Créme Brûlée með engifer- og hindberjasósu


Á fimmtudaginn átti ég rjóma á síðasta söludegi og skellti í eina uppskrift af yndislegum eftirrétti sem ég er alveg sjúk í, créme brûlée. Mér finnst rétturinn svo elegant og gaman að bera hann fram. Það kemur á óvart hversu einfalt og fljótlegt er að gera créme brûlée og þess vegna finnst mér allir verða að prófa.

Þegar ég var með matarboð fyrir Morgunblaðið hafði ég
créme brûlée í eftirrétt og bjó til sósu með því. Engifer passar ofboðslega vel við þennan ljúffenga rjómabúðing og ekki síður hindber.

 Mynd: Þórður Arnar Þórðarson, ljósmyndari Morgunblaðsins

Créme Brûlée með engifer- og hindberjasósu
Créme Brûlée

500 ml rjómi
1 vanillustöng
100 g sykur
6 eggjarauður

Kljúfið vanillustöng, skafið úr henni fræin og skerið hana í bita. Hitið rjóma, vanillufræ og –stöng að suðu, lækkið hitann og látið krauma í 5 mínútur.
Pískið sykur og eggjarauður saman í skál í stutta stund þar til blandan lýsist örlítið. Athugið að ef eggjarauðurnar eru pískaðar of mikið bakast þær eins og kaka í ofninum og eyðileggjast. 
Hitið rjómann aftur að suðu og hellið rólega í skálina með eggjablöndunni. Hellið aðeins smávegis í einu svo eggin soðni ekki.
Sigtið rjómablönduna og hellið í þar til gerðar créme brûlée skálar. Sprengið loftbólur á yfirborði blöndunnar í mótinu, best er að gera það með brennara. Fyllið skálarnar að 2/3 hluta og setjið þær í ofnskúffu. Hellið heitu vatni í ofnskúffuna upp að helmingi hæðar skálanna.

Bakið í miðjum ofni við 150° í 20-30 mínútur eða þar til rjómablandan hefur stífnað aðeins. Mikilvægt er að fylgjast vel með því ef créme brûlée bakast of lengi verður það stíft og bragðast svolítið eins og harðsoðið egg. Mínar skálar eru grunnar og stórar og því er nóg að hafa þær í 20 mínútur í ofninum. Hærri og þykkri skálar gætu þurft að vera 5-10 mínútum lengur. Créme brûlée-ið er tilbúið þegar það hefur stífnað aðeins en það á að hristast eins og hlaup þegar ýtt er við skálunum.

Kælið og stráið þunnu lagi af hrásykri yfir. Brennið sykurinn með sérstökum créme brûlée brennara eða setjið skálarnar á grind efst í ofninum á grillstillingu í nokkrar mínútur þar til hrásykurinn hefur bráðnað og brunnið.


Engifer- og hindberjasósa

250 g frosin hindber
3 cm engifer
1 msk sýróp

Afhýðið engifer og rífið. Sjóðið hindber, engifer og sýróp saman í potti í 5-7 mínútur eða þar til berin hafa soðnað niður. Sigtið sósuna, hellið yfir créme brûlée í röndum eða yfir miðju þess og skreytið að vild, ef til vill með fallegum berjum.


Ég hvet ykkur til að skella í eina svona uppskrift kæru vinir, sérstaklega ykkur vanilluelskandi !


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur