Suðrænn morgunsmoothie og heimagerð möndlumjólk


Í gær fór af stað nýr og glæsilegur afþreyingarvefur með alls kyns skemmtilegu og fræðandi efni ásamt bloggum, viðburðavegg og veftímariti, Króm.is. Á vefnum munu uppskriftirnar mínar birtast reglulega svo ég hvet ykkur endilega til að fylgjast með þessari þrælgóðu nýjung.

Kvefuðu mæðgurnar byrjuðu þennan laugardag á dásamlegum suðrænum og frískandi smoothie, ekki veitir af upplyftingunni í þessu óspennandi veðri. Ég er orðin forfallinn smoothie sjúklingur enda búin að eignast Nutri Bullet, það stórfenglega meistaraverk. Þessa dagana er ég óð í ástaraldin, bragðið af því er svo ferskt og hressandi. Það sómir sér einstaklega vel svamlandi um í nýja tækinu mínu. Mér til mikillar hamingju er dóttir mín efni í góðan smoothie lover, það er gott mál.

Annars erum við ennþá að bíða eftir sólríka sumrinu sem gerði boð á undan sér þarna um daginn. Get ekki beðið eftir því að ferðast um landið með litla ferðafélaganum mínum, þetta verður dásamlegt! En þangað til verðum við víst bara að sætta okkur við að sitja inni að sötra suðrænan smoothie.


 Suðrænn smoothie

1 banani
1/2 mangó
1 ástaraldin
safi úr 1/2 sítrónu
1 1/2 dl möndlumjólk

Skerið banana og mangó í bita og ástaraldin í tvennt. Skafið innihaldið úr ástaraldini með skeið og maukið innihaldið í blandara ásamt banana, mangó, sítrónusafa og möndlumjólk.

Í þennan smoothie notaði ég heimalagaða möndlumjólk, mér finnst hún bragðbetri og með því að gera hana sjálf get ég verið viss um að hún sé laus við sykur og önnur óþarfa aukaefni. Ég geri skammt sem dugar mér í 2-3 daga svo ég þurfi ekki að búa mjólkina til á hverjum degi. 


Möndlumjólk

2 dl möndlur
4 dl vatn

Látið möndlur liggja í bleyti yfir nótt. Maukið möndlur og vatn vel í blandara og síið mjólkina í gegn um taubleiu eða grisju. Ég helli af vatninu sem möndlurnar hafa legið í og mauka þær með fersku vatni.

Þetta er einungis grunnuppskrift sem hægt er að prófa sig áfram með fram og til baka. Gott er að sæta mjólkina með 2-3 döðlum eða jafnvel bragðbæta hana með vanillufræjum.


Frískandi og fín orkubomba út í daginn kæru vinir.
Góða helgi!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur