Syndsamlega karamellupoppið
Ég hef ekki verið mikið
eldri en átta ára þegar ég smakkaði karamellupopp í fyrsta skipti á bekkjarkvöldi
í skólanum. Stuttu síðar fékk ég uppskriftina hjá móður bekkjarfélaga míns og er þetta það allra
besta karamellupopp sem ég hef smakkað. Um jólahátíðina er virkilega notalegt að
sitja yfir jólamynd og narta í karamellupopp. Í staðinn fyrir eina smákökusort
er tilvalið að gera karamellupopp til að eiga fyrir gesti og gangandi. Einnig
er gaman að gefa það í fallegri jólaöskju eða jafnvel festa við jólagjafir
barnanna í litlum bréfpokum skreyttum fallegum jólaslaufum.
En nóg um jólin, það er víst kominn apríl og rúmlega það. Hér kemur uppskriftin sem ég veit að þó nokkrir hafa verið að bíða eftir.
Karamellupopp
½
bolli poppbaunir
olía
115 g smjör
225 g púðursykur
90 g Golden sýróp
½ tsk salt
¼ tsk Cream of tartar
olía
115 g smjör
225 g púðursykur
90 g Golden sýróp
½ tsk salt
¼ tsk Cream of tartar
Setjið
poppbaunir í pott og hellið botnfylli af olíu yfir þannig að hún þeki baunirnar.
Hitið þar til baunirnar byrja að springa. Lækkið þá hitann og látið poppast þar
til svolítið lengra fer að líða á milli smella. Hitið saman í potti smjör,
púðursykur, sýróp, salt og Cream of tartar og hrærið þar til fer að sjóða.
Lækkið hitann og látið krauma í 5 mínútur. Leggið bökunarpappírsörk yfir
ofnskúffu og dreifið poppinu ofan í hana. Hellið karamellu yfir og blandið
saman við poppið. Athugið að karamellan er fljót að verða seig og því þarf að
hafa hraðar hendur. Þurrkið í ofni við 100° í 60 mínútur og hrærið í poppinu
3-4 sinnum á meðan. Hafið ekki áhyggjur þótt karamellan þeki ekki allt poppið í
fyrstu því hún mýkist í ofninum og blandast betur.
Þetta syndsamlega góða karamellupopp verðið þið að prófa.
Ég hvet ykkur líka til að prófa að blanda karamellupoppinu saman við ostapopp. Það kemur skemmtilega á óvart hvað þessi tvenna er góð. Svoleiðis snilld smakkaði ég hjá Heiði vinkonu en hún kemur alltaf heim með blandað karamellu- og ostapopp þegar hún fer til New York.
Öll hráefni í karamellupoppið fást í Fjarðarkaupum.
Kærar þakkir fyrir að fylgjast með blogginu kæru lesendur!
Tinna
Björg
Ummæli
Skrifa ummæli