Aðventukakan


Í síðustu viku var chai-kakan mín birt í Vikunni. Chai-kryddblandan er svo dásamleg á jólunum en ég er vön að fá mér chai-latte sem er hreinlega bara jól í bolla. Af því að ég er svo hrifin af þessum sætu kryddum datt mér í hug að búa til eina ekta jólaköku og útkoman var stórkostleg. Unaðslega karamellukremið ofan á kökunni sómir sér fullkomlega með kryddkeimnum.



Chai-kaka með karamellukremi


Chai-kryddblanda

2 tsk kanill
1 tsk engifer
1 tsk kardimommur
1/2 tsk negull
1/2 tsk kóríander
1/4 tsk múskat
1/8 tsk hvítur pipar

Blandið öllum kryddum saman í skál og leggið til hliðar.


Chai-botnar

150 ml mjólk
chai-kryddblanda
110 g mjúkt smjör
230 g sykur
2 egg
240 g hveiti
1 1/2 tsk lyftiduft
1/3 tsk salt

Hitið mjólk að suðu, hrærið chai-kryddblöndu saman við og kælið mjólkina. Þeytið mjúkt smjör svolítið og setjið sykur saman við. Hrærið vel saman og bætið við einu eggi í einu. Blandið saman í skál hveiti, lyftidufti og salti. Sigtið þurrefnin ofan í smjörblönduna og hrærið vel saman við ásamt chai-mjólkinni.

Smyrjið springform og sigtið örlítið hveiti í botninn svo kakan festist ekki í forminu. Bakið við 180° í 40-45 mínútur eða þar til prjónn sem stungið er í kökuna kemur upp hreinn. Látið chai-kökuna kólna í forminu og leysið hana svo úr. Gott er að skera af henni toppinn áður en kreminu er smurt á svo kakan verði sléttari og fallegri. Mér finnst best að frysta kökubotna í einn sólarhring áður en ég set á þá kremið, þá verður kakan alveg extra mjúk.


Karamellukrem

200 g rjómakaramellur
150 ml rjómi
100 g mjúkt smjör
150 g flórsykur

Bræðið rjómakaramellur og rjóma saman í potti og kælið. Þeytið smjör og flórsykur saman í skál. Bætið kaldri karamellunni við kremið og þeytið áfram þar til allt hefur blandast vel. Smyrjið kreminu ofan á kökuna og skreytið með stjörnuanís.

Öll hráefni í chai-kökuna fást í Fjarðarkaupum.



Góða helgi kæru vinir!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur