Íslensk kjötsúpa


 Þótt snjórinn hafi látið sjá sig enn einu sinni þá fáum við þetta blíðskaparveður sem mér þykir ekki leiðinlegt, yndislegt að hafa snjó ef veðrið er gott. Við mæðgur brugðum undir okkur betri fætinum í hádeginu og röltum um miðbæinn með föður mínum, systur minni og fjölskyldu hennar. Við enduðum svo gönguna á Vegamótum, einum af mínum uppáhalds veitingastöðum.
Þegar kólnar í veðri langar mig alltaf í einhverja matarmikla og ilmandi súpu. Móðir mín hefur fundið það á sér í þetta skiptið því hún gerði kjötsúpuna sína góðu fyrir okkur fjölskylduna í vikunni.
Ég hef alltaf verið hrifnari af rjómalöguðum súpum og borða tærar súpur afar sjaldan. Fyrir nokkrum árum hefði mér ekki dottið í hug að bragða á kjötsúpu en bragðlaukarnir virðast þroskast með árunum og núna þykir mér íslensk kjötsúpa ofboðslega góð, að minnsta kosti súpan hennar mömmu.


 
Kjötsúpan hennar mömmu
Fyrir 8-10 manns
3 kg súpukjöt
vatn 
120 g þurrkaðar súpujurtir
1/2 bolli hrísgrjón
salt

8 stórar gulrætur

 Afþíðið súpukjöt og setjið í stóran pott.
Hellið vatni í pottinn þannig að fljóti vel yfir kjötið.
Hitið að suðu og fleytið ofan af súpunni. Bætið þurrkuðum súpujurtum og hrísgrjónum í pottinn og saltið eftir smekk.
Sjóðið kjötsúpuna í 1 klst. og 20 mínútur. Saxið gulrætur, bætið þeim út í súpuna og sjóðið áfram í 40 mínútur. Einnig er gott að saxa hvítkál smátt og setja í súpuna með gulrótunum.

Athugið að hrísgrjónin séu hvorki hraðsuðugrjón né grautargrjón. Þegar móðir mín gerir kjötsúpu notar hún alltaf hrísgrjón frá Uncle Ben's því þau eru lengi að soðna og maukast ekki.

Mér þykir afar gott að hafa mikið af hrísgrjónum í súpunni og gott er að bæta örlítið meiri grjónum til að gera hana matarmeiri.

 Með súpunni borðum við soðnar kartöflur, bitum þær niður í skálina og hellum súpunni yfir.
Svo eru eflaust margir af gamla skólanum sem vilja mjólkurglas með sinni súpu.

Kjötsúpan þótti mér svo góð að ég borðaði hana aftur daginn eftir, sem ég hefði kannski betur sleppt því ég missti símann minn ofan í súpuskálina. En hann ilmar þó allavega eins og uppáhaldið mitt, matur.

Verði ykkur að góðu og kærar þakkir fyrir að fylgjast með mér.


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur