Jólakökur með kaffinu og innlit í jóladeild Fjarðarkaupa


Þorláksmessa á morgun og eflaust margir í stressi að klára gjafainnkaupin, jólaþrifin og baksturinn. Þótt það sé svona stutt til jóla ætla ég að deila með ykkur tveimur jólauppskriftum í viðbót. Ég bakaði sérstaklega mikið fyrir þessi jól og nú fer að vanta vini og vandamenn í heimsókn. Á milli jóla og nýárs getur verið svolítill gestagangur á heimilinu og þá er nauðsynlegt að eiga eitthvað gott með kaffinu. Mamma bakaði því lagkökuna hennar Unnar ömmu og ég gerði jólakökuna hennar Steinunnar ömmu. Mér finnst afar notalegt að minnast amma minna beggja með því að baka úr uppskriftunum þeirra. Það vekur upp margar góðar og hlýjar minningar.

Lagkakan hennar Unnar ömmu er hnoðuð en ekki hrærð, mér finnst þær mun betri þessar hnoðuðu. Jólakakan er svo auðvitað stútfull af rúsínum því þannig er hún best. Báðar þessar kökur er virkilega þægilegt að eiga tilbúnar í frysti ef maður skyldi fá gesti yfir hátíðarnar.


Lagkakan hennar Unnar ömmu

Botnar
1 kg hveiti
2 bollar sykur
2 tsk matarsódi
2 tsk negull
2 tsk kanill
300 g mjúkt smjör
2 egg
1 1/2-2 bollar sýróp

Blandið þurrefnum saman í skál og hnoðið saman við þau mjúku smjöri, eggjum og sýrópi.

Skiptið deiginu í 4 hluta og vigtið þá þannig að þeir séu allir jafn þungir. Mælið breidd og lengd ofnplötunnar. Fletjið deigið út í ferhyrndar kökur, mælið þær og skerið til þannig að kökurnar passi á ofnplöturnar. Það getur verið svolítið erfitt að færa kökulögin útflött á ofnplötu. Því getur verið gott að fletja út kökurnar til hálfs á borðfleti, færa þær síðan yfir á bökunarpappírsarkir og klára að fletja þær út þar.

Stingið kökurnar með gaffli og bakið eina í einu á blæstri við 175° í 8-9 mínútur eða þar til þær verða fallega ljósbrúnar. Athugið að ef kökurnar eru bakaðar of lengi þá verða þær þurrar og harðar. Því er mikilvægt að fylgjast vel með þeim í ofninum.


Smjörkrem

450 g mjúkt smjör
900 g flórsykur
3 egg
3 tsk vanilludropar

 Þeytið saman mjúkt smjör, flórsykur, egg og vanilludropa og skiptið kreminu í þrennt.

Smyrjið einum hluta kremsins á lagkökubotn. Leggið annan botn ofan á og smyrjið yfir hann öðru lagi af smjörkremi. Leggið þriðja lagkökubotninn ofan á kökuna, smyrjið afganginum af smjörkreminu yfir og lokið kökunni með síðasta kökulaginu.
Skerið lagkökuna í 6-8 stykki og vefjið í plastfilmu. Geymið lagkökustykkin í kæli eða frysti svo kremið geymist lengur.Jólakakan hennar Steinunnar ömmu

150 g sykur
125 g mjúkt smjör
3 egg
250 g hveiti
1 tsk lyftiduft
1 tsk sítrónudropar
mjólk eftir þörfum
1 - 1 1/2 dl rúsínur

Þeytið saman sykur, mjúkt smjör og egg þar til ljóst og létt. Hrærið hveiti og lyftidufti saman við. Bætið við sítrónudropum og mjólk eftir þörfum, um 1 1/2 - 2 1/2 dl. Blandið rúsínum saman við deigið.

Smyrjið formkökuform og hellið deiginu í. Bakið jólakökuna við 175° í 55-60 mínútur. Stingið prjóni í kökuna til að athuga hvort hún sé tilbúin. Ef prjónninn kemur hreinn út er kakan tilbúin. Látið jólakökuna kólna í forminu í um 15 mínútur. Leysið hana síðan úr forminu og látið kökuna standa á grind þar til hún kólnar alveg.

--------------

Að lokum langar mig að sýna ykkur nokkrar fallegar vörur úr jóladeildinni í Fjarðarkaupum.

 Let it snow kökudiskur með hreindýrum

Kaffibolli í stíl

 Stórt kerti með jólastjörnu

Stórt kerti með hreindýrum

Hreindýrakanna

Stór tveggja hæða smákökudiskur

Kærleiksljós með ljósaperu. Einnig fyrir teljós. Fleiri fallegar myndir eru fáanlegar.


Allar þessar dásamlegu jólavörur ásamt svo mörgum fleiri fást í Fjarðarkaupum. Ég hvet ykkur til að líta við og skoða úrvalið í notalegheitum á Þorláksmessu.

Öll hráefni í jólakökurnar tvær fást einnig í Fjarðarkaupum.Ég minni svo á gjafaleikinn á Facebook en á morgun, Þorláksmessu, dreg ég út einn heppinn vinningshafa sem fær nýja Omaggio afmælisvasann frá Kähler í jólagjöf frá mér. Til að taka þátt þarf að smella hér og fara eftir leiðbeiningum við myndina.

Heyrumst á morgun!

Tinna Björg

Ummæli

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur