Vinkonukvöld, frosnir kokteilar og sörugerð


Á laugardagskvöldið kom vinkona mín í heimsókn og við bökuðum sörur saman. Af því að baksturinn fór fram á laugardagskvöldi þótti okkur tilvalið að skella í frosinn kokteil til að sippa í okkur á meðan kökurnar bökuðust. Við vorum svolítið þreyttar enda rígfullorðnar konurnar (alveg að detta í 26 árin) svo okkur fannst ráðlegt að hafa smá koffín í kokteilnum. Amino Energy með jarðarberjabragði varð fyrir valinu.Takið eftir því hvernig ég tróð inn á myndina Iittala og Omaggio. Já, ég gerði það bara.

Jarðarberja-daiquiri með Amino Energy
Fyrir tvo

10 frosin jarðarber
100-150 ml vatn
2-3 skeiðar Amino Energy með jarðarberja- og limebragði
safi úr 1/2 sítrónu
Bacardi romm
klakar

Setjið frosin jarðarber, vatn, Amino Energy, sítrónusafa, romm og klaka í blandara og maukið vel.
Hellið í tvö kokteilglös og njótið.
___________

Sörurnar var ég að baka í fyrsta skipti svo ég setti saman eina uppskrift úr nokkrum sem mér leist vel á, breytti þeim og bætti. Ég vil hafa mitt krem sætara en það sem gengur og gerist í hinum hefðbundnu sörum og súkkulaðið finnst mér of dökkt. Ég blandaði því rjómasúkkulaði saman við dökkt súkkulaði og útkoman var svoleiðis ljómandi ljúffeng.


Sörur

Smákökur

4 eggjahvítur
250 g flórsykur
200 g afhýddar möndlur
100 g möndlur með hýði

 Stífþeytið eggjahvítur og sigtið flórsykur yfir. Hakkið möndlur í matvinnsluvél og blandið þeim mjög varlega saman við eggjahvíturnar og flórsykurinn.
Mótið litlar smákökur á bökunarpappírsklædda ofnplötu með teskeið þannig að hver kaka verði 1/2-1 tsk.
Bakið við 180° í 8-9 mínútur og kælið.


Smjörkrem

5 eggjarauður
8 msk sýróp
250 g mjúkt smjör
160 g flórsykur
2 1/2 msk kakó
1 - 1 1/2 msk skyndikaffi

Þeytið eggjarauður vel í um 5 mínútur. Hellið sýrópi út í rauðurnar og þeytið áfram í um 5 mínútur. Færið blönduna úr hrærivélarskálinni í aðra skál og kælið í ísskáp.
Þeytið mjúkt smjör ásamt flórsykri, kakó og skyndikaffi.
Hellið eggjarauðublöndunni smátt og smátt út í smjörkremið og þeytið vel. Kælið kremið í að minnsta kosti 1 klst. áður en það er sett á smákökurnar.

Smyrjið kremi á smákökurnar með teskeið og kælið í 30 mínútur í ísskáp eða frystið í nokkrar mínútur. Útbúið súkkulaðihjúpinn á meðan.

Skyndikaffið sem við notuðum er í duftformi og fæst í Fjarðarkaupum. Ef þið notið venjulegt skyndikaffi þarf að mylja það eða mala í duft.


Súkkulaðihjúpur

200 g rjómasúkkulaði
100 g dökkt súkkulaði - 56%

Saxið rjómasúkkulaði og dökkt súkkulaði og hitið yfir vatnsbaði þar til um 2/3 hafa bráðnað. Takið skálina þá af hitanum og látið afganginn af súkkulaðinu bráðna rólega saman við. Þannig hitnar súkkulaðið ekki of mikið og það er fljótara að kólna. Best er að nota skál úr stáli.
Látið súkkulaðið standa þar til það verður nokkurn veginn við stofuhita. Dýfið kremhlutanum á sörunum ofan í súkkulaðið og kælið þær í ísskáp þar til súkkulaðið harðnar.
Geymið kökurnar í ísskáp eða frysti.


Hér sjáið þið rosa glaða Möggu með afraksturinn. Þess má geta þessa svuntu saumaði ég í handmennt 12 ára gömul.


Hér er ég líka glöð með kökurnar. Þessa svuntu saumaði ég á þessu ári. Saumaskapurinn hefur alls ekki batnað með árunum, beinn saumur er eitthvað sem vefst stórkostlega fyrir mér. Tókst þó með herkjum að framleiða þessa og aðra eins á dóttur mína.


Öll hráefni í uppskriftina fást í Fjarðarkaupum.Ég bar sörurnar fram á þessum fallega jóladiski frá Fjarðarkaupum en þar er ótrúlega falleg jóladeild sem ég ætla að segja ykkur betur frá síðar.


Endilega prófið þessar sörur kæru vinir, þær eru guðdómlegar!Tinna Björg

Ummæli

  1. Ég verð að spyrja hvar þú fékkst krúttlega "Let it snow!" plattann? :)

    SvaraEyða
    Svör
    1. Hann fæst í jóladeildinni í Fjarðarkaupum ásamt svo ótrúlega mörgu fallegu jóladúlleríi :)

      Eyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur