laugardagur, 31. maí 2014

Suðrænn morgunsmoothie og heimagerð möndlumjólk


Í gær fór af stað nýr og glæsilegur afþreyingarvefur með alls kyns skemmtilegu og fræðandi efni ásamt bloggum, viðburðavegg og veftímariti, Króm.is. Á vefnum munu uppskriftirnar mínar birtast reglulega svo ég hvet ykkur endilega til að fylgjast með þessari þrælgóðu nýjung.

Kvefuðu mæðgurnar byrjuðu þennan laugardag á dásamlegum suðrænum og frískandi smoothie, ekki veitir af upplyftingunni í þessu óspennandi veðri. Ég er orðin forfallinn smoothie sjúklingur enda búin að eignast Nutri Bullet, það stórfenglega meistaraverk. Þessa dagana er ég óð í ástaraldin, bragðið af því er svo ferskt og hressandi. Það sómir sér einstaklega vel svamlandi um í nýja tækinu mínu. Mér til mikillar hamingju er dóttir mín efni í góðan smoothie lover, það er gott mál.

Annars erum við ennþá að bíða eftir sólríka sumrinu sem gerði boð á undan sér þarna um daginn. Get ekki beðið eftir því að ferðast um landið með litla ferðafélaganum mínum, þetta verður dásamlegt! En þangað til verðum við víst bara að sætta okkur við að sitja inni að sötra suðrænan smoothie.


 Suðrænn smoothie

1 banani
1/2 mangó
1 ástaraldin
safi úr 1/2 sítrónu
1 1/2 dl möndlumjólk

Skerið banana og mangó í bita og ástaraldin í tvennt. Skafið innihaldið úr ástaraldini með skeið og maukið innihaldið í blandara ásamt banana, mangó, sítrónusafa og möndlumjólk.

Í þennan smoothie notaði ég heimalagaða möndlumjólk, mér finnst hún bragðbetri og með því að gera hana sjálf get ég verið viss um að hún sé laus við sykur og önnur óþarfa aukaefni. Ég geri skammt sem dugar mér í 2-3 daga svo ég þurfi ekki að búa mjólkina til á hverjum degi. 


Möndlumjólk

2 dl möndlur
4 dl vatn

Látið möndlur liggja í bleyti yfir nótt. Maukið möndlur og vatn vel í blandara og síið mjólkina í gegn um taubleiu eða grisju. Ég helli af vatninu sem möndlurnar hafa legið í og mauka þær með fersku vatni.

Þetta er einungis grunnuppskrift sem hægt er að prófa sig áfram með fram og til baka. Gott er að sæta mjólkina með 2-3 döðlum eða jafnvel bragðbæta hana með vanillufræjum.


Frískandi og fín orkubomba út í daginn kæru vinir.
Góða helgi!


Tinna Björg

sunnudagur, 25. maí 2014

Eins árs afmælisveisla, matarmyndir og dásamlegur pepperonibrauðréttur


Um helgina héldum við síðbúna afmælisveislu fyrir litla stýrið. Veðrið var nú ekkert leikandi ljúft en dagurinn engu að síður góður. Mér finnst alltaf jafn notalegt að eiga stund með fjölskyldunni yfir góðum mat. Þar sem Klara Sóllilja var bara að verða eins árs buðum einungis nánustu fjölskyldu og höfðum afmælisboðið lítið. 


Afmælisbarnið orðið svolítið þreytt eftir veisluhöldin. Eina óhreyfða myndin sem náðist af henni þennan dag, eða svona nokkurn veginn óhreyfð.

Eftir veisluna fékk ég til mín góða vinkonu mína hana Patrycju í te og spjall, og kökuát auðvitað líka. Margrét Edda vinkona mín, fitnessdrottning með meiru og unnusti hennar bættust svo við í teboðið en þau rétt ráku inn nefið til að kveðja mig því í dag lögðu þau af stað til Mexíkó og Bandaríkjanna þar sem þau ætla að búa næstu mánuði.


 Súkkulaðikökur eru ómissandi í afmælisveisluna, djöflatertan góða klikkar ekki.


 Ég reyni eftir fremsta megni að halda sykurneyslu í lágmarki hjá Klöru, mér finnst óþarfi að gefa henni sætabrauð þegar hún sættir sig við að fá eitthvað annað. Í staðinn fyrir að gefa þeim sykraðar kökur gerði ég litlar sykurlausar barnakökur fyrir frænkurnar. Þær slógu vægast sagt í gegn.


Kökupinnar eru sívinsælir hjá börnum jafnt sem fullorðnum og þá sérstaklega kærastanum mínum. Ég þurfti að verja pinnana með kjafti og klóm á meðan ég var að búa þá til svo það yrði til nóg fyrir gestina.


Ég gerði þessa marengsköku í fyrsta skipti, dásemdin sem hún er. Með þeim bestu sem ég hef smakkað.


Krúttið hann pabbi bjó til ofboðslega gott og öðruvísi túnfisksalat í tilefni dagsins.

 Ég mun birta uppskriftirnar að góðgætinu hér að ofan við tækifæri en núna ætla ég að deila með ykkur uppskrift að dásamlegum brauðrétti sem ég fékk hjá brauðréttasnillinginum henni Helgu, tengdamóður systur minnar. Ég smakkaði réttinn fyrst hjá systur minni þegar Helga var svo yndisleg að rétta fram hjálparhönd og útbúa brauðrétt fyrir eina veisluna. Það er óhætt að segja að þessi brauðréttur klikkar aldrei og er oftast það fyrsta sem klárast í veislum hjá okkur systrum.


Pepperonibrauðréttur

1 piparostur
1 mexíkóostur
2 dósir sýrður rjómi
100 g rjómaostur
4-5 dl matreiðslurjómi
1 bréf beikon
1 bréf pepperoni
1 askja sveppir
1/2 - 1 púrrulaukur
250 g rifinn ostur
1/2 - 1 samlokubrauð

Skerið pipar- og mexíkóost í bita og bræðið í potti ásamt sýrðum rjóma, rjómaosti og matreiðslurjóma.
Skerið beikon í bita og steikið á pönnu. Skerið pepperoni, sveppi og púrrulauk í bita og steikið á pönnunni með beikoninu í 2-3 mínútur þegar beikonið er orðið svolítið stökkt. Hrærið öllu saman við ostablönduna.
Fjarlægið skorpuna af brauðsneiðunum og skerið þær í hæfilega stóra teninga. Dreifið helmingi brauðteninganna í botninn á eldföstu móti og hellið helmingi ostablöndunnar yfir. Setjið því næst afganginn af brauðteningunum yfir og annað lag af ostablöndu. Sáldrið rifnum osti yfir herlegheitin og bakið í ofni við 200° í 20 mínútur eða þar til osturinn verður svolítið brúnn og stökkur.

Verði ykkur að góðu!

mánudagur, 19. maí 2014

Einföld og sumarleg vanilluskyrterta


Jæja þá er þessari leiðinlegu bloggpásu loksins lokið. Á fimmtudaginn lauk ég BA náminu mínu með flutningi á málflutningsræðu í áfanga sem ég tók samhliða lokaprófunum. Þessi áfangi er venjulega kenndur á öðru ári laganámsins í Háskólanum í Reykjavík en um sama leyti í fyrra var ég að eignast dóttur mína og þurfti því að sleppa honum það skiptið. Til að fá að útskrifast núna í júní þurfti ég því að gjöra svo vel að sitja áfangann á sama tíma og ég var á kafi í lokaprófum svo undanfarnar vikur hafa verið hreint út sagt brjálæðislegar. Við flutning ræðunnar klæddumst við nemendurnir þessum líka ljómandi fínu skykkjum eins og alvöru lögmenn.


Framundan er útskrift um miðjan júní, langþráð sumarfrí með litlu fjölskyldunni minni, ferðalög og mikill bakstur og eldamennska. Draumur í dós.

Klara Sóllilja átti eins árs afmæli sunnudaginn 11. maí sl. og fékk því miður enga afmælisveislu. Þess í stað fóru foreldrar mínir með hana í boð til föðurafa míns en amma mín hefði orðið 90 ára sama dag og var afi því með afmæliskaffi henni til heiðurs.
 Af tilefni dagsins gerði móðir mín sitthvora skyrtertuna en önnur þeirra var laktósalaus. Sú laktósalausa bíður betri tíma en í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift að einfaldri og ljúffengri skyrtertu sem tekur enga stund að útbúa.

Venjulega nota ég hreint skyr og þeyti flórsykri og fræjum úr einni vanillustöng saman við en til að einfalda tertugerðina má alveg eins nota tilbúið vanilluskyr. Mér finnst skyrtertan með hreinu skyri betri en misjafn er smekkur manna.


 Vanilluskyrterta

1 pakki Lu Bastogne kex
100 g brætt smjör
1 stór og 1 lítil dós vanilluskyr
4 tsk vanillusykur
 250 ml þeyttur rjómi

Malið kex í matvinnsluvél og hrærið saman við brætt smjör. Þrýstið kexblöndunni í botninn á kökuformi eða eldföstu móti og kælið.

Pískið skyr og vanillusykur saman og hrærið þeyttum rjóma varlega saman við. Smyrjið skyrblöndunni yfir kexbotninn. Skerið jarðarber í sneiðar og raðið fallega yfir skyrtertuna ásamt bláberjum. Kælið tertuna í 1-2 klst áður en hún er borin fram.


Hún er svo sumarleg og sæt þessi. Alveg tilvalin sem léttur eftirréttur eftir grillmatinn í sumar.

Gleðilegan mánudag!


Tinna Björg

miðvikudagur, 7. maí 2014

Bananasnittur


Um síðustu helgi bakaði ég dýrindis köku. Ég var að læra fyrir próf og ákvað því að baka heldur fljótlega köku en jafnframt ofboðslega bragðgóða. Kakan er mjög lík bananasnittunum sem fást í mörgum bakaríum, súkkulaðibotn með bananakremi og súkkulaðiganache. Bananakremið er náttúrulega bara himneskt. 

Botninn sem ég nota í bananasnittukökuna er gamla góða skúffukakan sem við fjölskyldan höfum gúffað í okkur í áraraðir. Uppskriftina finnið þið hér.


Bananasnittur

  

Bananakrem

250 g mjúkt smjör
300 g flórsykur
2 tsk vanilludropar
2 bananar

Byrjið á að þeyta smjör þannig að það verði alveg mjúkt og kekkjalaust. Bætið þá við flórsykri og vanilludropum. Maukið banana í blandara og þeytið vel saman við kremið.


Súkkulaðiganache

250 ml rjómi
175 g suðusúkkulaði

Hitið rjóma að suðu og saxið suðusúkkulaði smátt á meðan. Setjið súkkulaðið í skál og hellið heitum rjómanum yfir. Látið standa ósnert í 5 mínútur og hrærið svo súkkulaðinu og rjómanum saman þar til blandan verður að þunnu kremi.
Kælið í ísskáp þar til kremið verður seigfljótandi og nógu þykkt til að hægt sé að hella því yfir kökuna án þess að það leki niður með hliðunum. 

Ekki láta ykkur bregða þegar þið hrærið kremið saman, blandan lítur fyrst út fyrir að ætla aldrei að verða að kremi og síðan verður hún þunn eins og súkkulaðisúpa. En kremið þykknar eftir því sem það fær að kólna lengur. Þolinmæði þrautir allar vinnur, ekki satt? Eitthvað sem ég þarf að læra að temja mér í bakstrinum og lífinu.

Best er að byrja á að gera súkkulaðikremið og láta það kólna í rólegheitum á meðan kakan er bökuð.

Smyrjið þykku lagi af bananakremi yfir súkkulaðikökuna þegar hún hefur kólnað og hellið súkkulaðiganache yfir.


Himnaríki. Svo einfalt er það. Og enn himneskara að geta búið til heila köku með mörgum sneiðum fyrir verð um það bil þriggja sneiða úr bakaríi.


Skottist nú inn í eldhús að baka ykkur þessa börnin góð. Þið sjáið sko ekki eftir því.

Tinna Björg

föstudagur, 2. maí 2014

Einstaklega fljótleg súkkulaðikaka í örbylgjuofni


Samkvæmt mínum bókum eru föstudagar fljótlegheitadagar. Þeirri litlu orku sem maður hefur eftir vinnuvikuna vill maður síður eyða í eldamennsku en samt langar mann alltaf svo mikið í eitthvað gómsætt. Þá er ekki úr vegi að skella í þessa ofureinföldu súkkulaðiköku sem tekur einungis þrjár mínútur að baka.


Súkkulaðikaka í bolla

4 bitar suðusúkkulaði
2 msk kakó
1 dl hveiti
1 dl sykur
3 msk olía
3 msk mjólk
1/2 tsk vanilludropar

Setjið súkkulaðibita í stóran bolla eða könnu og bræðið í örbylgjuofni. Hrærið kakó, hveiti, sykri, olíu, mjólk og vanilludropum vel og vandlega saman við súkkulaðið í bollanum og hitið í örbylgjuofni í 2 1/2 - 3 mínútur á hæstu stillingu. Passið að baka súkkulaðikökuna ekki of lengi því þá verður hún seig.

Það kom mér á óvart hversu bragðgóð þessi bráðsniðuga súkkulaðikaka er. Hún lyftir sér heldur lítið og sígur aðeins í miðjunni vegna þess hve blaut hún er. Þeir sem vilja að hún lyfti sér meira geta bætt við 1/8 tsk af lyftidufti við deigið.

Suðusúkkulaði virðist vera staðalbúnaður á mínu heimili, það er jafnmikilvægt og hveiti. Þeir sem eiga ekki til súkkulaði geta einfaldlega bætt við einni msk af kakó í staðinn.

Best er að njóta súkkulaðikökunnar með vanilluís og karamellusósu.

Góða helgi!


Tinna Björg