Ómótstæðilega Oreobomban


Verkefnavinnu þessarar annar er að mestu lokið, þvílíkur léttir. Það er þó skammgóður vermir að skila síðasta verkefninu í lok vikunnar því prófaundirbúningur tekur strax við.
Kærastinn minn varð 28 ára í síðustu viku og af því tilefni höfðum við kaffiboð fyrir fjölskyldur okkar á laugardaginn. Ég tók mér laugardagsfrí frá verkefnavinnu og eyddi deginum í bakstur. Við tókum svo á móti gestunum kl. 16 og auðvitað var skipulagða skólamærin á síðasta snúningi í kökuskreytingum þegar fólkið mætti.
 Laugardagskvöldinu var svo varið í yfirferð á hópverkefni með tveimur vinkonum úr skólanum.

 Gærdagurinn fór allur í andlegt gjaldþrot, ég lá í leti mestallan daginn svoleiðis úrvinda af þreytu.
Svona verkefnatarnir taka lymskulega á og þá sérstaklega eftir að ég átti dóttur mína. Það er ekki síður lýjandi að vera með stöðugt samviskubit yfir því að vera í burtu frá gullinu sínu svona mikið. En eins og vinkona mín benti svo réttilega á þá erum við að búa í haginn til að geta veitt börnunum okkar betri framtíð.

Veitingarnar sem ég útbjó fyrir afmæliskaffið voru flestar heldur fljótlegar í gerð að undanskilinni einni tertu sem tekur alveg heillangan tíma að baka enda geri ég hana um það bil einu sinni á ári. Auk tertunnar bauð ég upp á sígilda skinku- og aspasréttinn sem klikkar aldrei í veislum, ostasalat með snittubrauði, Rice Crispies rjómatertu, rjómakaramellukubba og ostaköku með Nóa kropp og hindberjasósu.

Nú þegar aðeins fer að hægjast um í skólanum get ég farið að einbeita mér betur að blogginu en matarmyndirnar, hannyrðahugmyndir og húsráð hafa svoleiðis hrannast upp hjá mér. Það er því af nógu að taka og ég ætla að byrja á að deila með ykkur uppskrift að þessari ómótstæðilegu Oreobombu.

Oreobomban er í algjöru uppáhaldi hjá mér en hún er ofboðslega tímafrek í gerð og krefst mikillar þolinmæði. Ég get þó með hreinni samvisku sagt að tertan er algjörlega tímans virði því hún inniheldur sykurpúðakrem, hvítt súkkulaði, rjómaost, rjóma, súkkulaði og Oreo kex.
Allt það unaðslegasta sem maður getur hugsað sér í einni köku!


Oreobomba

Súkkulaðibotnar

30 g suðusúkkulaði
60 g kakó
235 g heitt vatn
2 stór egg
2 eggjarauður
60 ml þeyttur rjómi
1 tsk vanilludropar
215 g hveiti
325 g ljós púðursykur
1 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
225 g brætt smjör

Blandið súkkulaði og kakói saman við heitt vatn og hrærið þar til súkkulaðið er bráðið.
Kælið í ísskáp í 20 mínútur.

Hrærið saman í skál eggjarauðum, þeyttum rjóma og vanilludropum og leggið til hliðar.

Blandið hveiti, ljósum púðursykri, salti og matarsóda saman í stóra skál og hrærið eggjarauðublöndunni saman við.
Bætið við einu eggi í einu og því næst bræddu smjöri.

Hrærið að lokum súkkulaðiblöndu saman við deigið.

Sníðið bökunarpappír ofan í tvö hringlaga kökuform og smyrjið þau.

Hellið deiginu jafnt í formin og bakið við 175° í 30-40 mínútur.

Ég frysti botnana oftast að minnsta kosti yfir eina nótt því þá eru þeir mýkri þegar tertan er sett saman.


Sykurpúðakrem

2 eggjahvítur
340 g Golden sýróp
1/4 tsk salt
110 g flórsykur
1/2 msk vanilludropar


Þeytið eggjahvítur, sýróp og salt saman í a.m.k. 5 mínútur.
Blandið flórsykri saman við á hægari stillingu ásamt vanilludropum.


Ostakrem

sykurpúðakrem
250 g rjómaostur
fræ úr einni vanillustöng
5 dl þeyttur rjómi
2 dl flórsykur
100 g hvítt súkkulaði
6 matarlímsblöð
3 msk heitt vatn
1 pakki Oreo kex

Hrærið rjómaost, sykurpúðakrem og vanillufræ saman í stórri skál.

Bræðið hvítt súkkulaði, kælið aðeins og blandið saman við rjómaostablönduna.

 Látið matarlímsblöð liggja í vatni í 5 mínútur.
Setjið blöðin í skál og hellið sjóðandi heitu vatni yfir.
Hrærið þar til þau leysast upp og kælið örlítið.
Hellið matarlíminu saman við ostakremið í mjórri bunu og hrærið stanslaust á meðan.

Hrærið flórsykri saman við þeyttan rjóma og blandið varlega saman við ostakremið.

Kælið kremið í ísskáp í 1 klst.
Hvolfið öðrum súkkulaðibotninum á kökudisk og smyrjið þykku lagi af ostakremi ofan á hann.
Myljið Oreo kex og stráið yfir kremið á botninum.
Smyrjið öðru lagi af kremi yfir Oreo kexið og leggið hinn botninn ofan á.

Þekið kökuna með ostakreminu og kælið í ísskáp þar til kremið stífnar, um 4-5 klst.

Í Hagkaup er stundum hægt að fá tilbúið sykurpúðakrem sem heitir Jet Puffed.
Ég kýs frekar að gera mitt eigið sykurpúðakrem því það er bragðmeira og þéttara þannig að ostakremið verður stífara.
Ef notað er tilbúið sykurpúðakrem þarf tvær dósir í uppskriftina.


Súkkulaðikrem

16 g kakó
35 ml heitt vatn
150 g mjúkt smjör
40 g flórsykur
örlítið salt
300 g suðusúkkulaði

 Hrærið kakói og heitu vatni saman í litla skál og kælið.
Bræðið suðusúkkulaði og kælið einnig.
Þeytið saman flórsykur, smjör og salt.
Bætið súkkulaðinu saman við og því næst kakóblöndunni.

Þekið tertuna með súkkulaðikremi þannig að ekkert sjáist í ostakremið.

Athugið að ef tertan er ekki kæld nógu lengi blandast ostakremið saman við súkkulaðikremið.
Einnig getur fyllingin flætt út úr tertunni þegar hún er skorin. Það er því mikilvægt að kæla hana vel.Hérna er ein gömul mynd af tertunni þar sem sést inn í hana

 Ég gerði Oreobombuna líka fyrir afmælið mitt 2012

Þessa unaðslegu tertu verðið þið að prófa allavega einu sinni kæru vinir.
Erfiðið er alveg þess virði, ég lofa!

 Verði ykkur að góðu.


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur