laugardagur, 30. maí 2015

Helgarkakan sem allir verða að smakka


Ég kláraði fyrra meistaranámsárið í lögfræði í gær. Þvílík gleði! Öllum fögnuði fylgir kaka, þannig á það að vera. Helgarkakan er að þessu sinni syndsamlega góð frönsk súkkulaðikaka með Dumle-karamellukremi. Betri franska er held ég ekki hægt að finna en uppskriftin er úr safninu hennar mömmu.  Svo að sjálfsögðu varð ég að bæta á hana karamellukremi. Allt er betra með smá karamellu.Frönsk súkkulaðikaka með Dumle-karamellukremi


Franskur súkkulaðibotn

1/2 bolli sterkt uppáhellt kaffi
200 g púðursykur
200 g sykur
350 g smjör
300 g suðusúkkulaði
100 g ljóst rjómasúkkulaði
5 stór egg

Hitið kaffi og sykur saman í potti að suðu og takið af hellunni. Bætið við smjöri og súkkulaði, látið bráðna saman við kaffiblönduna og hrærið vel. Gott er að skera súkkulaðið fremur smátt svo það bráðni hraðar. Athugið að blandan má ekki sjóða eftir að smjöri og súkkulaði hefur verið blandað saman við hana. Hrærið egg örlítið saman í skál og bætið saman við súkkulaðiblönduna í pottinum. Hrærið vel þar til deigið verður silkimjúkt og slétt.

Smyrjið smelluform og sníðið bökunarpappírsörk í botn þess. Gott er að klæða smelluformið að utan með álpappír til að koma í veg fyrir að deigið leki úr því á meðan kakan er í ofninum. Hellið deiginu í smelluformið og bakið við 170° í 55-60 mínútur. Kælið kökuna í 3-4 klst. áður en hún er borin fram. Allra best þykir mér kakan þegar hún hefur staðið í ísskáp yfir nótt.


Dumle-karamellukrem

120 g Dumle karamellur
30 ml rjómi

Bræðið saman í potti Dumle karamellur og rjóma.
Kælið karamelluna að stofuhita og hellið yfir frönsku súkkulaðikökuna.


Öll hráefni í þessa syndsamlegu dásemd fást í Fjarðarkaupum.Þessa verðið þið að prófa!Tinna Björg

fimmtudagur, 21. maí 2015

Naslað yfir Eurovision


Ég hef aldrei verið áhugasöm um Eurovision en núna er ég alveg sérstaklega spennt fyrir keppninni. Íslenska lagið þykir mér alveg frábært, María er svo glæsileg söngkona og strákarnir í StopWaitGo algjörir snillingar.

Þótt ég hafi hingað til ekki verið neinn djúpur Eurovision-aðdáandi þá horfi ég nú oftast á keppnina með öðru auganu, jafnvel báðum. Að sjálfsögðu þarf maður að hafa eitthvað til að narta í yfir keppninni til að skapa smá stemningu. Já, ég er ein af þeim sem tengir stemningu við mat... Ég tengi reyndar flest við mat svo þetta ætti ekki að koma neinum mikið á óvart.

Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að dásamlegu og stórkostlega einföldu döðlupestó sem systir mín kynnti mig fyrir um daginn. Ég bar það fram í afmæli dóttur minnar ásamt snittubrauði og kexi. Sumum finnst svolítið framandi að blanda saman sætum döðlum og söltu pestó en ég get fullvissað ykkur um að þessi blanda kemur skemmtilega á óvart.

 

Döðlupestó

1 krukka grænt pestó
3/4 krukka fetaostur
100 g salthnetur
10-15 döðlur

Blandið saman í skál grænu pestó, fetaosti og salthnetum ásamt döðlum sem skornar hafa verið í litla bita. Berið fram með kexi eða snittubrauði.


Túnfisksalat er eitthvað sem slær alltaf í gegn hjá minni fjölskyldu og tilvalið að útbúa fyrir Eurovision-partíið. Ég ætla að deila með ykkur svolítið nýstárlegri útgáfu af túnfisksalati með ítölsku ívafi. Þetta salat þykir pabba mínum alveg sérlega gott en hann bar það einmitt fram í afmælisveislu dóttur minnar í fyrra. Ég er pínu að ljúga, þetta salat er ekkert ítalskt. Pabbi smakkaði það úti á Tenerife. En það eru ítalskar ólífur í því! Held ég.


Ítalskt túnfisksalat

1 dós túnfiskur
1/2 krukka svartar ólífur
1/2 krukka sólþurrkaðir tómatar
1/2 rauðlaukur
2 msk majones

Skerið smátt ólífur, sólþurrkaða tómata og rauðlauk og blandið saman við túnfisk og majones.
Berið fram með kexi eða snittubrauði.

Salötin gerast ekki mikið einfaldari skal ég segja ykkur. Svo er eitt salat í einstaklega miklu uppáhaldi hjá mér; ostasalat.Ætli flestir hafi ekki smakkað einhverja útgáfu af ostasalati? Mig grunar það nú en það er eitthvað sem allir ostaunnendur verða að smakka. Ég hef svo mikið dálæti á þessu blessaða ostasalati að einu sinni eftir einhverja veisluna lifði ég eingöngu á því og smá snittubrauði í þrjá daga. Og ég skammast mín ekkert fyrir það!

Uppskrift að ostasalatinu getið þið nálgast hér. Í þessum vefþætti sem ég gerði í samstarfi við Króm sjáið þið hvernig ég geri ostasalatið góða, camembertsnittur, parmaskinkurúllur og frískandi sumarkokteila.


Öll hráefni í salötin góðu fást í Fjarðarkaupum.


Ég hvet ykkur til að prófa kæru vinir. Njótið kvöldsins.
Áfram Ísland!


Tinna Björg

laugardagur, 16. maí 2015

Helgartertan og afmælisveisla síðustu helgarKlara Sóllilja átti tveggja ára afmæli í síðustu viku og bauð fjölskyldu og vinum í veislu á sunnudaginn. Þemað átti að vera Hello Kitty en eftir að hafa gengið á milli óteljandi verslana í leit að skrauti játaði ég mig sigraða. En ég fann Hello Kitty kökudiska! Þrautalendingin var bleikt þema, það klikkar ekki í prinsessuafmælum.

Veisluborðið

Ostasalat og döðlupestó

 Ég keypti bleik glös og límdi á þau gjafaslaufur

Afmæliskakan, bleik marmarakaka með hvítu kremiAfmælisbarnið ánægt með hljóðfærin sín, gítar og hljómborð

 Ljósið mitt litla

Á næstu dögum og vikum mun ég deila með ykkur uppskriftum úr afmælisveislunni en ég ætla að byrja á dásamlegri marengstertu sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Hver elskar ekki Rommý? Rommý í marengstertu er ennþá betra, sannið þið til.


Marengsterta sælkerans

Marengsbotnar
4 eggjahvítur
150 g púðursykur
150 g sykur
5 dl Rice Krispies

Stífþeytið eggjahvítur, bætið sykri og púðursykri saman við og þeytið þar til blandan verður alveg stíf eða. Blandið Rice Krispies varlega saman við marengsinn með sleikju. Leggið hringlaga kökuform eða matardisk ofan á tvær bökunarpappírsarkir og teiknið hring eftir forminu/disknum. Skiptið marengsblöndunni á milli arkanna og smyrjið út jafna botna með sleikju eftir teiknuðu hringjunum. Bakið marengsbotnana við 120° í 60 mínútur.


Rjómafylling

500 ml þeyttur rjómi
¾ mangó
1 askja jarðarber
1 askja bláber
5 stk Rommý
4 kókosbollur

Skerið mangó, helming jarðarberjanna, Rommý og kókosbollur í litla bita og blandið saman við þeyttan rjóma ásamt helmingi bláberjanna.
Hvolfið öðrum marengsbotninum ofan á kökudisk og smyrjið helmingi rjómans yfir. Leggið hinn marengsbotninn ofan á og smyrjið afganginum af rjómablöndunni yfir. Skreytið tertuna með afganginum af jarðarberjum og bláberjum.


Öll hráefni í þessa sælkeratertu fást í Fjarðarkaupum.Helgartertan kæru vinir, ég hvet ykkur til að prófa hana.
Góða helgi!Tinna Björg