Bananasnittur
Um síðustu helgi bakaði ég dýrindis köku. Ég var að læra fyrir próf og ákvað því að baka heldur fljótlega köku en jafnframt ofboðslega bragðgóða. Kakan er mjög lík bananasnittunum sem fást í mörgum bakaríum, súkkulaðibotn með bananakremi og súkkulaðiganache. Bananakremið er náttúrulega bara himneskt.
Botninn sem ég nota í bananasnittukökuna er gamla góða skúffukakan sem við fjölskyldan höfum gúffað í okkur í áraraðir. Uppskriftina finnið þið hér.
Bananasnittur
Bananakrem
250 g mjúkt smjör
300 g flórsykur
2 tsk vanilludropar
2 bananar
Byrjið á að þeyta smjör þannig að það verði alveg mjúkt og kekkjalaust. Bætið þá við flórsykri og vanilludropum. Maukið banana í blandara og þeytið vel saman við kremið.
Súkkulaðiganache
250 ml rjómi
175 g suðusúkkulaði
Hitið rjóma að suðu og saxið suðusúkkulaði smátt á meðan. Setjið súkkulaðið í skál og hellið heitum rjómanum yfir. Látið standa ósnert í 5 mínútur og hrærið svo súkkulaðinu og rjómanum saman þar til blandan verður að þunnu kremi.
Kælið í ísskáp þar til kremið verður seigfljótandi og nógu þykkt til að hægt sé að hella því yfir kökuna án þess að það leki niður með hliðunum.
Ekki láta ykkur bregða þegar þið hrærið kremið saman, blandan lítur fyrst út fyrir að ætla aldrei að verða að kremi og síðan verður hún þunn eins og súkkulaðisúpa. En kremið þykknar eftir því sem það fær að kólna lengur. Þolinmæði þrautir allar vinnur, ekki satt? Eitthvað sem ég þarf að læra að temja mér í bakstrinum og lífinu.
Best er að byrja á að gera súkkulaðikremið og láta það kólna í rólegheitum á meðan kakan er bökuð.
Smyrjið þykku lagi af bananakremi yfir súkkulaðikökuna þegar hún hefur kólnað og hellið súkkulaðiganache yfir.
Himnaríki. Svo einfalt er það. Og enn himneskara að geta búið til heila köku með mörgum sneiðum fyrir verð um það bil þriggja sneiða úr bakaríi.
Skottist nú inn í eldhús að baka ykkur þessa börnin góð. Þið sjáið sko ekki eftir því.
Tinna Björg
Þessi kaka er æði!! Takk fyrir frábæra síðu :)
SvaraEyðaSvo sannarlega! Takk kærlega fyrir falleg orð :)
EyðaOk bless bakarameistari !! Þessi kaka er rosalega góð :)
SvaraEyðakv. Lára