Síðasta smákökusortin
Jólabakstrinum okkar mömmu er þá formlega lokið með fimm smákökusortum, lagköku og jólaköku. Ég bíð þó enn spennt eftir að pabbi baki amerísku jólakökuna sína. Fyrir baksturinn fær hann send þau hráefni, sem ekki fást á Íslandi, frá vini sínum í Bandaríkjunum.
Í fyrra deildi ég með ykkur uppskrift að Snickers kökunum sem ég geri á hverju ári. Uppskriftina finnið þið hér. Þær eru uppáhalds smákökurnar mínar og geta hreinlega ekki klikkað. Nema þið séuð með hnetuofnæmi, þá klikka þær. Hnetur, súkkulaði og karamella eru bara himnesk þrenna.
Við mamma gerðum síðan kransatoppana hennar góðu. Deigið var svolítið þunnt hjá okkur þetta árið því við settum í það einni eggjahvítu of mikið. Fimm eggjahvítur eru nóg en þá er eins gott að eiga góðan sprautupoka og vera svolítið handsterkur. Þeir líta nú ekkert gríðarlega vel út blessaðir, hafa verið fallegri. En bragðgóðir eru þeir og það er fyrir öllu.
Kransatoppar
1 kg hrámassi (kransakökumassi)
500 g sykur
5 eggjahvítur
1 krukka kokteilkirsuber
300 g suðusúkkulaði
Hnoðið sykri og hrámassa vel saman þar til sykurinn hefur allur blandast massanum. Massinn er það þykkur að best er að nota hnoðarann á hrærivélinni. Bætið við einni eggjahvítu í einu þar til þær hafa allar blandast vel við hrámassann. Gott er að skipta hnoðaranum út fyrir hrærarann (ekki þeytarann) á hrærivélinni til að vinna deigið saman þegar eggjahvíturnar eru komnar út í.
Kælið kransatoppadeigið í 1 klst. og setjið það síðan í sprautupoka. Sprautið litlar dúllur á bökunarpappírsklædda ofnplötu með stúti 2D eða 1M frá Wilton. Skerið kokteilkirsuber í litla bita og setjið einn bita ofan á hverja dúllu. Ég sker berin í 8 hluta, mér finnst það hæfileg stærð.
Bakið kransatoppana við 175° í 12-14 mínútur eða þar til þeir verða gullinbrúnir og kantarnir svolítið dökkir.
Kælið kransatoppana. Bræðið suðusúkkulaði yfir vatnsbaði og dýfið toppunum ofan í súkkulaðið að neðanverðu þannig að botnarnir þekist. Raðið kransatoppunum síðan á bökunarpappírsörk og látið súkkulaðið storkna.
Hrámassinn sem ég notaði er frá Odense og heitir Ren rå en Fjarðarkaup selja einnig sinn eigin hrámassa sem hentar vel í þessa uppskrift.
Öll hráefnin í uppskriftina fást í Fjarðarkaupum og fallegi kökudiskurinn líka.
Á morgun kemur svo stór færsla með tveimur kökuuppskriftum og mörgum fallegum jólavörum sem mig langar að sýna ykkur. Endilega fylgist með.
Tinna Björg
Ummæli
Skrifa ummæli