Avocadojógúrt með jarðarberjasósu og múslí
Vinkona mín benti mér á svo góða avocadojógúrt í skólanum um daginn sem ég varð að smakka. Mötuneytið í HR hefur löngum verið þekkt fyrir háu verðin sín en ein avocadojógúrtdós kostar 590 krónur. Buddan fékk vel að blæða en góð var hún!
Mér finnst algjört brjálæði að eyða himinháum upphæðum í eitt millimál svo í staðinn fyrir að kaupa jógúrtina aftur gerði ég mína eigin útgáfu af henni sem er sko alls ekki síðri, eiginlega bara betri ef eitthvað er.
Avocadojógúrt með jarðarberjasósu
Jógúrt
1/2 avocado
3 msk grísk jógúrt
Maukið avocado og gríska jógúrt í matvinnsluvél eða blandara þar til jógúrtin verður silkimjúk og kekkjalaus.
Mér þykir best að nota gríska jógúrt en hægt er að setja venjulega hreina jógúrt í staðinn eða jafnvel sleppa henni alveg.
Jarðarberjasósa
6-7 frosin jarðarber
1-2 tsk hunang
Afþíðið jarðarber og sjóðið í potti með hunangi. Ég er svo mikill sælkeri að ég set 2 tsk af hunangi í mína jarðarberjasósu. Fyrir þá sem vilja algjörlega sleppa sykri er gott að setja nokkra steviudropa í staðinn.
Setjið avocadojógúrt og jarðarberjasósu lagskipt í skál eða krukku og stráið múslí eða muldum hnetum yfir.
Hollur og góður morgunmatur og tilvalið sem millimál í vinnuna eða skólann!
Tinna Björg
Ummæli
Skrifa ummæli