Annar í aðventu


Á morgun er annar í aðventu og enn frekari ástæða til að bera fram bakkelsi með kaffinu en aðra sunnudaga, ekki satt?

Ég fer örsjaldan í bakarí af því að mér hreinlega ofbýður verðlagningin. En stundum langar mann bara svo mikið í eitthvað uppáhald sem fæst í bakaríum. Þá er um að gera að prófa sig áfram í bakstrinum og búa til nýjar uppskriftir, það kemur nefnilega á óvart hversu nærri maður kemst bakarísgóðgætinu ef maður bara reynir. Pistasíuhringur er ein af þeim bakarísvörum sem ég held mikið upp á en tími sjaldnast að kaupa. Ég brá því á þá ráð að búa til minn eigin sem heppnaðist svona líka ljómandi vel.


Pistasíuhringur

Gerdeig

3 tsk þurrger
200 ml volg mjólk
1 1/2 msk sykur
2 eggjarauður
25 g brætt smjör
375 g hveiti
3/4 tsk salt
1/2 - 1 dl mjólk

Blandið saman geri, volgri  mjólk og sykri og látið standa í 5 mínútur. Bætið við eggjarauðum, bræddu smjöri, hveiti og salti og hnoðið saman. Ef deigið er þurrt, bætið þá við 1/2 - 1 dl af mjólk. Látið hefast í 1 klst. eða þar til deigið hefur tvöfaldast. Þegar ég læt deig hefast finnst mér gott að smyrja gler- eða járnskál að innan með smjöri og færa deigið yfir í hana. Þannig losnar það auðveldlega úr eftir hefun. Gott er að setja viskastykki eða plastfilmu yfir skálina og leggja hana á volgan stofuofn. Útbúið fyllinguna á meðan deigið hefast.


Pistasíufylling

100 g brætt smjör
80 sykur
200 g pistasíumassi
1 1/2 tsk kanill

Blandið saman bræddu smjöri, sykri og pistasíumassa.

Fletjið deigið út í langan ferhyrning, smyrjið með pistasíufyllingu og sáldrið kanil yfir.


Rúllið deiginu upp í langa rúllu.


Skerið rúlluna í tvennt með beittum hníf eftir endilöngu en þó þannig að lengjurnar séu fastar saman í annan endann.


Snúið upp á lengjurnar, hægri lengjan snýst til hægri og sú vinstri snýst til vinstri.


Fléttið lengjurnar tvær saman í eina, færið hana upp á bökunarpappírsklædda ofnplötu og festið í hring.

Ofan á pistasíuhringinn

2 eggjahvítur
heslihnetuflögur
perlusykur

Penslið pistasíuhringinn með eggjahvítum og sáldrið heslihnetuflögum og perlusykri yfir hann.


Bakið hringinn í ofni við 180° í 20-25 mínútur.

Þeir sem hafa dálæti á pistasíuhnetum og -massa verða að prófa þennan hring, þið hin líka. Hann er eiginlega bara fáránlega góður.


Pistasíumassinn er frá Odense og fæst í Fjarðarkaupum ásamt öllum öðrum vörum í þessa uppskrift.Með kveðju,


TinnaBjörg

Ummæli

Vinsælar færslur