Miðvikudagsterta


Þetta blessaða sumar virðist vera eitthvað óákveðið! En þótt sumarið og sólin láti aðeins bíða eftir sér þá er sumarvinnan hafin. Það stefnir í vægast sagt skemmtilegt og öðruvísi sumar hjá mér en ég hef hafið störf sem lögreglukona í sumarafleysingum á Vestfjörðum. Þetta verður afar dýrmæt reynsla fyrir laganema eins og mig og virkilega góð tilfinning að stíga langt út fyrir þægindarammann og prófa eitthvað nýtt. Svo ekki sé minnst á þá náttúruperlu sem Vestfirðir eru, hennar fæ ég að njóta í allt sumar.
Ég ætla að vera dugleg á Instagram í sumar svo endilega fylgist með mér þar. Notandanafnið er tinnabjorgcom.

 Undanfarnar vikur hef ég verið afskaplega ódugleg við að deila með ykkur öllum þeim uppskriftum sem hrannast hafa upp hjá mér. Til að bæta upp þetta kæruleysi ætla ég því að birta eina góða miðvikudagstertu, sannkallaða klessubombu.


Súkkulaðimarengs með berjafrómas


Marengsbotn

2 eggjahvítur
120 g sykur
1/2 tsk lyftiduft

Stífþeytið eggjahvítur og bætið sykri og lyftidufti saman við. Þeytið áfram þar til marengsinn verður alveg stífur.
Smyrjið smelluform og sníðið bökunarpappírsörk ofan í botn formsins. Smyrjið marengsinum jafnt ofan í smelluformið og bakið við 120° í 50 mínútur. Slökkvið þá á ofninum og látið marengsbotninn kólna inni í honum til að koma í veg fyrir sprungur.


Súkkulaðibotn

200 g suðusúkkulaði
115 g smjör
150 g sykur
1/4 tsk salt
1 1/2 tsk skyndikaffiduft
2 tsk vanilludropar
3 egg
40 g kakó

Bræðið suðusúkkulaði og smjör saman við vægan hita og hellið í hrærivélarskál. Blandið saman við súkkulaðiblönduna sykri, salti, skyndikaffidufti og vanilludropum. Bætið einu eggi í einu við deigið og hrærið þar til það verður silkimjúkt. Sigtið kakóduft út í deigið og hrærið áfram þar til kakóið hefur blandast saman við. Sníðið bökunarpappírsörk í botninn á smelluformi og smyrjið formið. Hellið deiginu í smelluformið og bakið við 190° í 20-25 mínútur.
Kælið kökubotninn í forminu í um 5 mínútur, leysið hann úr og látið kólna alveg.


Berjafrómas

1 pakki jarðarberja Jello
50 ml sjóðandi heitt vatn
400 g frosin hindber
2-3 msk sykur
3 matarlímsblöð
600 ml þeyttur rjómi

Leysið upp jarðarberja Jello í heitu vatni og kælið þar til það verður rétt volgt. Afþíðið 200 g af frosnum hindberjum og sjóðið saman við sykur í um 4 mínútur. Sigtið hindberjapúrruna þannig að fræin skiljist frá. Leggið matarlímsblöð í bleyti í köldu vatni þar til þau mýkjast og kreistið af þeim vatnið. Hrærið blöðunum síðan saman við heita hindberjapúrruna og kælið hana að stofuhita.
Hrærið jarðarberja Jello og hindberjapúrru varlega saman við þeyttan rjóma. Blandið að lokum 200 g af frosnum hindberjum saman við berjafrómasinn og kælið í 20-30 mínútur.

Setjið súkkulaðibotn á fallegan kökudisk og smyrjið berjafrómas jafnt yfir botninn. Leggið marengsbotn yfir tertuna og kælið á meðan fílakaramellubráðin er útbúin.


Fílakaramellubráð

20 fílakaramellur
20 ml rjómi

Bræðið fílakaramellur saman við rjóma og kælið við stofuhita.

Hellið að lokum fílakaramellubráð fallega yfir marengsbotninn og berið tertuna fram.


Öll hráefni í þessa miðvikudagsdýrð fást í Fjarðarkaupum.



Njótið vel!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur