miðvikudagur, 30. október 2013

Nýja fína stellið og baunabuff með hvítlaukssósu


Ég keypti þennan fallega tebolla og þrjá diska úr nýjasta matar- og testellinu frá Royal Albert um daginn.
Nú þýðir ekkert annað en að gerast fín frú og byrja að safna postulíni.


Fallegir bollar með undirskálum eru einn af mínum helstu veikleikum, sérstaklega ef þeir eru blómóttir. Ég fór fyrir nokkrum vikum í Kolaportið og skoðaði bása með nokkrum fallegum bollum. Þar rakst ég á tvo vel blómótta mánaðarbolla sem komnir voru til ára sinna, gyllingin var orðin afar döpur og hafði kvarnast upp úr einum bollanum. Eigandi bássins ætlaði að selja bollana á 5000 kr. stykkið.
Mér þótti það heldur dýrt fyrir svona illa farna vöru og ákvað því frekar að kaupa mér nýjan bolla úr postulíni með gyllingu á sama verði og byrja að safna í stell.

Svona fallegt postulínsstell er eitthvað sem maður á alla tíð og arfleiðir börnin sín að. Í mínum bókum er það leyfileg afsökun til að kaupa fleiri bolla og diska!


En úr bollahugleiðingum í annað.
Ég varð uppiskroppa með skólanesti og nýtti gærkvöldið í að búa til lágkolvetnahrökkbrauð og þetta ofboðslega góða baunabuff.

Baunabuffið kenndi hún yndislega Magga mér að gera en hún var kokkur á hóteli þar sem ég vann sumarið 2012.
Buffið er eins og það gerist hollast en það er laust við allt hveiti og aukaefni sem er oft að finna í þessum tilbúnu keyptu buffum.

Uppskriftin birtist með viðtalinu í Vikunni í þarsíðustu viku.


Baunabuff

1 dós kjúklingabaunir
1 dós nýrnabaunir
175-200 g haframjöl
3 saxaðir hvítlauksgeirar
4 egg
handfylli söxuð fersk steinselja
¾ msk Season All
1 msk karrý
1 tsk svartur pipar
 

Maizena mjöl
olía

Sigtið baunir og setjið í skál ásamt öllum öðrum hráefnum nema Maizena mjöli og olíu.

Hrærið í hrærivél þar til allt hefur blandast vel saman.

Ég byrja á að setja 175 g af haframjöli og bæti meira við ef blandan er mjög blaut.
Athugið að þótt erfitt sé að móta buffin þegar blandan er blaut þá verða þau ekki eins þurr þegar þau eru steikt.
 
Mótið 8-10 buff með höndunum og setjið á bökunarpappírsklædda plötu.
 Kælið í ísskáp í 20 mínútur.
 
Veltið buffunum upp úr þunnu lagi af Maizena mjöli og steikið á pönnu með olíu.
 
Gott er að frysta buffin sem verða afgangs og hita þau svo upp í ofni í 10 mínútur.
 
Berið fram með hvítlaukssósu og salati.


 Hvítlaukssósa 

1 dós sýrður rjómi
2 msk majones
4 pressuð hvítlauksrif
1 ½ tsk hunang
1 tsk gult sinnep
1 msk sítrónusafi
salt
pipar

Hrærið allt saman í skál og smakkið til með salti og pipar.


Eigið gott miðvikudagskvöld og takk innilega fyrir að fylgjast með.


Tinna Björg

mánudagur, 28. október 2013

Ómótstæðilega Oreobomban


Verkefnavinnu þessarar annar er að mestu lokið, þvílíkur léttir. Það er þó skammgóður vermir að skila síðasta verkefninu í lok vikunnar því prófaundirbúningur tekur strax við.
Kærastinn minn varð 28 ára í síðustu viku og af því tilefni höfðum við kaffiboð fyrir fjölskyldur okkar á laugardaginn. Ég tók mér laugardagsfrí frá verkefnavinnu og eyddi deginum í bakstur. Við tókum svo á móti gestunum kl. 16 og auðvitað var skipulagða skólamærin á síðasta snúningi í kökuskreytingum þegar fólkið mætti.
 Laugardagskvöldinu var svo varið í yfirferð á hópverkefni með tveimur vinkonum úr skólanum.

 Gærdagurinn fór allur í andlegt gjaldþrot, ég lá í leti mestallan daginn svoleiðis úrvinda af þreytu.
Svona verkefnatarnir taka lymskulega á og þá sérstaklega eftir að ég átti dóttur mína. Það er ekki síður lýjandi að vera með stöðugt samviskubit yfir því að vera í burtu frá gullinu sínu svona mikið. En eins og vinkona mín benti svo réttilega á þá erum við að búa í haginn til að geta veitt börnunum okkar betri framtíð.

Veitingarnar sem ég útbjó fyrir afmæliskaffið voru flestar heldur fljótlegar í gerð að undanskilinni einni tertu sem tekur alveg heillangan tíma að baka enda geri ég hana um það bil einu sinni á ári. Auk tertunnar bauð ég upp á sígilda skinku- og aspasréttinn sem klikkar aldrei í veislum, ostasalat með snittubrauði, Rice Crispies rjómatertu, rjómakaramellukubba og ostaköku með Nóa kropp og hindberjasósu.

Nú þegar aðeins fer að hægjast um í skólanum get ég farið að einbeita mér betur að blogginu en matarmyndirnar, hannyrðahugmyndir og húsráð hafa svoleiðis hrannast upp hjá mér. Það er því af nógu að taka og ég ætla að byrja á að deila með ykkur uppskrift að þessari ómótstæðilegu Oreobombu.

Oreobomban er í algjöru uppáhaldi hjá mér en hún er ofboðslega tímafrek í gerð og krefst mikillar þolinmæði. Ég get þó með hreinni samvisku sagt að tertan er algjörlega tímans virði því hún inniheldur sykurpúðakrem, hvítt súkkulaði, rjómaost, rjóma, súkkulaði og Oreo kex.
Allt það unaðslegasta sem maður getur hugsað sér í einni köku!


Oreobomba

Súkkulaðibotnar

30 g suðusúkkulaði
60 g kakó
235 g heitt vatn
2 stór egg
2 eggjarauður
60 ml þeyttur rjómi
1 tsk vanilludropar
215 g hveiti
325 g ljós púðursykur
1 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
225 g brætt smjör

Blandið súkkulaði og kakói saman við heitt vatn og hrærið þar til súkkulaðið er bráðið.
Kælið í ísskáp í 20 mínútur.

Hrærið saman í skál eggjarauðum, þeyttum rjóma og vanilludropum og leggið til hliðar.

Blandið hveiti, ljósum púðursykri, salti og matarsóda saman í stóra skál og hrærið eggjarauðublöndunni saman við.
Bætið við einu eggi í einu og því næst bræddu smjöri.

Hrærið að lokum súkkulaðiblöndu saman við deigið.

Sníðið bökunarpappír ofan í tvö hringlaga kökuform og smyrjið þau.

Hellið deiginu jafnt í formin og bakið við 175° í 30-40 mínútur.

Ég frysti botnana oftast að minnsta kosti yfir eina nótt því þá eru þeir mýkri þegar tertan er sett saman.


Sykurpúðakrem

2 eggjahvítur
340 g Golden sýróp
1/4 tsk salt
110 g flórsykur
1/2 msk vanilludropar


Þeytið eggjahvítur, sýróp og salt saman í a.m.k. 5 mínútur.
Blandið flórsykri saman við á hægari stillingu ásamt vanilludropum.


Ostakrem

sykurpúðakrem
250 g rjómaostur
fræ úr einni vanillustöng
5 dl þeyttur rjómi
2 dl flórsykur
100 g hvítt súkkulaði
6 matarlímsblöð
3 msk heitt vatn
1 pakki Oreo kex

Hrærið rjómaost, sykurpúðakrem og vanillufræ saman í stórri skál.

Bræðið hvítt súkkulaði, kælið aðeins og blandið saman við rjómaostablönduna.

 Látið matarlímsblöð liggja í vatni í 5 mínútur.
Setjið blöðin í skál og hellið sjóðandi heitu vatni yfir.
Hrærið þar til þau leysast upp og kælið örlítið.
Hellið matarlíminu saman við ostakremið í mjórri bunu og hrærið stanslaust á meðan.

Hrærið flórsykri saman við þeyttan rjóma og blandið varlega saman við ostakremið.

Kælið kremið í ísskáp í 1 klst.
Hvolfið öðrum súkkulaðibotninum á kökudisk og smyrjið þykku lagi af ostakremi ofan á hann.
Myljið Oreo kex og stráið yfir kremið á botninum.
Smyrjið öðru lagi af kremi yfir Oreo kexið og leggið hinn botninn ofan á.

Þekið kökuna með ostakreminu og kælið í ísskáp þar til kremið stífnar, um 4-5 klst.

Í Hagkaup er stundum hægt að fá tilbúið sykurpúðakrem sem heitir Jet Puffed.
Ég kýs frekar að gera mitt eigið sykurpúðakrem því það er bragðmeira og þéttara þannig að ostakremið verður stífara.
Ef notað er tilbúið sykurpúðakrem þarf tvær dósir í uppskriftina.


Súkkulaðikrem

16 g kakó
35 ml heitt vatn
150 g mjúkt smjör
40 g flórsykur
örlítið salt
300 g suðusúkkulaði

 Hrærið kakói og heitu vatni saman í litla skál og kælið.
Bræðið suðusúkkulaði og kælið einnig.
Þeytið saman flórsykur, smjör og salt.
Bætið súkkulaðinu saman við og því næst kakóblöndunni.

Þekið tertuna með súkkulaðikremi þannig að ekkert sjáist í ostakremið.

Athugið að ef tertan er ekki kæld nógu lengi blandast ostakremið saman við súkkulaðikremið.
Einnig getur fyllingin flætt út úr tertunni þegar hún er skorin. Það er því mikilvægt að kæla hana vel.Hérna er ein gömul mynd af tertunni þar sem sést inn í hana

 Ég gerði Oreobombuna líka fyrir afmælið mitt 2012

Þessa unaðslegu tertu verðið þið að prófa allavega einu sinni kæru vinir.
Erfiðið er alveg þess virði, ég lofa!

 Verði ykkur að góðu.


Tinna Björg

mánudagur, 21. október 2013

Viðtal í Vikunni og alvöru belgískar vöfflur


Ég hef verið afar léleg í eldamennskunni og blogginu síðustu daga og vikur sökum anna. Verkefnavinnan í HR og þá sérstaklega lögfræðinni er sko alls ekkert grín en ég er búin að vera í stöðugri verkefnavinnu og heimaprófum í átta daga. Loksins sér fyrir endann á þessu og þá bíður mín þetta svona líka glæsilega fjall af hreinum þvotti sem öskrar á að láta brjóta sig saman.

Mér bauðst það tækifæri að vera matgæðingur Vikunnar í nýjasta tölublaðinu sem kom út síðastliðinn fimmtudag. Ég var fengin til að svara nokkrum skemmtilegum spurningum ásamt því að deila fimm af mínum uppáhalds uppskriftum. Spurningunum var afar skemmtilegt að svara en jafnframt svolítið erfitt því ég var spurð um hluti sem ég hef aldrei velt fyrir mér áður.

Uppskriftirnar sem urðu fyrir valinu í blaðið voru After Eight marengstertan sem ég hef þegar deilt hér á blogginu, hveitihornin hennar ömmu, kjötlasagna með ostasósu og sveppum, hollt og próteinríkt baunabuff með hvítlaukssósu og súkkulaðibomba með ostafyllingu og Dooley's ganache.

Ég hvet ykkur eindregið til að verða ykkur úti um eintak af nýjasta tölublaði Vikunnar kæru vinir!


Ég pantaði mér diska og bolla úr nýjasta Royal Albert postulínsstellinu og fékk þá senda í síðustu viku. Þvílík fegurð! Stellið er svolítið dýrt svo ég ákvað að byrja á þremur diskum og einum bolla og byrja að safna. Það er svo dúkkulegt og fallegt. Ég set inn myndir við tækifæri.

Um helgina fékk ég tengdó í heimsókn og bauð upp á þessar gómsætu belgísku vöfflur með kaffinu.

Ég las mér aðeins til um gerð belgískra vaffla en ég sé oft uppskriftir á netinu að þunnu og fljótandi vöffludeigi. Ekta belgískar vöfflur eru hins vegar gerðar úr svolítið þykku gerdeigi sem er látið lyfta sér áður en það er bakað.

Lykilhráefnið í deiginu er perlusykurinn sem bráðnar í vöfflujárninu og gerir vöfflurnar stökkar að utan en mjúkar að innan. Því grófari sem perlusykurinn er, þeim mun betra er að nota hann í belgískar vöfflur. Perlusykurinn sem fæst á Íslandi er afar fíngerður en það er þó hægt að nota hann í vöfflurnar þótt ekta perlusykur væri ákjósanlegri.Belgískar vöfflur

7 g þurrger
1/3 bolli volgt vatn
1 1/2 msk strásykur
1/8 tsk salt
2 bollar hveiti
3 egg
225 g mjúkt smjör
3/4 bolli perlusykur

Leysið þurrger upp í volgu vatni og blandið strásykri og salti saman við. Látið standa í 15 mínútur.
Setjið hveiti í skál, myndið í það holu og hellið gerblöndunni ofan í.
Hnoðið deigið vandlega saman með höndunum, bætið einu eggi saman við í einu og síðan smjöri.

Látið deigið hefast í um 2 klst. eða þar til það hefur tvöfaldast.

Blandið perlusykri varlega saman við deigið og látið hefast aftur í 15 mínútur.

Hitið vöfflujárn og setjið á það 3 msk af deigi fyrir hverja vöfflu. Bakið vöfflurnar í 2-3 mínútur þar til þær verða fallega brúnar.

Berið fram með karamellusósu og vanilluís eða rjóma.
Athugið að þurrefnin eru mæld í amerískum bollum.
Vöfflurnar eru heldur sætar og sumir vilja ef til vill minnka perlusykurinn örlítið.


Karamellusósa

115 g púðursykur
100 g smjör
125 ml rjómi
1 tsk vanilludropar

Sjóðið allt saman í potti í 5 mínútur.
Berið sósuna fram heita með vöfflunum.


Þær eru svo unaðslega stökkar og gómsætar þessar, þið verðið að prófa!


Bestu kveðjur,

Tinna Björg

miðvikudagur, 9. október 2013

Pönnukökur með ostafyllingu og jarðarberjasósu


Helgin fór öll í bakstur, eldamennsku og meiri bakstur.
Mér bauðst að vera matgæðingur Vikunnar og greip auðvitað þetta frábæra og spennandi tækifæri.
Ég matreiddi 5 ólíka rétti og fékk svo ljósmyndara frá Vikunni í heimsókn til að taka myndir af herlegheitunum.
Uppskriftirnar munu birtast ásamt viðtali í þarnæsta tölublaði, 17. október að mér skilst.

Ég er alveg heltekin af ostakökum þessa dagana, hugsa ekki um annað en uppskriftir sem innihalda rjómaost og rjóma.
Það var því vel við hæfi að gera eina bombu fyrir Vikuna.

Að sjálfsögðu gerði ostakökusjúklingurinn auka fyllingu, of mikið af henni.
Það kom þó ekki að sök því ég fékk aldeilis skínandi fína hugmynd þar sem elskulega fyllingin mín fékk að njóta sín, gamaldags íslenskar pönnukökur með ostafyllingu og jarðarberjasósu! Þvílíkur unaður.

Ég er sérlega smámunasöm þegar kemur að pönnuköku- og vöffludeigi. Deigið þarf að vera hæfilega sætt án þess þó að vera yfirþyrmandi því maður setur oftast eitthvað sætt ofan á þær líka. Svo mega þær ekki vera of þurrar heldur.

Þessi pönnukökuuppskrift frá föðurömmu minni er sú allra besta, hvort sem þeim er rúllað upp með sykri eða fylltar með sultu og rjóma. Já eða ostaköku.


Ömmupönnukökur með ostafyllingu og jarðarberjasósu

Pönnukökur
200 g hveiti
1 msk sykur
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
2-3 dl mjólk
2 egg 
2 msk brætt smjör
2 tsk vanilludropar
Blandið þurrefnum saman í skál.
Byrjið á að hræra 2 dl af mjólk saman við þurrefnin með pískara. Hellið mjólkinni í mjórri bunu í miðju skálarinnar og hrærið í litla hringi til að byrja með svo ekki myndist kekkir. Hrærið eggjum saman við og hrærið í stærri hringi til að bæta við hveiti. Athugið að best er að hræra kekki úr deiginu á meðan það er svolítið þykkt.
Hrærið að lokum smjöri og vanilludropum saman við.
Deigið á að vera þunnt svo það renni vel um pönnuna. Ef það er of þykkt, bætið þá við 1/2 - 1 dl af mjólk.

Ef miklir kekkir hafa myndast í deiginu má alltaf bjarga sér með því að sigta það.


Hitið pönnukökupönnu á hæstu stillingu og bræðið á henni örlitla smjörklípu. Lækkið niður í miðlungs hita og ausið þunnu lagi af deigi yfir pönnuna.
Látið deigið renna um pönnuna þannig að pönnukakan verði þunn.
Ef of mikið deig er á pönnunni má einfaldlega hella því af.
   
Þegar loftbólur hafa myndast á pönnukökunni og deigið er bakað í geng, snúið henni við og bakið á hinni hliðinni.
Ostafylling
400 ml þeyttur rjómi
200 g rjómaostur
120 g flórsykur
1 tsk vanilludropar
Þeytið rjómaost, flórsykur og vanilludropa saman í skál.
Blandið þeyttum rjóma varlega saman við.


Jarðarberjasósa
200 g frosin jarðarber
3 msk hrásykur
1 matarlímsblað

Setjið jarðarber og sykur í pott og sjóðið niður.
Sigtið sósuna.
Leggið matarlímsblað í bleyti þar til það verður mjúkt og hrærið saman við sósuna á meðan hún er heit.
Gott er að afþíða jarðarberin í örbylgjuofni áður en þau eru soðin til að flýta fyrir.


Ég hvet ykkur til að prófa þessar einföldu og fljótlegu pönnukökur, þið verðið sko ekki fyrir vonbrigðum.


Bestu kveðjur,

Tinna Björg

mánudagur, 7. október 2013

Töfrar borðediks


Notkun borðediks hefur verið svolítið í umræðunni þessa dagana á hinum ýmsu afþreyingarmiðlum landsins og gerðir hafa verið listar yfir öll helstu húsráð þar sem edik kemur við sögu.

Foreldrar mínir hafa mikið notað edik við heimilisverkin í gegn um tíðina og ég ekki komist hjá því að tileinka mér þau.

Mér datt í hug að taka saman nokkur húsráð sem við fjölskyldan notum mikið í okkar daglega lífi.

 ---
Föt úr gerviefni, þá sérstaklega bolir sem notaðir eru í líkamsrækt, eiga það til að lykta svolítið illa þegar svitnað er í þau. Til að eyða lyktinni er gott að hella góðri slettu af ediki í fötu með volgu vatni og leggja fötin í bleyti yfir nótt. Vindið svo mesta vatnið úr þeim og þvoið í þvottavél.
---
Ég á það til að gleyma fötum í þvottavélinni yfir nótt og þá kemur stundum svolítið vond lykt af þeim. Þá annað hvort legg ég fötin í ediksbleyti eða helli smávegis af ediki í hólfið á þvottavélinni.
---
Borðedik má einnig nota í salatdressingu. Foreldrar mínir nota það stundum þegar þeir eiga ekki til rauðvínsedik í ítalska dressingu sem þeim þykir alveg ómissandi út á salatið.
---
Þegar við skúrum parketið heima setjum við oft edik í skúringavatnið í stað sápu því það leysir upp fitu og skilur eftir fallegan glans á parketinu.
---
 Jarðarberin sem vaxa í garðinum endast illa þegar búið er að tína þau og þau verða fljótt lin. Til að þau haldi ferskleikanum lengur læt ég jarðarberin liggja í bleyti í nokkrar mínútur í 1 hluta af ediki á móti 10 hlutum af vatni. Vatnið er svo sigtað frá og berin látin þorna.
Þetta má gera við allar berjategundir.

Gott er að leggja rifsber og sólber í ediksbleyti í nokkrar mínútur áður en þau eru sultuð til að drepa skordýr og myglu sem gæti leynst í þeim.
---
Til að fjarlægja slæma lykt úr ruslaskáp, örbylgjuofni eða öðru rými blanda ég ediki saman við smá vatn í skál og læt standa inni í rýminu í nokkrar klst.

Þetta ráð má einnig nota við sígarettulykt.
---
Það hefur komið fyrir að kötturinn minn pissi einhvers staðar í húsinu en þá hreinsa ég það upp með ediki blönduðu í heitt vatn. Til að drepa lyktina er gott að hreinsa blettinn með hreinsiefni, hella svo matarsóda yfir og láta liggja yfir nótt. Matarsódinn er svo ryksugaður daginn eftir og bletturinn þveginn með ediksblönduðu vatni.
---
Til að fæla ketti frá sérstökum húsgögnum eða flötum er gott að spreyja ediki á yfirborð hlutarins, köttum er afar illa við lyktina.
---
Frænka mín kenndi mér það ráð að blanda saman ediki, vatni og sítrónusafa til að búa til glerúða. Þetta lærði hún í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík og virkar prýðilega.
---
  
Að auki rakst ég á þessa skemmtilegu síðu með 1001 mismunandi húsráði til að nota edik.


V0nandi koma þessi ráð að góðum notum!


Bestu kveðjur,

Tinna Björg

fimmtudagur, 3. október 2013

Skemmtilegheit síðustu helgar og dásamlegar fylltar pönnukökur


Síðasta helgi var ansi viðburðarík og sannkölluð átveisla hjá fjölskyldunni en hún byrjaði með óskaplega ljúffengum fylltum pönnukökum á föstudagskvöldið.
 
Á laugardaginn fórum við litla fjölskyldan ásamt föður mínum, mági og systursyni á hernámssetrið að Hlöðum í Hvalfirði, með stuttu stoppi í hvalstöðinni.

Guðjón Sigmundsson, Gaui litli eins og flestir þekkja hann, rekur hernámssetrið í félagsheimilinu Hlöðum.
Faðir minn var honum innan handar við uppsetningu sýningarinnar og ekki annað hægt að segja en að vel hafi til tekist.
Gaui er menntaður leikmyndahönnuður og safnið er sett upp í svakalega flotta leikmynd með vel útpældum smáatriðum.
Ég mæli eindregið með því að þið gerið ykkur ferð í Hvalfjörðinn einn góðan sunnudag og fáið að skoða safnið.
Mér skilst að það verði ekki opið í vetur en hægt er að hafa samband við Gauja og hann hefur þá opið eftir samkomulagi. Til að fá upplýsingar um þjónustuna getið þið skoðað heimasíðu Hlaða.

Þegar við komum heim úr Hvalfjarðarferðinni tók móðir mín á móti okkur heima með dýrindis hægelduðum grísabógi og meðlæti. Í eftirrétt höfðum við svo ostasúkkulaðitertu með Dooley's ganache sem ég hafði bakað kvöldið áður.

Á sunnudaginn fórum við pabbi í Kolaportið að skoða bækur, tónlist og ýmsa gamla muni. Ég keypti mér gamlan geisladisk með Björgvini Halldórssyni og forláta pönnu fyrir amerískar pönnukökur sem ég hlakka mikið til að prófa. Núna get ég haft brunch með pönnukökum á hverjum sunnudegi!

Eftir að hafa drukkið í okkur menninguna í miðbænum lá leiðin til systur minnar þar sem við tróðum okkur út af dásamlegum belgískum vöfflum með ís og karamellusósu ásamt öðru góðgæti.

Uppskriftirnar munu tínast hér inn á síðuna næstu vikur og mánuði en ég vil endilega deila með ykkur uppskrift að fylltu pönnukökunum sem ég gerði á föstudaginn.

 Fylltu pönnukökurnar hafði ég aldrei gert áður en ég hef nokkrum sinnum fengið þær á kaffihúsum og aldrei þótt þær nógu bragðmiklar. Ég gerði því mína eigin útfærslu á pönnukökunum sem heppnaðist svona líka ljómandi vel.

Deigið er venjuleg pönnukökuuppskrift frá föðurömmu minni án sykurs og vanilludropa.


Fylltar pönnukökur
fyrir 5-6 manns

Pönnukökur

200 g hveiti
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
2-3 dl mjólk
2 egg 
2 msk brætt smjör

Blandið þurrefnum saman í skál.
Byrjið á að hræra 2 dl af mjólk saman við þurrefnin með pískara. Hellið mjólkinni í mjórri bunu í miðju skálarinnar og hrærið í litla hringi til að byrja með svo ekki myndist kekkir. Hrærið eggjum saman við og hrærið í stærri hringi til að bæta við hveiti. Athugið að best er að hræra kekki úr deiginu á meðan það er svolítið þykkt.
Hrærið að lokum smjöri saman við.
Deigið á að vera svolítið þunnt og leka vel um pönnuna. Ef það er of þykkt, bætið þá við 1/2 - 1 dl af mjólk.

Ef miklir kekkir hafa myndast í deiginu má alltaf bjarga sér með því að sigta það.


Hitið venjulega steikarpönnu, ausið deigi yfir hana og látið renna um pönnuna þar til hún er þakin þunnu lagi.
Ef of mikið deig er á pönnunni má einfaldlega hella því af.

Þegar loftbólur hafa myndast á pönnukökunni og deigið er bakað í geng, snúið henni við og bakið á hinni hliðinni.

 Pönnukökurnar eiga að vera mjög ljósar og því er mikilvægt að hafa pönnuna ekki of heita. Þær fara aftur á pönnuna með fyllingunni síðar.

Úr einni uppskrift fást um 10 pönnukökur.

Fylling

4 kjúklingabringur
4 dl ósoðin villt hrísgrjón
1 msk olía
1/2 púrrulaukur
1 askja sveppir
1 1/2 rauð paprika
salt
svartur pipar
season all
karrý
aromat
rifinn ostur


Skerið kjúklingabringur í litla bita, kryddið með smá season all og svörtum pipar og steikið á pönnu. Setjið í stóra skál og leggið til hliðar.

Sjóðið villt hrísgrjón eftir leiðbeiningum með 1 msk af olíu og sigtið þau.

Skerið púrrulauk og sveppi í hæfilega stóra bita og steikið á pönnu upp úr olíu þar til sveppirnir fara að mýkjast.
Bætið hrísgrjónum á pönnuna og steikið við vægan hita.
Smakkið til með svörtum pipar, karrý, aromati og salti.
 Ég bæti saltinu síðast við því hrísgrjónin hafa þegar verið söltuð þegar þau eru soðin og því gæti verið óþarfi að bæta meira við.

Hellið hrísgrjónablöndunni í skálina með kjúklingabringunum og blandið saman.

Skerið papriku í litla bita og leggið til hliðar

Sinnepssósa

1/2 bolli majones
1/2 bolli sýrður rjómi

2 msk gult sinnep
4 msk fljótandi hunang
1 msk rauðvíns- eða hvítvínsedik
salt
pipar


Hrærið majones þannig að það verði mjúkt og bætið svo sýrðum rjóma saman við ásamt sinnepi, hunangi og rauðvíns- eða hvítvínsediki.
Ég nota French Yellow Mustard sem fæst stundum í Kosti eða Yellow Mustard sem fæst í Iceland. Mér finnst nauðsynlegt að hafa gult sinnep því sósan verður ekki eins bragðgóð með öðrum sinnepstegundum.Þrífið pönnuna og hitið hana aftur.
Leggið pönnuköku á pönnuna og dreifið osti yfir.
Setjið hrísgrjónafyllingu á annan helming pönnukökunnar og dreifið paprikubitum og sinnepssósu yfir.
Þegar osturinn hefur bráðnað, brjótið pönnukökuna saman í hálfmána og setjið á disk.

Ég steikti allar pönnukökurnar með fyllingu og átti þá afganginn tilbúinn inni í ísskáp til að borða daginn eftir.


Fylltu pönnukökurnar eru skemmtilegar í gerð og alveg tilvaldar sem afslappaður föstudagskvöldverður.

Ég hvet ykkur til að prófa þær um helgina kæru vinir.


Bestu kveðjur,

Tinna Björg