Orkubomba sem byrjar daginn rétt


Jæja þá er komin smá pása á verkefnavinnu og þá er viðeigandi að taka aðeins til í mataræðinu. Ég er ein af þeim sem borðar aldrei jafn óhollt og í verkefna- og prófatörnum, virkilega slæmur ávani. Húðin orðin hræðileg og þreytan eins mikil og hún verður.

Mér finnst ofboðslega gott að byrja daginn á þessum chiagraut, þá sjaldan sem ég nenni að útbúa hann. Hann er svoleiðis stútfullur af hollustu og gefur manni góða orku út í daginn.


Banana- og súkkulaðichiagrautur
1/2 banani
1 daðla
8 möndlur
1 tsk hnetusmjör
1/2 tsk kakó
1/4 tsk kanill
140 ml vatn
3 msk chiafræ

Setjið banana, döðlu, möndlur, hnetusmjör, kakó, kanil og vatn í blandara og maukið vel.
Hellið í ílát og hrærið chia fræjum saman við. Lokið ílátinu og kælið í ísskáp í 20-30 mínútur eða þar til chiafræin hafa bólgnað hæfilega mikið.

Ég mæli með því að grauturinn sé gerður samdægurs því mér finnst bragðið af banananum breytast örlítið.

Öll hráefni í  uppskriftina fást í Fræinu í Fjarðarkaupum, nema bananarnir. Þeir eru í ávaxtadeildinni að sjálfsögðu!


Ljómandi gott, hvet ykkur til að prófa!


Tinna Björg
 

Ummæli

Vinsælar færslur