Rice Krispies kransakaka


Ljúflega páskafríið var kvatt með söknuði í dag. Það er víst kominn tími til að kippa sér niður á jörðina og færa lögheimilið úr hesthúsinu í HR á ný. Þótt ég hafi eytt mestöllu fríinu í að hrossast tók ég mér ágætis tíma í eldhúsinu líka og gerði meðal annars þessa Rice Krispies kransaköku fyrir eitt fermingarbarnið.


 Rice Krispies kransakaka
18 hringir

300 g suðusúkkulaði
200 g Pipp með karamellufyllingu
1 lítil dós Golden sýróp
175 g smjör
300 g Rice Krispies

300 g suðusúkkulaði (til að líma saman)

Bræðið saman í stórum potti suðusúkkulaði, Pipp, sýróp og smjör. Látið súkkulaðiblönduna krauma í 2-3 mínútur þannig að hún verði karamellukennd. Mikilvægt er að hræra reglulega í blöndunni því hún brennur auðveldlega við.
 Takið pottinn af hellunni og látið súkkulaðiblönduna standa í 4-5 mínútur. Hrærið síðan Rice Krispies vel og vandlega saman við.

Klæðið 18 hringja kransakökuform með plastfilmu og mótið hringi úr hrískökublöndunni á meðan hún er heit. Ég notaði matskeið til að setja í formin og mótaði hringina með fingrunum. Formin sem ég notaði mótuðu þrjá hringi hvert. Við notkun svoleiðis forma er gott að gera ysta og innsta hring í hverju formi en geyma miðjuhringina þar til búið er að leysa hina úr forminu. Þannig festast þeir ekki saman. Setjið kransakökuformin í frysti í um 10 mínútur. Leysið hringina úr formunum og mótið miðjuhringina. Frystið miðjuhringina síðan í um 10 mínútur. Geymið kransakökuhringina í kæli yfir nótt. Ég raðaði mínum hringjum á ofnplötur og setti í ísskápinn.

Athugið að hver og einn setur mismikið af hrískökublöndu í formin. Til að tryggja að hrískökublandan dugi í heila kransaköku er best að gera stærsta hringinn síðast og láta hann mæta afgangi ef blandan dugar ekki.

Bræðið suðusúkkulaði yfir heitu vatnsbaði og kælið þar til það byrjar aðeins að þykkna. Límið stærsta hringinn á kökudisk eða pappaspjald með smá súkkulaði. Smyrjið súkkulaði ofan á hringinn með teskeið, límið næst stærsta hringinn ofan á og svo koll af kolli.

Þemað í fermingarveislunni var ljósfjólublátt. Þar sem ég fann hvergi fallegt ljósfjólublátt kökuskraut skreytti ég kransakökuna með lifandi blómum. Ég var virkilega ánægð með útkomuna, kakan var sumarleg og fallegt borðskraut. Blómin límdi ég á kransakökuna með bræddu hjúpsúkkulaði.


Ég nota oftast suðusúkkulaði frá Lindu því mér þykir það bragðbetra. Mæli með því að þið athugið bragðmuninn.
Öll hráefni í Rice Krispies kransakökuna fást í Fjarðarkaupum.
Tinna Björg

Ummæli

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur