Dýrindis sósa með helgarsteikinni


Fyrir nokkrum vikum deildi ég mynd af rjómalagaðri sveppasósu á Facebook-síðu matarbloggsins án þess þó að láta fylgja með henni uppskrift. Þessi sósa þykir mér ómissandi með góðri nautasteik og foreldrar mínir voru mér hjartanlega sammála þegar ég eldaði nautalund með öllu tilheyrandi í fyrstu sveitarferð sumarsins um daginn. Hún er nokkurn veginn hefðbundin sveppasósa en með villibráðarívafi.


Rjómalöguð sveppasósa

2-3 msk smjör
1 askja sveppir
500 ml rjómi
2-3 tsk villibráðarkraftur
2 tsk gult sinnep
salt
svartur pipar
maizena sósujafnari

Til að byrja með setti ég 3 msk af smjöri á pönnu og lokaði nautalundunum með því að snöggsteikja þær í smjörinu. Smjörið sem eftir var á pönnunni notaði ég síðan til að steikja sveppina upp úr. Þannig verður sósan kraftmeiri og bragðbetri. Skerið sveppi í hæfilega stóra bita og steikið upp úr smjöri í um 3 mínútur. Hellið rjóma yfir sveppina og hitið að suðu. Hrærið villibráðarkrafti og sinnepi saman við sósuna og látið krauma við vægan hita í um 15 mínútur. Smakkið til með salti og svörtum pipar og þykkið sósuna eftir smekk með sósujafnara. Ég nota villibráðarkraft í duftformi frá Oscar. Athugið að fara gætilega með saltið í lokin því villibráðarkrafturinn er svolítið saltur.


Öll hráefni í þessa dásamlegu rjómalöguðu sveppasósu fást í Fjarðarkaupum.



Ég hvet ykkur til að prófa þessa með steikinni um helgina, þið verðið ekki svikin.



Tinna Björg


Ummæli

Vinsælar færslur