Matur í miðri viku


Ég á eina litla skvísu sem á það til að vera svolítið matvönd. Blessunarlega borðar hún kjötbollur með bestu lyst og er hrifin af flestum réttum sem innihalda nautahakk. Gæði nautahakks eru afar misjöfn svo ég mæli með því að kaupa magurt hakk úr fersku kjötborði. Þá klikkar girnilega kjötborðið í Fjarðarkaupum aldrei.

Fyrir þá sem borða nautahakk og annað nautakjöt reglulega er góð hugmynd að kaupa kjötpakka til að eiga í frysti. Ég keypti nýlega nautakjötspakka í Kjötsmiðjunni sem innihélt nautahakk, nautalund sem skorin hafði verið í steikur, gúllas og hamborgara. Magnið af hverju veljið þið sjálf og hægt er að láta pakka kjötinu í lofttæmdar umbúðir þannig að það geymist vel og tekur lítið pláss í frystinum.

Fyrsti rétturinn sem ég eldaði úr kjötpakkanum voru þessar dýrindis ítölsku kjötbollur með alls kyns kryddum, fetaosti og parmesan. Ég eldaði stóran skammt og frysti afganginn til að eiga tilbúinn kvöldmat fyrir dóttur mína að grípa í þegar takmarkaður tími er fyrir eldamennsku. Það kemur sér einstaklega vel núna þegar ég er að sökkva mér ofan í próflestur.


Kryddaðar kjötbollur í rjómatómatsósu

Kjötbollur

800 g nautahakk
3 egg
1 1/2 dl fetaostur
1 dl rifinn parmesanostur
1 - 1 1/3 dl mjólk
4 brauðsneiðar
1 laukur
4 hvítlauksrif
fersk basilika (um 10 stilkar)
2 1/2 tsk chilimauk
1 1/2 msk pizzakrydd
1 msk Season All
2-3 tsk nautakraftur
sjávarsalt
svartur pipar

Setjið nautahakk og egg í hrærivélarskál. Myljið fetaost örlítið með gaffli og setjið í skálina ásamt parmesanosti. Rífið brauðsneiðar og vætið með mjólk þannig að brauðið drekki mjólkina í sig. Fínsaxið lauk, hvítlauksrif og basiliku og bætið í skálina ásamt mjólkurblautu brauðinu. Kryddið með chilimauki, pizzakryddi, Season All, nautakrafti, sjávarsalti og svörtum pipar. Ég nota nautakraft í duftformi frá Oscar. Hrærið kjötbollurnar á vægum hraða þar til allt hefur blandast vel saman.

Mótið hakkblönduna í hæfilega stórar bollur og raðið þeim á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Eldið kjötbollurnar í ofni við 180° í 20-25 mínútur á meðan sósan er löguð.


 Rjómatómatsósa

2 msk smjör
1 askja piccolotómatar
2 hvítlauksrif
450 ml rjómi
3 dl vatn
3 msk tómatpúrra
1 - 2 tsk nautakraftur
sjávarsalt
svartur pipar
Maizena sósujafnari
handfylli fersk basilika

Skerið piccolotómata í fernt og pressið hvítlauksrif. Setjið í stóran pott og steikið með smjöri í 2-3 mínútur. Hellið rjóma og vatni í pottinn og hitið að suðu. Bætið við tómatpúrru og nautakrafti og smakkið sósuna til með sjávarsalti og svörtum pipar. Þykkið sósuna með sósujafnara og látið krauma við vægan hita í um 10 mínútur.
Þegar kjötbollurnar eru tilbúnar er þeim bætt við sósuna í pottinum. Fínsaxið basiliku og hrærið saman við kjötbollurnar og sósuna. Berið fram með hrísgrjónum og ef til vill heimagerðu hvítlauksbrauði.


Öll hráefni í þessar dásamlegu kjötbollur í rjómatómatsósu fást í Fjarðarkaupum.


Bollurnar eru tilvalinn kvöldmatur svona í miðri viku og krakkarnir eiga eftir að elska þær. Ég hvet ykkur til að prófa.


Tinna Björg

Ummæli

  1. Hæhæ, fyrir hve marga er þessi uppskrift?

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur