Pönnukökur með ostafyllingu og jarðarberjasósu


Helgin fór öll í bakstur, eldamennsku og meiri bakstur.
Mér bauðst að vera matgæðingur Vikunnar og greip auðvitað þetta frábæra og spennandi tækifæri.
Ég matreiddi 5 ólíka rétti og fékk svo ljósmyndara frá Vikunni í heimsókn til að taka myndir af herlegheitunum.
Uppskriftirnar munu birtast ásamt viðtali í þarnæsta tölublaði, 17. október að mér skilst.

Ég er alveg heltekin af ostakökum þessa dagana, hugsa ekki um annað en uppskriftir sem innihalda rjómaost og rjóma.
Það var því vel við hæfi að gera eina bombu fyrir Vikuna.

Að sjálfsögðu gerði ostakökusjúklingurinn auka fyllingu, of mikið af henni.
Það kom þó ekki að sök því ég fékk aldeilis skínandi fína hugmynd þar sem elskulega fyllingin mín fékk að njóta sín, gamaldags íslenskar pönnukökur með ostafyllingu og jarðarberjasósu! Þvílíkur unaður.

Ég er sérlega smámunasöm þegar kemur að pönnuköku- og vöffludeigi. Deigið þarf að vera hæfilega sætt án þess þó að vera yfirþyrmandi því maður setur oftast eitthvað sætt ofan á þær líka. Svo mega þær ekki vera of þurrar heldur.

Þessi pönnukökuuppskrift frá föðurömmu minni er sú allra besta, hvort sem þeim er rúllað upp með sykri eða fylltar með sultu og rjóma. Já eða ostaköku.


Ömmupönnukökur með ostafyllingu og jarðarberjasósu

Pönnukökur
200 g hveiti
1 msk sykur
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
2-3 dl mjólk
2 egg 
2 msk brætt smjör
2 tsk vanilludropar
Blandið þurrefnum saman í skál.
Byrjið á að hræra 2 dl af mjólk saman við þurrefnin með pískara. Hellið mjólkinni í mjórri bunu í miðju skálarinnar og hrærið í litla hringi til að byrja með svo ekki myndist kekkir. Hrærið eggjum saman við og hrærið í stærri hringi til að bæta við hveiti. Athugið að best er að hræra kekki úr deiginu á meðan það er svolítið þykkt.
Hrærið að lokum smjöri og vanilludropum saman við.
Deigið á að vera þunnt svo það renni vel um pönnuna. Ef það er of þykkt, bætið þá við 1/2 - 1 dl af mjólk.

Ef miklir kekkir hafa myndast í deiginu má alltaf bjarga sér með því að sigta það.


Hitið pönnukökupönnu á hæstu stillingu og bræðið á henni örlitla smjörklípu. Lækkið niður í miðlungs hita og ausið þunnu lagi af deigi yfir pönnuna.
Látið deigið renna um pönnuna þannig að pönnukakan verði þunn.
Ef of mikið deig er á pönnunni má einfaldlega hella því af.
   
Þegar loftbólur hafa myndast á pönnukökunni og deigið er bakað í geng, snúið henni við og bakið á hinni hliðinni.
Ostafylling
400 ml þeyttur rjómi
200 g rjómaostur
120 g flórsykur
1 tsk vanilludropar
Þeytið rjómaost, flórsykur og vanilludropa saman í skál.
Blandið þeyttum rjóma varlega saman við.


Jarðarberjasósa
200 g frosin jarðarber
3 msk hrásykur
1 matarlímsblað

Setjið jarðarber og sykur í pott og sjóðið niður.
Sigtið sósuna.
Leggið matarlímsblað í bleyti þar til það verður mjúkt og hrærið saman við sósuna á meðan hún er heit.
Gott er að afþíða jarðarberin í örbylgjuofni áður en þau eru soðin til að flýta fyrir.


Ég hvet ykkur til að prófa þessar einföldu og fljótlegu pönnukökur, þið verðið sko ekki fyrir vonbrigðum.


Bestu kveðjur,

Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur