sunnudagur, 22. mars 2015

Sunnudagskaffið

Á þessum fallega sunnudegi ætla ég að deila með ykkur uppskrift að ávaxtaböku með tvenns konar fyllingu. Svo ljúffeng og dásamlegt að njóta hennar með kaffinu í dag.


Ávaxtabökur

Bökuskel

380 g hveiti
1/2 tsk salt
115 kalt smjörlíki
115 kalt smjör
4-5 msk ísvatn

Blandið saman í skál hveiti og salti. Merjið kalt smjörlíki og smjör með fingrunum og hnoðið saman við hveitið. Mér þykir best að nota hendurnar, hrærivélin er alveg óþörf. Bætið einni matskeið af vatni í einu við deigið og hnoðið áfram þar til það hnoðast saman í kúlu. Athugið að vatnið sé alveg ískalt,

Fletjið út 2/3 af deiginu og leggið í botninn á bökumóti. Skerið kantana af og snyrtið. Deigið festist auðveldlega við borðið svo það getur verið gott að fletja það út á smjörpappír.

Útbúið berja- eða ávaxtafyllingu og hellið í bökuskelina.


Berjafylling

180-200 g sykur
3 msk Maizenamjöl
2 msk hveiti
1 bolli frosin kirsuber
1 bolli frosin bláber
1 bolli frosin hindber
2 perur

Blandið saman í skál sykri, Maizenamjöli og hveiti. Afþíðið frosin ber þannig að þau verði hálffrosin. Afhýðið perur, kjarnhreinsið og skerið í smáa bita. Blandið kirsuberjum, bláberjum, hindberjum og perum saman við sykurblönduna og hellið fyllingunni í bökuskelina.


Eplafylling

150-180 g sykur
2 msk Maizenamjöl
2 msk hveiti
3-4 epli (Jonagold eða græn)

Blandið saman í skál sykri, Maizenamjöli og hveiti í skál. Afhýðið epli,  kjarnhreinsið og skerið í smáa bita. Blandið eplum saman við sykurblönduna og hellið eplafyllingunni í bökuskelina.

Fletjið út 1/3 af bökudeiginu, skerið í strimla og fléttið saman eða skerið út með fallegu smákökumóti. Til að spara handtökin er einnig hægt að leggja deigið útflatt yfir bökuna og skera mynstur í bökulokið með hníf.

Pískið eitt egg og penslið ávaxtabökuna með því. Bakið bökuna við 180° í 50-55 mínútur.

Njótið með þeyttum rjóma eða vanilluís.


Öll hráefni í þessar ljúffengu ávaxtabökur fást í Fjarðarkaupum.Eigið góðan dag kæru vinir!

Tinna Björg

föstudagur, 13. mars 2015

Fjölskyldubakstur í inniveðrinu um helgina


Ég datt í þennan fína bakstursgír í morgun og lét loksins verða af því að baka fyrir frænda minn sem átti afmæli í byrjun janúar. Betra seint en aldrei...

Fyrir valinu urðu þessar dásamlega ljúffengu hnetusmjörsmuffins með súkkulaðibitum og Nutellakremi. Uppskriftin er svolítið stór eða um 20 muffins en það er auðvelt að helminga hana. Svo er líka ljómandi góð hugmynd að frysta kökurnar og eiga með kaffinu síðar.

 
Hnetusmjörsmuffins með Nutellakremi
20-22 stk
 
Muffins

600 g hveiti
150 g púðursykur
200 g hrásykur
4 tsk lyftiduft
1 tsk salt
4 egg
200 g brætt smjör
400 ml mjólk
3 tsk vanilludropar
3/4 krukka hnetusmjör
200 g súkkulaðibitar

Blandið saman í skál hveiti, púðursykri, hrásykri, lyftidufti og salti. Brjótið egg í aðra skál og pískið örlítið. Blandið saman við eggin bræddu smjöri, mjólk og vanilludropum. Hrærið blöndunni smátt og smátt saman við þurrefnin. Velgið hnetusmjör í örbylgjuofni og hrærið saman við deigið ásamt súkkulaðibitum.

Fyllið stór muffinsform af deigi og bakið í ofni við 180° í 20-25 mínútur. Ég klippti bökunarpappír niður í litlar arkir og bjó til muffinsformin sjálf.
Súkkulaðibitarnir sem ég notaði eru 56% frá Freyju.

  
Nutellakrem

100 g mjúkt smjör
1 krukka Nutella
1/4 krukka hnetusmjör
2 dl flórsykur
1 tsk vanilludropar
2-4 msk mjólk

Þeytið smjör þar til það verður alveg mjúkt og kekkjalaust. Bætið við nutella, hnetusmjöri, flórsykri og vanilludropum og þeytið áfram. Þynnið kremið með 2-4 msk af mjólk þannig að það fái silkimjúka áferð.


Öll hráefni í þessar stórgóðu hnetusmjörsmuffins fást í Fjarðarkaupum.Er ekki tilvalið að skella sér í bakstur með börnunum í vonda veðrinu um helgina? Það held ég nú!

Njótið helgarinnar kæru vinir.Tinna Björg

þriðjudagur, 10. mars 2015

Lágkolvetna kombó - Nýjasta æðið

Nýjasta æðið hjá mér þessa dagana er svolítið sérkennilegt kombó sem Helga vinkona mín í hesthúsinu kom mér upp á lagið með; kanilkex með túnfisksalati. Okkur þykir ekkert lítið notalegt að sitja inni á kaffistofu eftir góðan reiðtúr og spjalla yfir kaffibolla, maulandi kanilkexið góða. Bæði kexið og túnfisksalatið eru lágkolvetna. Ég geri mitt salat með kotasælu og grískri jógúrt í staðinn fyrir majones því mér finnst það fara betur í maga. Uppskriftina að kanilkexinu fékk ég frá Helgu og verð hreinlega að fá að deila henni með ykkur.Kanilkex

1 1/2 bolli möndlumjöl
1/2 bolli Flax seed meal
1/4 bolli Sukrin
2 tsk kanill
1 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
1 stórt egg
30 g brætt smjör
5 dropar vanillustevia
2 tsk vanilludropar

Blandið saman í skál möndlumjöli, Flax seed meal, Sukrin, kanil, lyftidufti og salti. Hrærið eggi, bræddu smjöri, steviudropum og vanilludropum saman við þurrefnin. Klæðið ferkantað kökuform, sem er um það bil á stærð við hálfa ofnskúffu, með bökunarpappír og þrýstið blöndunni jafnt ofan í formið með fingrunum. Bakið í ofni við 100° í 1 klst. Slökkvið því næst á ofninum og látið kexið standa í honum í um 1 klst. Skerið kexið í hæfilega stóra bita og berið fram með túnfisksalati.

Flax seed meal finnið þið í Fræinu, heilsuvörudeild Fjarðarkaupa.
 

Túnfisksalatið mitt

3/4 lítil dós kotasæla
3 msk grísk jógúrt
1/2 dós túnfiskur
2 soðin egg
1/4 rauðlaukur/laukur
hvítlaukssalt
Kød & Grill krydderi frá Knorr

Hrærið saman í skál kotasælu, grískri jógúrt og túnfiski. Skerið egg með eggjaskera, saxið laukinn smátt og blandið saman við túnfisksalatið. Kryddið með hvítlaukssalti og grillkryddi.Til að gera gott túnfisksalat eru þessi tvö krydd lykilatriði, hvítlaukssalt og grillkrydd frá Knorr. Grillkryddið finnið þið í kryddhillunni í Fjarðarkaupum. Þessa snilld kenndi tengdamóðir systur minnar henni og ég hermi eftir.

Öll hráefni í kanilkexið og túnfisksalatið fást í Fjarðarkaupum.Ég treysti því að þið heilsuálfarnir smakkið þessa ljómandi góðu og sérkennilegu blöndu.


Tinna Björg