Helgarveislan í 6. þætti af Matur & Vín


Ég var ekki ennþá búin að sýna ykkur sjötta þáttinn af Matur&Vín sem birtur var á Króm fyrir nokkrum vikum.
Í þessum þætti geri ég humarpasta sem kemur verulega á óvart. Ég er almennt ekkert sérlega mikil pastamanneskja en ég á mér þó einn og einn uppáhalds pastarétt. Þessi er þar efstur á lista. Hvítlauksrjómasósan er alveg unaðsleg, svo létt og bragðgóð. Svo ég tali nú ekki um humarinn sem klikkar auðvitað aldrei. Öllum humarréttum verður svo auðvitað að fylgja heimagert hvítlauksbrauð.



 
Humarpasta með hvítlauksbrauði

Humarpasta

450 g humarhalar
1/4 bolli olía
3 fínsaxaðir hvítlauksgeirar
börkur af 1 sítrónu
1 tsk sjávarsalt
1 tsk svartur pipar
450 g pasta (fettuccine eða tagliatelle)
1 bolli hvítvín
safi úr 1 sítrónu
1 msk smjör
1/2 bolli rjómi
1/4 bolli parmesanostur
1/4 bolli steinselja

Blandið saman í skál olíu, hvítlauk, sítrónuberki, sjávarsalti og svörtum pipar. Klippið humarskeljar og opnið þær. Hreinsið humarinn og marinerið í olíublöndunni í 30 mínútur. Raðið humarhölunum í eldfast mót eða á ofnplötu þannig að kjötið snúi upp.

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum með sjávarsalti og smá olíu. Þegar pastað er tilbúið, hellið vatninu af.

Steikið afganginn af marineringunni á pönnu. Gætið að því að ekkert skelbrot af humrinum leynist í marineringunni. Hellið hvítvíni á pönnuna og látið krauma í um 5 mínútur þannig að vínið minnki um helming. Bætið smjöri, rjóma, sítrónusafa og parmesanosti við sósuna. Setjið pasta og saxaða steinselju á pönnuna og veltið  upp úr sósunni. Að lokum er sjávarsalti og svörtum pipar sáldrað yfir pastað og hrært aðeins saman við.
Ástæðan fyrir því að ég set sjávarsaltið og svarta piparinn síðast er sú að mér finnst svo ofboðslega gott að bíta í eina og eina stökka saltflögu og sterkt piparkorn með hverjum bita.
Það gerir pastað svolítið ferskara.

Hitið ofninn í 200° á grillstillingu og grillið humarhalana í 3-6 mínútur.

Í blálokin er pastanum skammtað jafnt á diska og humarhalarnir lagðir fallega ofan á.

Með humri ber ég alltaf fram einfalt heimagert hvítlauksbrauð. Það er svo miklu betra en þetta sem maður kaupir frosið, þið verðið sko ekki svikin.


Hvítlauksbrauð

1 snittubrauð
150 g mjúkt smjör
2-4 hvítlauksrif
handfylli söxuð steinselja

Saxið hvítlauksrif og hrærið saman við smjör ásamt steinselju. Skerið snittubrauð í þunnar sneiðar og smyrjið með hvítlaukssmjöri. Ristið hvítlauksbrauðið á grind í ofni við 200° í nokkrar mínútur eða þar til það verður fallega brúnt og stökk að utan en ennþá mjúkt að innan.

Ef smjörið er kalt og hart þá er gott að rífa það með rifjárni, þannig er það fljótara að mýkjast og auðvelt að hræra hvítlaunkum og steinseljunni saman við.
Ég set smjörið líka stundum á afþíðingu í örbylgjuofni í nokkrar sekúndur til að mýkja það.

Þessa ofurrómantísku diska undir humarpastað fékk ég í Litlu Garðbúðinni en fatnaðurinn er frá Lolita.is.
Allar matvörur í uppskriftina fást í Fjarðarkaupum. 


Innilegar þakkir fyrir að fylgjast með mér kæru vinir!
Þeir sem vilja fylgjast enn betur með geta fylgt mér á Instagram @tinnabjorgcom.

Góða helgi!


Tinna Björg

www.krom.is

Ummæli

Vinsælar færslur