Töfrar borðediks


Notkun borðediks hefur verið svolítið í umræðunni þessa dagana á hinum ýmsu afþreyingarmiðlum landsins og gerðir hafa verið listar yfir öll helstu húsráð þar sem edik kemur við sögu.

Foreldrar mínir hafa mikið notað edik við heimilisverkin í gegn um tíðina og ég ekki komist hjá því að tileinka mér þau.

Mér datt í hug að taka saman nokkur húsráð sem við fjölskyldan notum mikið í okkar daglega lífi.

 ---
Föt úr gerviefni, þá sérstaklega bolir sem notaðir eru í líkamsrækt, eiga það til að lykta svolítið illa þegar svitnað er í þau. Til að eyða lyktinni er gott að hella góðri slettu af ediki í fötu með volgu vatni og leggja fötin í bleyti yfir nótt. Vindið svo mesta vatnið úr þeim og þvoið í þvottavél.
---
Ég á það til að gleyma fötum í þvottavélinni yfir nótt og þá kemur stundum svolítið vond lykt af þeim. Þá annað hvort legg ég fötin í ediksbleyti eða helli smávegis af ediki í hólfið á þvottavélinni.
---
Borðedik má einnig nota í salatdressingu. Foreldrar mínir nota það stundum þegar þeir eiga ekki til rauðvínsedik í ítalska dressingu sem þeim þykir alveg ómissandi út á salatið.
---
Þegar við skúrum parketið heima setjum við oft edik í skúringavatnið í stað sápu því það leysir upp fitu og skilur eftir fallegan glans á parketinu.
---
 Jarðarberin sem vaxa í garðinum endast illa þegar búið er að tína þau og þau verða fljótt lin. Til að þau haldi ferskleikanum lengur læt ég jarðarberin liggja í bleyti í nokkrar mínútur í 1 hluta af ediki á móti 10 hlutum af vatni. Vatnið er svo sigtað frá og berin látin þorna.
Þetta má gera við allar berjategundir.

Gott er að leggja rifsber og sólber í ediksbleyti í nokkrar mínútur áður en þau eru sultuð til að drepa skordýr og myglu sem gæti leynst í þeim.
---
Til að fjarlægja slæma lykt úr ruslaskáp, örbylgjuofni eða öðru rými blanda ég ediki saman við smá vatn í skál og læt standa inni í rýminu í nokkrar klst.

Þetta ráð má einnig nota við sígarettulykt.
---
Það hefur komið fyrir að kötturinn minn pissi einhvers staðar í húsinu en þá hreinsa ég það upp með ediki blönduðu í heitt vatn. Til að drepa lyktina er gott að hreinsa blettinn með hreinsiefni, hella svo matarsóda yfir og láta liggja yfir nótt. Matarsódinn er svo ryksugaður daginn eftir og bletturinn þveginn með ediksblönduðu vatni.
---
Til að fæla ketti frá sérstökum húsgögnum eða flötum er gott að spreyja ediki á yfirborð hlutarins, köttum er afar illa við lyktina.
---
Frænka mín kenndi mér það ráð að blanda saman ediki, vatni og sítrónusafa til að búa til glerúða. Þetta lærði hún í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík og virkar prýðilega.
---
  
Að auki rakst ég á þessa skemmtilegu síðu með 1001 mismunandi húsráði til að nota edik.


V0nandi koma þessi ráð að góðum notum!


Bestu kveðjur,

Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur