Naslað yfir Eurovision


Ég hef aldrei verið áhugasöm um Eurovision en núna er ég alveg sérstaklega spennt fyrir keppninni. Íslenska lagið þykir mér alveg frábært, María er svo glæsileg söngkona og strákarnir í StopWaitGo algjörir snillingar.

Þótt ég hafi hingað til ekki verið neinn djúpur Eurovision-aðdáandi þá horfi ég nú oftast á keppnina með öðru auganu, jafnvel báðum. Að sjálfsögðu þarf maður að hafa eitthvað til að narta í yfir keppninni til að skapa smá stemningu. Já, ég er ein af þeim sem tengir stemningu við mat... Ég tengi reyndar flest við mat svo þetta ætti ekki að koma neinum mikið á óvart.

Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að dásamlegu og stórkostlega einföldu döðlupestó sem systir mín kynnti mig fyrir um daginn. Ég bar það fram í afmæli dóttur minnar ásamt snittubrauði og kexi. Sumum finnst svolítið framandi að blanda saman sætum döðlum og söltu pestó en ég get fullvissað ykkur um að þessi blanda kemur skemmtilega á óvart.

 

Döðlupestó

1 krukka grænt pestó
3/4 krukka fetaostur
100 g salthnetur
10-15 döðlur

Blandið saman í skál grænu pestó, fetaosti og salthnetum ásamt döðlum sem skornar hafa verið í litla bita. Berið fram með kexi eða snittubrauði.


Túnfisksalat er eitthvað sem slær alltaf í gegn hjá minni fjölskyldu og tilvalið að útbúa fyrir Eurovision-partíið. Ég ætla að deila með ykkur svolítið nýstárlegri útgáfu af túnfisksalati með ítölsku ívafi. Þetta salat þykir pabba mínum alveg sérlega gott en hann bar það einmitt fram í afmælisveislu dóttur minnar í fyrra. Ég er pínu að ljúga, þetta salat er ekkert ítalskt. Pabbi smakkaði það úti á Tenerife. En það eru ítalskar ólífur í því! Held ég.


Ítalskt túnfisksalat

1 dós túnfiskur
1/2 krukka svartar ólífur
1/2 krukka sólþurrkaðir tómatar
1/2 rauðlaukur
2 msk majones

Skerið smátt ólífur, sólþurrkaða tómata og rauðlauk og blandið saman við túnfisk og majones.
Berið fram með kexi eða snittubrauði.

Salötin gerast ekki mikið einfaldari skal ég segja ykkur. Svo er eitt salat í einstaklega miklu uppáhaldi hjá mér; ostasalat.



Ætli flestir hafi ekki smakkað einhverja útgáfu af ostasalati? Mig grunar það nú en það er eitthvað sem allir ostaunnendur verða að smakka. Ég hef svo mikið dálæti á þessu blessaða ostasalati að einu sinni eftir einhverja veisluna lifði ég eingöngu á því og smá snittubrauði í þrjá daga. Og ég skammast mín ekkert fyrir það!

Uppskrift að ostasalatinu getið þið nálgast hér. Í þessum vefþætti sem ég gerði í samstarfi við Króm sjáið þið hvernig ég geri ostasalatið góða, camembertsnittur, parmaskinkurúllur og frískandi sumarkokteila.


Öll hráefni í salötin góðu fást í Fjarðarkaupum.


Ég hvet ykkur til að prófa kæru vinir. Njótið kvöldsins.
Áfram Ísland!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur