Skemmtilegheit síðustu helgar og dásamlegar fylltar pönnukökur


Síðasta helgi var ansi viðburðarík og sannkölluð átveisla hjá fjölskyldunni en hún byrjaði með óskaplega ljúffengum fylltum pönnukökum á föstudagskvöldið.
 
Á laugardaginn fórum við litla fjölskyldan ásamt föður mínum, mági og systursyni á hernámssetrið að Hlöðum í Hvalfirði, með stuttu stoppi í hvalstöðinni.

Guðjón Sigmundsson, Gaui litli eins og flestir þekkja hann, rekur hernámssetrið í félagsheimilinu Hlöðum.
Faðir minn var honum innan handar við uppsetningu sýningarinnar og ekki annað hægt að segja en að vel hafi til tekist.
Gaui er menntaður leikmyndahönnuður og safnið er sett upp í svakalega flotta leikmynd með vel útpældum smáatriðum.
Ég mæli eindregið með því að þið gerið ykkur ferð í Hvalfjörðinn einn góðan sunnudag og fáið að skoða safnið.
Mér skilst að það verði ekki opið í vetur en hægt er að hafa samband við Gauja og hann hefur þá opið eftir samkomulagi. Til að fá upplýsingar um þjónustuna getið þið skoðað heimasíðu Hlaða.

Þegar við komum heim úr Hvalfjarðarferðinni tók móðir mín á móti okkur heima með dýrindis hægelduðum grísabógi og meðlæti. Í eftirrétt höfðum við svo ostasúkkulaðitertu með Dooley's ganache sem ég hafði bakað kvöldið áður.

Á sunnudaginn fórum við pabbi í Kolaportið að skoða bækur, tónlist og ýmsa gamla muni. Ég keypti mér gamlan geisladisk með Björgvini Halldórssyni og forláta pönnu fyrir amerískar pönnukökur sem ég hlakka mikið til að prófa. Núna get ég haft brunch með pönnukökum á hverjum sunnudegi!

Eftir að hafa drukkið í okkur menninguna í miðbænum lá leiðin til systur minnar þar sem við tróðum okkur út af dásamlegum belgískum vöfflum með ís og karamellusósu ásamt öðru góðgæti.

Uppskriftirnar munu tínast hér inn á síðuna næstu vikur og mánuði en ég vil endilega deila með ykkur uppskrift að fylltu pönnukökunum sem ég gerði á föstudaginn.

 Fylltu pönnukökurnar hafði ég aldrei gert áður en ég hef nokkrum sinnum fengið þær á kaffihúsum og aldrei þótt þær nógu bragðmiklar. Ég gerði því mína eigin útfærslu á pönnukökunum sem heppnaðist svona líka ljómandi vel.

Deigið er venjuleg pönnukökuuppskrift frá föðurömmu minni án sykurs og vanilludropa.


Fylltar pönnukökur
fyrir 5-6 manns

Pönnukökur

200 g hveiti
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
2-3 dl mjólk
2 egg 
2 msk brætt smjör

Blandið þurrefnum saman í skál.
Byrjið á að hræra 2 dl af mjólk saman við þurrefnin með pískara. Hellið mjólkinni í mjórri bunu í miðju skálarinnar og hrærið í litla hringi til að byrja með svo ekki myndist kekkir. Hrærið eggjum saman við og hrærið í stærri hringi til að bæta við hveiti. Athugið að best er að hræra kekki úr deiginu á meðan það er svolítið þykkt.
Hrærið að lokum smjöri saman við.
Deigið á að vera svolítið þunnt og leka vel um pönnuna. Ef það er of þykkt, bætið þá við 1/2 - 1 dl af mjólk.

Ef miklir kekkir hafa myndast í deiginu má alltaf bjarga sér með því að sigta það.


Hitið venjulega steikarpönnu, ausið deigi yfir hana og látið renna um pönnuna þar til hún er þakin þunnu lagi.
Ef of mikið deig er á pönnunni má einfaldlega hella því af.

Þegar loftbólur hafa myndast á pönnukökunni og deigið er bakað í geng, snúið henni við og bakið á hinni hliðinni.

 Pönnukökurnar eiga að vera mjög ljósar og því er mikilvægt að hafa pönnuna ekki of heita. Þær fara aftur á pönnuna með fyllingunni síðar.

Úr einni uppskrift fást um 10 pönnukökur.

Fylling

4 kjúklingabringur
4 dl ósoðin villt hrísgrjón
1 msk olía
1/2 púrrulaukur
1 askja sveppir
1 1/2 rauð paprika
salt
svartur pipar
season all
karrý
aromat
rifinn ostur


Skerið kjúklingabringur í litla bita, kryddið með smá season all og svörtum pipar og steikið á pönnu. Setjið í stóra skál og leggið til hliðar.

Sjóðið villt hrísgrjón eftir leiðbeiningum með 1 msk af olíu og sigtið þau.

Skerið púrrulauk og sveppi í hæfilega stóra bita og steikið á pönnu upp úr olíu þar til sveppirnir fara að mýkjast.
Bætið hrísgrjónum á pönnuna og steikið við vægan hita.
Smakkið til með svörtum pipar, karrý, aromati og salti.
 Ég bæti saltinu síðast við því hrísgrjónin hafa þegar verið söltuð þegar þau eru soðin og því gæti verið óþarfi að bæta meira við.

Hellið hrísgrjónablöndunni í skálina með kjúklingabringunum og blandið saman.

Skerið papriku í litla bita og leggið til hliðar

Sinnepssósa

1/2 bolli majones
1/2 bolli sýrður rjómi

2 msk gult sinnep
4 msk fljótandi hunang
1 msk rauðvíns- eða hvítvínsedik
salt
pipar


Hrærið majones þannig að það verði mjúkt og bætið svo sýrðum rjóma saman við ásamt sinnepi, hunangi og rauðvíns- eða hvítvínsediki.
Ég nota French Yellow Mustard sem fæst stundum í Kosti eða Yellow Mustard sem fæst í Iceland. Mér finnst nauðsynlegt að hafa gult sinnep því sósan verður ekki eins bragðgóð með öðrum sinnepstegundum.



Þrífið pönnuna og hitið hana aftur.
Leggið pönnuköku á pönnuna og dreifið osti yfir.
Setjið hrísgrjónafyllingu á annan helming pönnukökunnar og dreifið paprikubitum og sinnepssósu yfir.
Þegar osturinn hefur bráðnað, brjótið pönnukökuna saman í hálfmána og setjið á disk.

Ég steikti allar pönnukökurnar með fyllingu og átti þá afganginn tilbúinn inni í ísskáp til að borða daginn eftir.


Fylltu pönnukökurnar eru skemmtilegar í gerð og alveg tilvaldar sem afslappaður föstudagskvöldverður.

Ég hvet ykkur til að prófa þær um helgina kæru vinir.


Bestu kveðjur,

Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur