Einföld og sumarleg vanilluskyrterta


Jæja þá er þessari leiðinlegu bloggpásu loksins lokið. Á fimmtudaginn lauk ég BA náminu mínu með flutningi á málflutningsræðu í áfanga sem ég tók samhliða lokaprófunum. Þessi áfangi er venjulega kenndur á öðru ári laganámsins í Háskólanum í Reykjavík en um sama leyti í fyrra var ég að eignast dóttur mína og þurfti því að sleppa honum það skiptið. Til að fá að útskrifast núna í júní þurfti ég því að gjöra svo vel að sitja áfangann á sama tíma og ég var á kafi í lokaprófum svo undanfarnar vikur hafa verið hreint út sagt brjálæðislegar. Við flutning ræðunnar klæddumst við nemendurnir þessum líka ljómandi fínu skykkjum eins og alvöru lögmenn.


Framundan er útskrift um miðjan júní, langþráð sumarfrí með litlu fjölskyldunni minni, ferðalög og mikill bakstur og eldamennska. Draumur í dós.

Klara Sóllilja átti eins árs afmæli sunnudaginn 11. maí sl. og fékk því miður enga afmælisveislu. Þess í stað fóru foreldrar mínir með hana í boð til föðurafa míns en amma mín hefði orðið 90 ára sama dag og var afi því með afmæliskaffi henni til heiðurs.
 Af tilefni dagsins gerði móðir mín sitthvora skyrtertuna en önnur þeirra var laktósalaus. Sú laktósalausa bíður betri tíma en í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift að einfaldri og ljúffengri skyrtertu sem tekur enga stund að útbúa.

Venjulega nota ég hreint skyr og þeyti flórsykri og fræjum úr einni vanillustöng saman við en til að einfalda tertugerðina má alveg eins nota tilbúið vanilluskyr. Mér finnst skyrtertan með hreinu skyri betri en misjafn er smekkur manna.


 Vanilluskyrterta

1 pakki Lu Bastogne kex
100 g brætt smjör
1 stór og 1 lítil dós vanilluskyr
4 tsk vanillusykur
 250 ml þeyttur rjómi

Malið kex í matvinnsluvél og hrærið saman við brætt smjör. Þrýstið kexblöndunni í botninn á kökuformi eða eldföstu móti og kælið.

Pískið skyr og vanillusykur saman og hrærið þeyttum rjóma varlega saman við. Smyrjið skyrblöndunni yfir kexbotninn. Skerið jarðarber í sneiðar og raðið fallega yfir skyrtertuna ásamt bláberjum. Kælið tertuna í 1-2 klst áður en hún er borin fram.


Hún er svo sumarleg og sæt þessi. Alveg tilvalin sem léttur eftirréttur eftir grillmatinn í sumar.

Gleðilegan mánudag!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur