Einstaklega fljótleg súkkulaðikaka í örbylgjuofni
Samkvæmt mínum bókum eru föstudagar fljótlegheitadagar. Þeirri litlu orku sem maður hefur eftir vinnuvikuna vill maður síður eyða í eldamennsku en samt langar mann alltaf svo mikið í eitthvað gómsætt. Þá er ekki úr vegi að skella í þessa ofureinföldu súkkulaðiköku sem tekur einungis þrjár mínútur að baka.
Súkkulaðikaka í bolla
Súkkulaðikaka í bolla
4 bitar suðusúkkulaði
2 msk kakó
1 dl hveiti
1 dl sykur
3 msk olía
3 msk mjólk
1/2 tsk vanilludropar
Setjið súkkulaðibita í stóran bolla eða könnu og bræðið í örbylgjuofni. Hrærið kakó, hveiti, sykri, olíu, mjólk og vanilludropum vel og vandlega saman við súkkulaðið í bollanum og hitið í örbylgjuofni í 2 1/2 - 3 mínútur á hæstu stillingu. Passið að baka súkkulaðikökuna ekki of lengi því þá verður hún seig.
Það kom mér á óvart hversu bragðgóð þessi bráðsniðuga súkkulaðikaka er. Hún lyftir sér heldur lítið og sígur aðeins í miðjunni vegna þess hve blaut hún er. Þeir sem vilja að hún lyfti sér meira geta bætt við 1/8 tsk af lyftidufti við deigið.
Suðusúkkulaði virðist vera staðalbúnaður á mínu heimili, það er jafnmikilvægt og hveiti. Þeir sem eiga ekki til súkkulaði geta einfaldlega bætt við einni msk af kakó í staðinn.
Suðusúkkulaði virðist vera staðalbúnaður á mínu heimili, það er jafnmikilvægt og hveiti. Þeir sem eiga ekki til súkkulaði geta einfaldlega bætt við einni msk af kakó í staðinn.
Best er að njóta súkkulaðikökunnar með vanilluís og karamellusósu.
Góða helgi!
Tinna Björg
Ummæli
Skrifa ummæli