þriðjudagur, 23. desember 2014

Vinningshafi í jólaleik tinnabjorg.com!


Þá er jólaleikurinn á enda og ég hef dregið vinningshafann heppna.


Vinningshafinn sem fær Omaggio afmælisvasa Kähler frá mér í jólagjöf er Laufey Svala Hill.


Þátttakan í jólaleiknum var alveg hreint ótrúleg. Ég vil þakka ykkur öllum innilega fyrir þátttökuna kæru vinir. Vildi óska þess að ég ætti fleiri fína vasa til að gefa ykkur öllum. Ég vona að þið haldið áfram að fylgjast með mér hér á blogginu og á Facebook. Við förum svo sannarlega í fleiri skemmtilega leiki á nýju ári.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og þakka fyrir liðið ár kæru vinir. Mér þykir ofboðslega vænt um viðtökurnar sem ég hef fengið og hefði aldrei dottið í hug að svona margir hefðu áhuga á að fylgjast með því sem ég er að brasa í eldhúsinu.

Þeim sem vilja fylgjast enn fremur með mér er velkomið að fylgja mér á Instragram @tinnabjorgcom.

Hafið það notalegt yfir hátíðarnar og borðið á ykkur gat! Við förum svo bara saman í átak í janúar..Tinna Björg

mánudagur, 22. desember 2014

Jólakökur með kaffinu og innlit í jóladeild Fjarðarkaupa


Þorláksmessa á morgun og eflaust margir í stressi að klára gjafainnkaupin, jólaþrifin og baksturinn. Þótt það sé svona stutt til jóla ætla ég að deila með ykkur tveimur jólauppskriftum í viðbót. Ég bakaði sérstaklega mikið fyrir þessi jól og nú fer að vanta vini og vandamenn í heimsókn. Á milli jóla og nýárs getur verið svolítill gestagangur á heimilinu og þá er nauðsynlegt að eiga eitthvað gott með kaffinu. Mamma bakaði því lagkökuna hennar Unnar ömmu og ég gerði jólakökuna hennar Steinunnar ömmu. Mér finnst afar notalegt að minnast amma minna beggja með því að baka úr uppskriftunum þeirra. Það vekur upp margar góðar og hlýjar minningar.

Lagkakan hennar Unnar ömmu er hnoðuð en ekki hrærð, mér finnst þær mun betri þessar hnoðuðu. Jólakakan er svo auðvitað stútfull af rúsínum því þannig er hún best. Báðar þessar kökur er virkilega þægilegt að eiga tilbúnar í frysti ef maður skyldi fá gesti yfir hátíðarnar.


Lagkakan hennar Unnar ömmu

Botnar
1 kg hveiti
2 bollar sykur
2 tsk matarsódi
2 tsk negull
2 tsk kanill
300 g mjúkt smjör
2 egg
1 1/2-2 bollar sýróp

Blandið þurrefnum saman í skál og hnoðið saman við þau mjúku smjöri, eggjum og sýrópi.

Skiptið deiginu í 4 hluta og vigtið þá þannig að þeir séu allir jafn þungir. Mælið breidd og lengd ofnplötunnar. Fletjið deigið út í ferhyrndar kökur, mælið þær og skerið til þannig að kökurnar passi á ofnplöturnar. Það getur verið svolítið erfitt að færa kökulögin útflött á ofnplötu. Því getur verið gott að fletja út kökurnar til hálfs á borðfleti, færa þær síðan yfir á bökunarpappírsarkir og klára að fletja þær út þar.

Stingið kökurnar með gaffli og bakið eina í einu á blæstri við 175° í 8-9 mínútur eða þar til þær verða fallega ljósbrúnar. Athugið að ef kökurnar eru bakaðar of lengi þá verða þær þurrar og harðar. Því er mikilvægt að fylgjast vel með þeim í ofninum.


Smjörkrem

450 g mjúkt smjör
900 g flórsykur
3 egg
3 tsk vanilludropar

 Þeytið saman mjúkt smjör, flórsykur, egg og vanilludropa og skiptið kreminu í þrennt.

Smyrjið einum hluta kremsins á lagkökubotn. Leggið annan botn ofan á og smyrjið yfir hann öðru lagi af smjörkremi. Leggið þriðja lagkökubotninn ofan á kökuna, smyrjið afganginum af smjörkreminu yfir og lokið kökunni með síðasta kökulaginu.
Skerið lagkökuna í 6-8 stykki og vefjið í plastfilmu. Geymið lagkökustykkin í kæli eða frysti svo kremið geymist lengur.Jólakakan hennar Steinunnar ömmu

150 g sykur
125 g mjúkt smjör
3 egg
250 g hveiti
1 tsk lyftiduft
1 tsk sítrónudropar
mjólk eftir þörfum
1 - 1 1/2 dl rúsínur

Þeytið saman sykur, mjúkt smjör og egg þar til ljóst og létt. Hrærið hveiti og lyftidufti saman við. Bætið við sítrónudropum og mjólk eftir þörfum, um 1 1/2 - 2 1/2 dl. Blandið rúsínum saman við deigið.

Smyrjið formkökuform og hellið deiginu í. Bakið jólakökuna við 175° í 55-60 mínútur. Stingið prjóni í kökuna til að athuga hvort hún sé tilbúin. Ef prjónninn kemur hreinn út er kakan tilbúin. Látið jólakökuna kólna í forminu í um 15 mínútur. Leysið hana síðan úr forminu og látið kökuna standa á grind þar til hún kólnar alveg.

--------------

Að lokum langar mig að sýna ykkur nokkrar fallegar vörur úr jóladeildinni í Fjarðarkaupum.

 Let it snow kökudiskur með hreindýrum

Kaffibolli í stíl

 Stórt kerti með jólastjörnu

Stórt kerti með hreindýrum

Hreindýrakanna

Stór tveggja hæða smákökudiskur

Kærleiksljós með ljósaperu. Einnig fyrir teljós. Fleiri fallegar myndir eru fáanlegar.


Allar þessar dásamlegu jólavörur ásamt svo mörgum fleiri fást í Fjarðarkaupum. Ég hvet ykkur til að líta við og skoða úrvalið í notalegheitum á Þorláksmessu.

Öll hráefni í jólakökurnar tvær fást einnig í Fjarðarkaupum.Ég minni svo á gjafaleikinn á Facebook en á morgun, Þorláksmessu, dreg ég út einn heppinn vinningshafa sem fær nýja Omaggio afmælisvasann frá Kähler í jólagjöf frá mér. Til að taka þátt þarf að smella hér og fara eftir leiðbeiningum við myndina.

Heyrumst á morgun!

Tinna Björg

laugardagur, 20. desember 2014

Síðasta smákökusortin


Jólabakstrinum okkar mömmu er þá formlega lokið með fimm smákökusortum, lagköku og jólaköku. Ég bíð þó enn spennt eftir að pabbi baki amerísku jólakökuna sína. Fyrir baksturinn fær hann send þau hráefni, sem ekki fást á Íslandi, frá vini sínum í Bandaríkjunum.

Í fyrra deildi ég með ykkur uppskrift að Snickers kökunum sem ég geri á hverju ári. Uppskriftina finnið þið hér. Þær eru uppáhalds smákökurnar mínar og geta hreinlega ekki klikkað. Nema þið séuð með hnetuofnæmi, þá klikka þær. Hnetur, súkkulaði og karamella eru bara himnesk þrenna.


Við mamma gerðum síðan kransatoppana hennar góðu. Deigið var svolítið þunnt hjá okkur þetta árið því við settum í það einni eggjahvítu of mikið. Fimm eggjahvítur eru nóg en þá er eins gott að eiga góðan sprautupoka og vera svolítið handsterkur. Þeir líta nú ekkert gríðarlega vel út blessaðir, hafa verið fallegri. En bragðgóðir eru þeir og það er fyrir öllu.


Kransatoppar

1 kg hrámassi (kransakökumassi)
500 g sykur
5 eggjahvítur
1 krukka kokteilkirsuber
300 g suðusúkkulaði

Hnoðið sykri og hrámassa vel saman þar til sykurinn hefur allur blandast massanum. Massinn er það þykkur að best er að nota hnoðarann á hrærivélinni. Bætið við einni eggjahvítu í einu þar til þær hafa allar blandast vel við hrámassann. Gott er að skipta hnoðaranum út fyrir hrærarann (ekki þeytarann) á hrærivélinni til að vinna deigið saman þegar eggjahvíturnar eru komnar út í.

Kælið kransatoppadeigið í 1 klst. og setjið það síðan í sprautupoka. Sprautið litlar dúllur á bökunarpappírsklædda ofnplötu með stúti 2D eða 1M frá Wilton. Skerið kokteilkirsuber í litla bita og setjið einn bita ofan á hverja dúllu. Ég sker berin í 8 hluta, mér finnst það hæfileg stærð.
Bakið kransatoppana við 175° í 12-14 mínútur eða þar til þeir verða gullinbrúnir og kantarnir svolítið dökkir.

Kælið kransatoppana. Bræðið suðusúkkulaði yfir vatnsbaði og dýfið toppunum ofan í súkkulaðið að neðanverðu þannig að botnarnir þekist. Raðið kransatoppunum síðan á bökunarpappírsörk og látið súkkulaðið storkna.

Hrámassinn sem ég notaði er frá Odense og heitir Ren rå en Fjarðarkaup selja einnig sinn eigin hrámassa sem hentar vel í þessa uppskrift.

Öll hráefnin í uppskriftina fást í Fjarðarkaupum og fallegi kökudiskurinn líka.


Á morgun kemur svo stór færsla með tveimur kökuuppskriftum og mörgum fallegum jólavörum sem mig langar að sýna ykkur. Endilega fylgist með.Tinna Björg

fimmtudagur, 18. desember 2014

Mömmukökurnar mínar


Það er innan við vika til jóla og nú þurfum við að spýta í lófana við baksturinn! Eða nei annars, við skulum ekki gera það...

Mömmukökur finnst mér vera ómissandi sort fyrir jólin. Þessa uppskrift klippti ég út úr Morgunblaðinu fyrir mörgum árum síðan og límdi í litlu jólauppskriftabókina mína. Á mömmukökurnar set ég svo einfalt vanillusmjörkrem.Mömmukökur

Engiferkökur

125 g smjör
125 g sykur
250 g sýróp
1 egg
500 g hveiti
2 tsk matarsódi
1 tsk engifer

Bræðið saman í potti sykur, sýróp og smjör. Kælið blönduna að stofuhita og hrærið síðan eggi saman við. Bætið við sykurblönduna hveiti, matarsóda og engifer og hnoðið vel.

Pakkið deiginu inn í plastfilmu og látið standa í kæli yfir nótt. Fletjið deigið út mjög þunnt eða þannig að það verði aðeins um 1-2 mm að þykkt. Stingið út kökur með smákökuformi eða litlu glasi og raðið þeim á bökunarpappírsklædda ofnplötu.

Bakið mömmukökurnar við 180° í 5-7 mínútur. Athugið að kökurnar eru fljótar að bakast og brenna. Þær eru tilbúnar þegar þær verða rétt ljósbrúnar. Látið mömmukökurnar kólna og harðna á bökunarpappírnum áður en þær eru teknar af.


Smjörkrem

150 g mjúkt smjör
200-250 g flórsykur
1 tsk vanilludropar

Þeytið saman smjör, flórsykur og vanilludropa.

Setjið smjörkrem í sprautupoka og sprautið á miðjuna á helmingnum af mömmukökunum. Leggið síðan smákökur ofan á kremkökurnar og búið til samlokur. Magn af kremi fer eftir smekk hvers og eins en ég vil hafa mikið krem á mínum.


Það getur verið hundleiðinlegt að leysa smákökurnar af borðinu og oft þarf að nota hveiti til að koma í veg fyrir að deigið festist við borðflötinn. Til að fyrirbyggja slíkan sóðaskap er best að fletja deigið út á sílíkonmottu, skera smákökurnar út á henni og færa þær svo yfir á bökunarpappír. Passið bara að þrýsta smákökuforminu ekki svo fast niður að það skeri mottuna.

Geymið mömmukökurnar í plastpoka eða loftþéttu boxi. Ef þær mýkjast ekki nógu vel af kreminu þá er gott að setja 1/2 - 1 brauðsneið með í pokann.


Öll hráefni í mömmukökurnar fást í Fjarðarkaupum.


Mömmukökurnar bar ég fram á þessum fallega tveggja hæða kökudiski úr Fjarðarkaupum. Ég hvet ykkur til að skoða úrvalið af fallegu jólavörunum hjá þeim.


Svo eiga þeir þennan krúsídúllulega bolla í stíl.

 

Munið svo að hafa gaman af bakstrinum!
Hann á nú að vera svolítið kósý og afslappandi.

Tinna Björg