrjón
550 ml vatn


Hitið hrísgrjónaedik, sykur og salt saman í potti þar til sykurinn leysist upp án þess þó að blandan sjóði. Kælið ediksblönduna. 

Hreinsið hrísgrjón með köldu vatni í glerskál, nuddið burt sterkjuna og hellið af þeim. Endurtakið 3-4 sinnum þar til vatnið verður tært. Hellið köldu vatni yfir hrísgrjónin og látið standa í 30 mínútur eða þar til grjónin verða hvít. Sigtið hrísgrjónin og setjið í pott með loki ásamt vatni og hitið að suðu. Lækkið hitann og látið þau krauma í 15 mínútur. Takið pottinn af hellunni og látið hann standa í 15 mínútur með loki.

Setjið hrísgrjón í viðarskál eða eldfast mót og hellið ediksblöndu jafnt yfir. Blandið  saman með viðaráhaldi eins og verið sé að skera þau í sundur. Reynið að kremja hvorki hrísgrjónin né hræra í þeim heldur einungis að dreifa úr þeim, losa í sundur og kæla. 


Humar tempura 

300 g smáir humarhalar
125 g hveiti
½ tsk lyftiduft
salt
svartur pipar
180-200 ml sódavatn
olía

Blandið hveiti, lyftidufti, salti og svörtum pipar saman í skál og pískið sódavatn saman við. Þerrið humarhala og dýfið í deigið.

Hitið olíu að 180° og leggið humarhala varlega ofan í. Djúpsteikið þar til deigið hefur brúnast fallega. 


Hvítlauksmajones 

2 msk majones
1 hvítlauksrif
½ tsk chillimauk

Pressið hvítlauk og hrærið saman við majones og chillimauk. 


Maki rúllur 

8 nori þarablöð
elduð sushi hrísgrjón
humar tempura
1 avocado
klettasalat
hvítlauksmajones

Leggið nori þarablað á bambusmottu þannig að glansandi hliðin snúi niður. Þekið það með hrísgrjónum en skiljið eftir auða u.þ.b. 1 ½ cm breiða ræmu á öðrum endanum. Leggið humar tempura á þvert yfir miðju þarablaðsins ásamt handfylli af klettasalati. Skerið avocado í mjóar ræmur og leggið ofan á klettasalatið. Sprautið mjórri rönd af hvítlauksmajonesi yfir fyllinguna og rúllið upp með bambusmottunni.

Athugið að hafa fingurna alltaf blauta þegar sushi hrísgrjónin eru meðhöndluð því þau klístrast auðveldlega.

Þegar makirúllurnar eru skornar er gott að hafa hárbeittan hníf og dýfa honum í vatn á milli skurða. Skerið hverja rúllu í 8-10 jafnstóra bita.

Berið fram með sojasósu, súrsuðu engifer og wasabimauki.

Ég hvet alla sushielskandi lesendur til að prófa þessa unaðslegu útfærslu af maki.

Ykkur sem hafið áhuga á að fylgjast frekar með mér bendi ég á að fylgja mér á Instagram en notandanafnið er tinnabjorgcom.


Tinna Björg