Mömmukökurnar mínar


Það er innan við vika til jóla og nú þurfum við að spýta í lófana við baksturinn! Eða nei annars, við skulum ekki gera það...

Mömmukökur finnst mér vera ómissandi sort fyrir jólin. Þessa uppskrift klippti ég út úr Morgunblaðinu fyrir mörgum árum síðan og límdi í litlu jólauppskriftabókina mína. Á mömmukökurnar set ég svo einfalt vanillusmjörkrem.Mömmukökur

Engiferkökur

125 g smjör
125 g sykur
250 g sýróp
1 egg
500 g hveiti
2 tsk matarsódi
1 tsk engifer

Bræðið saman í potti sykur, sýróp og smjör. Kælið blönduna að stofuhita og hrærið síðan eggi saman við. Bætið við sykurblönduna hveiti, matarsóda og engifer og hnoðið vel.

Pakkið deiginu inn í plastfilmu og látið standa í kæli yfir nótt. Fletjið deigið út mjög þunnt eða þannig að það verði aðeins um 1-2 mm að þykkt. Stingið út kökur með smákökuformi eða litlu glasi og raðið þeim á bökunarpappírsklædda ofnplötu.

Bakið mömmukökurnar við 180° í 5-7 mínútur. Athugið að kökurnar eru fljótar að bakast og brenna. Þær eru tilbúnar þegar þær verða rétt ljósbrúnar. Látið mömmukökurnar kólna og harðna á bökunarpappírnum áður en þær eru teknar af.


Smjörkrem

150 g mjúkt smjör
200-250 g flórsykur
1 tsk vanilludropar

Þeytið saman smjör, flórsykur og vanilludropa.

Setjið smjörkrem í sprautupoka og sprautið á miðjuna á helmingnum af mömmukökunum. Leggið síðan smákökur ofan á kremkökurnar og búið til samlokur. Magn af kremi fer eftir smekk hvers og eins en ég vil hafa mikið krem á mínum.


Það getur verið hundleiðinlegt að leysa smákökurnar af borðinu og oft þarf að nota hveiti til að koma í veg fyrir að deigið festist við borðflötinn. Til að fyrirbyggja slíkan sóðaskap er best að fletja deigið út á sílíkonmottu, skera smákökurnar út á henni og færa þær svo yfir á bökunarpappír. Passið bara að þrýsta smákökuforminu ekki svo fast niður að það skeri mottuna.

Geymið mömmukökurnar í plastpoka eða loftþéttu boxi. Ef þær mýkjast ekki nógu vel af kreminu þá er gott að setja 1/2 - 1 brauðsneið með í pokann.


Öll hráefni í mömmukökurnar fást í Fjarðarkaupum.


Mömmukökurnar bar ég fram á þessum fallega tveggja hæða kökudiski úr Fjarðarkaupum. Ég hvet ykkur til að skoða úrvalið af fallegu jólavörunum hjá þeim.


Svo eiga þeir þennan krúsídúllulega bolla í stíl.

 

Munið svo að hafa gaman af bakstrinum!
Hann á nú að vera svolítið kósý og afslappandi.

Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur