Pottréttur fyrir sælkerabörn


Nú stendur yfir hinn árlegi bókamarkaður Félags íslenskra bókaútgefenda sem að þessu sinni er staðsettur undir nýju stúkunni við Laugardalsvöll.
Bók föður míns, Frá heimsstyrjöld til herverndar, sem gefin var út árið 2007 er þar til sölu meðal margra góðra bóka. Hún er sú þriðja sem pabbi hefur skrifað og fjallar um tilurð Keflavíkurstöðvarinnar á stríðsárunum, um innihald hennar getið þið lesið hér.


Þótt bók um herinn á Íslandi tengist ekki mínu dálæti á mat á nokkurn hátt þá vil ég vekja athygli á henni fyrir þá sem gætu haft áhuga því umsvif breska og síðar bandaríska hersins hér á landi skipa jú afar stóran sess í sögu Íslendinga. Auk merkilegrar sögu inniheldur bókin ofboðslega skemmtilegar myndir frá gömlum tímum sem vert er að skoða.
Ég hvet ykkur því eindregið til að skella ykkur á bókamarkaðinn og verða ykkur úti um eitt af þeim fáu eintökum sem eftir eru!

En snúum okkur nú að matarpælingum.
Ég á það til að vera hugmyndasnauð þegar kemur að mat fyrir 9 mánaða gamla dóttur mína sem þykir afar gott að borða. Hugmyndaleysið leiðir stundum til þess að ég gef henni brauð í stað einhvers staðgóðs matar. Ég takmarka brauðneyslu við eitt mál á dag og þá gef ég henni helst gróft dökkt brauð eða flatkökur.
 Mér finnst mikilvægt að halda mataræðinu fjölbreyttu og reyni því reglulega að gefa Klöru Sóllilju kjöt með kvöldmatnum. Ég brá því á það ráð að kaupa svínagúllas og frysta nokkra bita saman í plastfilmu. Þannig get ég tekið út kjöt fyrir eitt mál í einu án þess að þurfa að afþíða heilan bakka.

Úr gúllasinu gerði ég einfaldan og fljótlegan pottrétt sem er tilvalið að gera þegar maður á grænmeti inni í ísskáp og soðnar kartöflur frá kvöldinu áður.


Svínapottréttur fyrir litla kroppa 

4-6 kirsuberjatómatar
1 sveppur
smá olía
1 soðin kartafla
5-6 bitar grísagúllas
1 tsk tómatpúrra
1 msk kókosmjólk


Skerið kirsuberjatómata í fernt, sveppinn smátt og steikið með smá olíu þar til tómatarnir verða mjúkir. Skerið gúllas og kartöflu  í hæfilega stóra bita fyrir litla munna og steikið með tómötum og sveppum. Bætið tómatpúrru og kókosmjólk saman við og látið krauma við vægan hita í um 10 mínútur.

 Sveppir eru kannski ekki fyrir öll börn en litla mín borðaði pottréttinn með bestu lyst svo það er um að gera að prófa.

Bestu kveðjur,


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur