Viðtal í Vikunni og alvöru belgískar vöfflur


Ég hef verið afar léleg í eldamennskunni og blogginu síðustu daga og vikur sökum anna. Verkefnavinnan í HR og þá sérstaklega lögfræðinni er sko alls ekkert grín en ég er búin að vera í stöðugri verkefnavinnu og heimaprófum í átta daga. Loksins sér fyrir endann á þessu og þá bíður mín þetta svona líka glæsilega fjall af hreinum þvotti sem öskrar á að láta brjóta sig saman.

Mér bauðst það tækifæri að vera matgæðingur Vikunnar í nýjasta tölublaðinu sem kom út síðastliðinn fimmtudag. Ég var fengin til að svara nokkrum skemmtilegum spurningum ásamt því að deila fimm af mínum uppáhalds uppskriftum. Spurningunum var afar skemmtilegt að svara en jafnframt svolítið erfitt því ég var spurð um hluti sem ég hef aldrei velt fyrir mér áður.

Uppskriftirnar sem urðu fyrir valinu í blaðið voru After Eight marengstertan sem ég hef þegar deilt hér á blogginu, hveitihornin hennar ömmu, kjötlasagna með ostasósu og sveppum, hollt og próteinríkt baunabuff með hvítlaukssósu og súkkulaðibomba með ostafyllingu og Dooley's ganache.

Ég hvet ykkur eindregið til að verða ykkur úti um eintak af nýjasta tölublaði Vikunnar kæru vinir!


Ég pantaði mér diska og bolla úr nýjasta Royal Albert postulínsstellinu og fékk þá senda í síðustu viku. Þvílík fegurð! Stellið er svolítið dýrt svo ég ákvað að byrja á þremur diskum og einum bolla og byrja að safna. Það er svo dúkkulegt og fallegt. Ég set inn myndir við tækifæri.

Um helgina fékk ég tengdó í heimsókn og bauð upp á þessar gómsætu belgísku vöfflur með kaffinu.

Ég las mér aðeins til um gerð belgískra vaffla en ég sé oft uppskriftir á netinu að þunnu og fljótandi vöffludeigi. Ekta belgískar vöfflur eru hins vegar gerðar úr svolítið þykku gerdeigi sem er látið lyfta sér áður en það er bakað.

Lykilhráefnið í deiginu er perlusykurinn sem bráðnar í vöfflujárninu og gerir vöfflurnar stökkar að utan en mjúkar að innan. Því grófari sem perlusykurinn er, þeim mun betra er að nota hann í belgískar vöfflur. Perlusykurinn sem fæst á Íslandi er afar fíngerður en það er þó hægt að nota hann í vöfflurnar þótt ekta perlusykur væri ákjósanlegri.



Belgískar vöfflur

7 g þurrger
1/3 bolli volgt vatn
1 1/2 msk strásykur
1/8 tsk salt
2 bollar hveiti
3 egg
225 g mjúkt smjör
3/4 bolli perlusykur

Leysið þurrger upp í volgu vatni og blandið strásykri og salti saman við. Látið standa í 15 mínútur.
Setjið hveiti í skál, myndið í það holu og hellið gerblöndunni ofan í.
Hnoðið deigið vandlega saman með höndunum, bætið einu eggi saman við í einu og síðan smjöri.

Látið deigið hefast í um 2 klst. eða þar til það hefur tvöfaldast.

Blandið perlusykri varlega saman við deigið og látið hefast aftur í 15 mínútur.

Hitið vöfflujárn og setjið á það 3 msk af deigi fyrir hverja vöfflu. Bakið vöfflurnar í 2-3 mínútur þar til þær verða fallega brúnar.

Berið fram með karamellusósu og vanilluís eða rjóma.
Athugið að þurrefnin eru mæld í amerískum bollum.
Vöfflurnar eru heldur sætar og sumir vilja ef til vill minnka perlusykurinn örlítið.


Karamellusósa

115 g púðursykur
100 g smjör
125 ml rjómi
1 tsk vanilludropar

Sjóðið allt saman í potti í 5 mínútur.
Berið sósuna fram heita með vöfflunum.


Þær eru svo unaðslega stökkar og gómsætar þessar, þið verðið að prófa!


Bestu kveðjur,

Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur