miðvikudagur, 29. apríl 2015

Matur í miðri viku


Ég á eina litla skvísu sem á það til að vera svolítið matvönd. Blessunarlega borðar hún kjötbollur með bestu lyst og er hrifin af flestum réttum sem innihalda nautahakk. Gæði nautahakks eru afar misjöfn svo ég mæli með því að kaupa magurt hakk úr fersku kjötborði. Þá klikkar girnilega kjötborðið í Fjarðarkaupum aldrei.

Fyrir þá sem borða nautahakk og annað nautakjöt reglulega er góð hugmynd að kaupa kjötpakka til að eiga í frysti. Ég keypti nýlega nautakjötspakka í Kjötsmiðjunni sem innihélt nautahakk, nautalund sem skorin hafði verið í steikur, gúllas og hamborgara. Magnið af hverju veljið þið sjálf og hægt er að láta pakka kjötinu í lofttæmdar umbúðir þannig að það geymist vel og tekur lítið pláss í frystinum.

Fyrsti rétturinn sem ég eldaði úr kjötpakkanum voru þessar dýrindis ítölsku kjötbollur með alls kyns kryddum, fetaosti og parmesan. Ég eldaði stóran skammt og frysti afganginn til að eiga tilbúinn kvöldmat fyrir dóttur mína að grípa í þegar takmarkaður tími er fyrir eldamennsku. Það kemur sér einstaklega vel núna þegar ég er að sökkva mér ofan í próflestur.


Kryddaðar kjötbollur í rjómatómatsósu

Kjötbollur

800 g nautahakk
3 egg
1 1/2 dl fetaostur
1 dl rifinn parmesanostur
1 - 1 1/3 dl mjólk
4 brauðsneiðar
1 laukur
4 hvítlauksrif
fersk basilika (um 10 stilkar)
2 1/2 tsk chilimauk
1 1/2 msk pizzakrydd
1 msk Season All
2-3 tsk nautakraftur
sjávarsalt
svartur pipar

Setjið nautahakk og egg í hrærivélarskál. Myljið fetaost örlítið með gaffli og setjið í skálina ásamt parmesanosti. Rífið brauðsneiðar og vætið með mjólk þannig að brauðið drekki mjólkina í sig. Fínsaxið lauk, hvítlauksrif og basiliku og bætið í skálina ásamt mjólkurblautu brauðinu. Kryddið með chilimauki, pizzakryddi, Season All, nautakrafti, sjávarsalti og svörtum pipar. Ég nota nautakraft í duftformi frá Oscar. Hrærið kjötbollurnar á vægum hraða þar til allt hefur blandast vel saman.

Mótið hakkblönduna í hæfilega stórar bollur og raðið þeim á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Eldið kjötbollurnar í ofni við 180° í 20-25 mínútur á meðan sósan er löguð.


 Rjómatómatsósa

2 msk smjör
1 askja piccolotómatar
2 hvítlauksrif
450 ml rjómi
3 dl vatn
3 msk tómatpúrra
1 - 2 tsk nautakraftur
sjávarsalt
svartur pipar
Maizena sósujafnari
handfylli fersk basilika

Skerið piccolotómata í fernt og pressið hvítlauksrif. Setjið í stóran pott og steikið með smjöri í 2-3 mínútur. Hellið rjóma og vatni í pottinn og hitið að suðu. Bætið við tómatpúrru og nautakrafti og smakkið sósuna til með sjávarsalti og svörtum pipar. Þykkið sósuna með sósujafnara og látið krauma við vægan hita í um 10 mínútur.
Þegar kjötbollurnar eru tilbúnar er þeim bætt við sósuna í pottinum. Fínsaxið basiliku og hrærið saman við kjötbollurnar og sósuna. Berið fram með hrísgrjónum og ef til vill heimagerðu hvítlauksbrauði.


Öll hráefni í þessar dásamlegu kjötbollur í rjómatómatsósu fást í Fjarðarkaupum.


Bollurnar eru tilvalinn kvöldmatur svona í miðri viku og krakkarnir eiga eftir að elska þær. Ég hvet ykkur til að prófa.


Tinna Björg

fimmtudagur, 23. apríl 2015

Steik og næs á sumardaginn fyrsta


Gleðilegt sumar kæru vinir! Það er aldeilis sumarblíðan sem við fáum loksins. Við skólafólkið erum víst dæmd til inniveru þessa dagana á lokaspretti annarinnar. En ég ætla þó að leyfa mér að skreppa á hestbak í góða veðrinu og fara með dóttur minni að horfa á eina litla uppáhalds vinkonu okkar keppa á hestamannamóti.

Á svona fínum fyrsta sumardegi er ekki úr vegi að hafa smá steik og næs í kvöldmatinn, er það nokkuð? Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að nautasteik með bernaisesósu og dásamlegu sumarsalati sem er sérréttur Margrétar Gnarr vinkonu minnar. Hún má eiga það að hún gerir girnilegustu salötin þessi elska. Bernaisesósuna var ég að gera í fyrsta skipti og tókst alveg hreint glimrandi vel til þótt ég segi sjálf frá.


 

Nautasteik með bernaise-sósu
Fyrir 4


Nautasteikur

1 kg nautalund eða nautafille
3-4 msk smjör
sjávarsalt
svartur pipar

Skerið nautakjöt í 250 g steikur og brúnið báðar hliðar upp úr smjöri á mjög heitri pönnu þar til stökk húð hefur myndast.
Eldið nautasteikurnar í ofni við 160° í 20-30 mínútur eða þar til réttum kjarnhita hefur verið náð. Ég kýs að hafa steikina mína vel eldaða og hef kjarnhitann um 68-70°.
 Kryddið nautakjötið með sjávarsalti og pipar og látið þær standa í nokkrar mínútur.Bernaise-sósa

4 eggjarauður
2 msk vatn
425 g brætt smjör
2 1/2 msk ferskt tarragon
1 1/2 - 2 msk bernaise essence
2 - 3 tsk nautakraftur
sjávarsalt
svartur pipar

Setjið eggjarauður og vatn í skál og þeytið með pískara yfir heitu vatnsbaði þar til blandan verður létt og ljós. Athugið þó að eggjarauðurnar mega alls ekki eldast heldur bara þykkna örlítið. Gott er að nota skál úr stáli því hún leiðir hitann vel.
Hellið bræddu smjöri út í eggjarauðurnar í mjórri bunu og þeytið vel á meðan. Saxið ferskt tarragon smátt og hrærið saman við. Smakkið sósuna til með bernaise essence, nautakrafti, sjávarsalti og svörtum pipar. Farið varlega í saltið því smjörið og kjötkrafturinn gera sósuna salta. Ég nota nautakraft í duftformi frá Oscar.
Sumarsalat

1 poki blandað salat
1/2 mangó
1 avocado
1 lítil askja jarðarber
1 appelsínugul paprika
1/2 agúrka
120 g kasjúhnetur
1/2 - 1 krukka fetaostur

Setjið blandað salat í fallega salatskál. Afhýðið mangó og avocado og fjarlægið steininn. Skerið í hæfilega stóra bita ásamt jarðarberjum, papriku og agúrku. Setjið niðurskorna ávextina og grænmetið í salatskálina og sáldrið yfir kasjúhnetum og fetaosti. Veltið öllu saman við salatblöðin og berið fram.


Ég hvet ykkur til að smakka þessa ljúffengu og safaríku nautasteik. Bernaisesósan er alveg hreint unaðsleg og salatið algjört lostæti. Svo er ekki verra að fá sér smá rautt með, svona af því að það er nú sumardagurinn fyrsti.

Öll hráefni í uppskriftir dagsins fást í Fjarðarkaupum. Nautakjötið góða fékk ég í kjötborði Fjarðarkaupa en þar er fersk kjötvara í miklu úrvali.


Njótið dagsins elskur og yndi!

Tinna Björg
 

sunnudagur, 19. apríl 2015

Syndsamlega karamellupoppið
Ég hef ekki verið mikið eldri en átta ára þegar ég smakkaði karamellupopp í fyrsta skipti á bekkjarkvöldi í skólanum. Stuttu síðar fékk ég uppskriftina hjá móður bekkjarfélaga míns og er þetta það allra besta karamellupopp sem ég hef smakkað. Um jólahátíðina er virkilega notalegt að sitja yfir jólamynd og narta í karamellupopp. Í staðinn fyrir eina smákökusort er tilvalið að gera karamellupopp til að eiga fyrir gesti og gangandi. Einnig er gaman að gefa það í fallegri jólaöskju eða jafnvel festa við jólagjafir barnanna í litlum bréfpokum skreyttum fallegum jólaslaufum.

En nóg um jólin, það er víst kominn apríl og rúmlega það. Hér kemur uppskriftin sem ég veit að þó nokkrir hafa verið að bíða eftir.

Karamellupopp

½ bolli poppbaunir
olía
115 g smjör
225 g púðursykur
90 g Golden sýróp
½ tsk salt
¼ tsk Cream of tartar

Setjið poppbaunir í pott og hellið botnfylli af olíu yfir þannig að hún þeki baunirnar. Hitið þar til baunirnar byrja að springa. Lækkið þá hitann og látið poppast þar til svolítið lengra fer að líða á milli smella. Hitið saman í potti smjör, púðursykur, sýróp, salt og Cream of tartar og hrærið þar til fer að sjóða. Lækkið hitann og látið krauma í 5 mínútur. Leggið bökunarpappírsörk yfir ofnskúffu og dreifið poppinu ofan í hana. Hellið karamellu yfir og blandið saman við poppið. Athugið að karamellan er fljót að verða seig og því þarf að hafa hraðar hendur. Þurrkið í ofni við 100° í 60 mínútur og hrærið í poppinu 3-4 sinnum á meðan. Hafið ekki áhyggjur þótt karamellan þeki ekki allt poppið í fyrstu því hún mýkist í ofninum og blandast betur.

Þetta syndsamlega góða karamellupopp verðið þið að prófa.

Ég hvet ykkur líka til að prófa að blanda karamellupoppinu saman við ostapopp. Það kemur skemmtilega á óvart hvað þessi tvenna er góð. Svoleiðis snilld smakkaði ég hjá Heiði vinkonu en hún kemur alltaf heim með blandað karamellu- og ostapopp þegar hún fer til New York.


Öll hráefni í karamellupoppið fást í Fjarðarkaupum.Kærar þakkir fyrir að fylgjast með blogginu kæru lesendur!Tinna Björg