miðvikudagur, 24. júní 2015

Látlaus kvöldverður í útileguna


Ég hef mikið dálæti á pottréttum og bestir þykir mér þeir réttir sem innihalda kjöt af einhverju tagi. Oftast verður nauta- eða svínakjöt fyrir valinu en stundum getur verið gott að bregða út af vananum og elda góðan pottrétt með kalkúnahakki. Þessa stórgóðu kalkúnakássu er tilvalið að hafa meðferðis í útileguna til að sleppa við eldamennsku eina kvöldstund. Svo bragðast hún jafnvel enn betur daginn eftir. Kalkúnakássa

2 hvítlauksrif
1 laukur
2 msk olía
600 g kalkúnahakk
2 stilkar sellerí
1 rauð paprika
1 dós nýrnabaunir
1 dós niðursoðnir tómatar
2 msk tómatpúrra
3 teningar kjúklingakraftur
250 ml vatn
5-10 g suðusúkkulaði (1-2 bitar)
1 rauður chilipipar
1 grænn chilipipar
2 tsk paprikuduft
2 tsk cumin
1 1/2 tsk þurrkaðar chiliflögur
1/2 tsk svartur pipar
1/2 tsk sjávarsalt

Skerið lauk í bita og pressið hvítlauksrif. Steikið í stórum potti með olíu þar til laukurinn mýkist. Bætið við kalkúnahakki í pottinn og steikið þar til hakkið byrjar að brúnast. Saxið sellerí og skerið papriku í litla bita, setjið í pottinn og steikið áfram við vægan hita. Sigtið og skolið nýrnabaunir og bætið í pottinn ásamt niðursoðnum tómötum, sem skornir hafa verið gróflega, safa úr tómatdósinni og tómatpúrru. Myljið kjúklingakraft í pottinn og hellið vatni saman við. Hitið kalkúnakássuna að suðu og látið krauma við vægan hita. Setjið suðusúkkulaði í pottinn og hrærið því vandlega saman við kássuna á meðan það bráðnar. Fræhreinsið og saxið rauðan og grænan chilipipar og bætið í pottinn. Þeir sem vilja hafa réttinn sterkan geta látið nokkur fræ úr chilipiparnum fylgja með. Kryddið kássuna með paprikudufti, cumin, þurrkuðum chiliflögum, svörtum pipar og sjávarsalti. Setjið lok á pottinn og látið kalkúnakássuna krauma við vægan hita í 4 klst.

Berið fram með góðu kornbrauði og ef til vill smá slettu af sýrðum rjóma.


Öll hráefni í þessa ljúffengu kalkúnakássu fást í Fjarðarkaupum.


Verði ykkur að góðu!


Tinna Björg


föstudagur, 12. júní 2015

Bollakökur sem gleðja augað jafnt sem bragðlaukana


Litríkar bollakökur eru eitthvað sem mér þykir afar skemmtilegt að bera fram í barnaafmælum og öðrum veislum. Þær lífga svo sannarlega upp á veisluborðið og bragðast dásamlega. Sérstaklega eru bollakökurnar vinsælar hjá ungu kynslóðinni. Fyrir nokkrum vikum gerði ég vanillubollakökur með bláu smjörkremi fyrir fermingarveislu. Auðvitað gerði ég nokkrar aukalega til að hafa með kaffinu uppi í hesthúsi. Þið fyrirgefið vonandi arfaslöku myndgæðin, myndin er tekin á lélega símamyndavél í slæmri birtu.
Vanillub0llakökur

Bollakökur

270 g sykur
115 g mjúkt smjör
2 stór egg
1 1/2 tsk vanilludropar
280 g hveiti
2 1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
245 ml mjólk

Þeytið sykur og smjör sama þar til blandan verður ljós og létt. Bætið við einu eggi í einu ásamt vanilludropum. Blandið saman í aðra skál hveiti, lyftidufti og salti. Hrærið helmingi þurrefnablöndunnar saman við smjörblönduna, síðan mjólkinni og loks afgangi af þurrefnablöndunni. Hrærið deigið þar til allt hefur blandast vel saman. Fyllið muffinsform af deigi til hálfs með matskeið eða teskeið. Bakið bollakökurnar við 170° í 20-25 mínútur og kælið áður en smjörkremi er sprautað á þær.


Smjörkrem

450 g mjúkt smjör
500-600 g flórsykur
2 1/2 tsk vanilludropar
matarlitur eftir smekk

Þeytið smjör til að mýkja það og bætið við flórsykri smátt og smátt. Hrærið því næst vanilludropum og matarlit saman við kremið. Setjið kremið í sprautupoka með sprautustút 1M eða 2D frá Wilton. Sprautið kreminu á bollakökurnar og myndið fallegar rósir. Byrjið á að sprauta sma kremi í miðju hverrar köku og sprautið áfram í hringi þar til bollakakan er öll þakin kremi.


Öll hráefni í þessar ljúffengu og krúttlegu bollakökur fást í Fjarðarkaupum.

Tinna Björg

Algjört sælgæti


Við vinkonurnar úr Verzlunarskóla Íslands hittumst reglulega í saumaklúbbi þar sem við spjöllum yfir alls kyns kræsingum. Við skiptumst á að bjóða heim og sú sem röðin er komin að sér um veitingarnar. Hrískökur hafa lengi verið vinsælar hjá okkur enda fljótlegar og einfaldar í gerð og alltaf jafn góðar. En þessar hrískökur, sem Tinna vinkona bauð upp á í saumaklúbbnum eitt kvöldið, eru ekkert venjulega góðar. Þær eru eiginlega bara fáránlegar og ég verð að deila uppskriftinni með ykkur.


Sælgætishrískökur

6 stk Mars
15 döðlur
300 g Appolo lakkrískurl
3 msk sýróp
200 g smjör
13 dl Rice Krispies

Skerið Mars og döðlur í litla bita og bræðið saman í potti ásamt lakkrískurli, sýrópi og smjöri. Hitið blönduna að suðu og látið krauma við vægan hita í um 5 mínútur. Takið pottinn af hellunni og látið standa í 3-4 mínútur. Blandið því næst Rice Krispies saman við bráðina. Notið matskeið til að fylla muffinsform af hrískökublöndu. Látið hrískökurnar kólna áður en þær eru bornar fram.


Þessar ofureinföldu hrískökur eru algjört sælgæti og sniðugt að útbúa þær með börnunum á nammidaginn.

Öll hráefni í sælgætishrískökurnar fást í Fjarðarkaupum.


Góða helgi!Tinna Björg

fimmtudagur, 11. júní 2015

Dýrindis sósa með helgarsteikinni


Fyrir nokkrum vikum deildi ég mynd af rjómalagaðri sveppasósu á Facebook-síðu matarbloggsins án þess þó að láta fylgja með henni uppskrift. Þessi sósa þykir mér ómissandi með góðri nautasteik og foreldrar mínir voru mér hjartanlega sammála þegar ég eldaði nautalund með öllu tilheyrandi í fyrstu sveitarferð sumarsins um daginn. Hún er nokkurn veginn hefðbundin sveppasósa en með villibráðarívafi.


Rjómalöguð sveppasósa

2-3 msk smjör
1 askja sveppir
500 ml rjómi
2-3 tsk villibráðarkraftur
2 tsk gult sinnep
salt
svartur pipar
maizena sósujafnari

Til að byrja með setti ég 3 msk af smjöri á pönnu og lokaði nautalundunum með því að snöggsteikja þær í smjörinu. Smjörið sem eftir var á pönnunni notaði ég síðan til að steikja sveppina upp úr. Þannig verður sósan kraftmeiri og bragðbetri. Skerið sveppi í hæfilega stóra bita og steikið upp úr smjöri í um 3 mínútur. Hellið rjóma yfir sveppina og hitið að suðu. Hrærið villibráðarkrafti og sinnepi saman við sósuna og látið krauma við vægan hita í um 15 mínútur. Smakkið til með salti og svörtum pipar og þykkið sósuna eftir smekk með sósujafnara. Ég nota villibráðarkraft í duftformi frá Oscar. Athugið að fara gætilega með saltið í lokin því villibráðarkrafturinn er svolítið saltur.


Öll hráefni í þessa dásamlegu rjómalöguðu sveppasósu fást í Fjarðarkaupum.Ég hvet ykkur til að prófa þessa með steikinni um helgina, þið verðið ekki svikin.Tinna Björg


miðvikudagur, 10. júní 2015

Miðvikudagsterta


Þetta blessaða sumar virðist vera eitthvað óákveðið! En þótt sumarið og sólin láti aðeins bíða eftir sér þá er sumarvinnan hafin. Það stefnir í vægast sagt skemmtilegt og öðruvísi sumar hjá mér en ég hef hafið störf sem lögreglukona í sumarafleysingum á Vestfjörðum. Þetta verður afar dýrmæt reynsla fyrir laganema eins og mig og virkilega góð tilfinning að stíga langt út fyrir þægindarammann og prófa eitthvað nýtt. Svo ekki sé minnst á þá náttúruperlu sem Vestfirðir eru, hennar fæ ég að njóta í allt sumar.
Ég ætla að vera dugleg á Instagram í sumar svo endilega fylgist með mér þar. Notandanafnið er tinnabjorgcom.

 Undanfarnar vikur hef ég verið afskaplega ódugleg við að deila með ykkur öllum þeim uppskriftum sem hrannast hafa upp hjá mér. Til að bæta upp þetta kæruleysi ætla ég því að birta eina góða miðvikudagstertu, sannkallaða klessubombu.


Súkkulaðimarengs með berjafrómas


Marengsbotn

2 eggjahvítur
120 g sykur
1/2 tsk lyftiduft

Stífþeytið eggjahvítur og bætið sykri og lyftidufti saman við. Þeytið áfram þar til marengsinn verður alveg stífur.
Smyrjið smelluform og sníðið bökunarpappírsörk ofan í botn formsins. Smyrjið marengsinum jafnt ofan í smelluformið og bakið við 120° í 50 mínútur. Slökkvið þá á ofninum og látið marengsbotninn kólna inni í honum til að koma í veg fyrir sprungur.


Súkkulaðibotn

200 g suðusúkkulaði
115 g smjör
150 g sykur
1/4 tsk salt
1 1/2 tsk skyndikaffiduft
2 tsk vanilludropar
3 egg
40 g kakó

Bræðið suðusúkkulaði og smjör saman við vægan hita og hellið í hrærivélarskál. Blandið saman við súkkulaðiblönduna sykri, salti, skyndikaffidufti og vanilludropum. Bætið einu eggi í einu við deigið og hrærið þar til það verður silkimjúkt. Sigtið kakóduft út í deigið og hrærið áfram þar til kakóið hefur blandast saman við. Sníðið bökunarpappírsörk í botninn á smelluformi og smyrjið formið. Hellið deiginu í smelluformið og bakið við 190° í 20-25 mínútur.
Kælið kökubotninn í forminu í um 5 mínútur, leysið hann úr og látið kólna alveg.


Berjafrómas

1 pakki jarðarberja Jello
50 ml sjóðandi heitt vatn
400 g frosin hindber
2-3 msk sykur
3 matarlímsblöð
600 ml þeyttur rjómi

Leysið upp jarðarberja Jello í heitu vatni og kælið þar til það verður rétt volgt. Afþíðið 200 g af frosnum hindberjum og sjóðið saman við sykur í um 4 mínútur. Sigtið hindberjapúrruna þannig að fræin skiljist frá. Leggið matarlímsblöð í bleyti í köldu vatni þar til þau mýkjast og kreistið af þeim vatnið. Hrærið blöðunum síðan saman við heita hindberjapúrruna og kælið hana að stofuhita.
Hrærið jarðarberja Jello og hindberjapúrru varlega saman við þeyttan rjóma. Blandið að lokum 200 g af frosnum hindberjum saman við berjafrómasinn og kælið í 20-30 mínútur.

Setjið súkkulaðibotn á fallegan kökudisk og smyrjið berjafrómas jafnt yfir botninn. Leggið marengsbotn yfir tertuna og kælið á meðan fílakaramellubráðin er útbúin.


Fílakaramellubráð

20 fílakaramellur
20 ml rjómi

Bræðið fílakaramellur saman við rjóma og kælið við stofuhita.

Hellið að lokum fílakaramellubráð fallega yfir marengsbotninn og berið tertuna fram.


Öll hráefni í þessa miðvikudagsdýrð fást í Fjarðarkaupum.Njótið vel!


Tinna Björg