Lágkolvetna kombó - Nýjasta æðið

Nýjasta æðið hjá mér þessa dagana er svolítið sérkennilegt kombó sem Helga vinkona mín í hesthúsinu kom mér upp á lagið með; kanilkex með túnfisksalati. Okkur þykir ekkert lítið notalegt að sitja inni á kaffistofu eftir góðan reiðtúr og spjalla yfir kaffibolla, maulandi kanilkexið góða. Bæði kexið og túnfisksalatið eru lágkolvetna. Ég geri mitt salat með kotasælu og grískri jógúrt í staðinn fyrir majones því mér finnst það fara betur í maga. Uppskriftina að kanilkexinu fékk ég frá Helgu og verð hreinlega að fá að deila henni með ykkur.



Kanilkex

1 1/2 bolli möndlumjöl
1/2 bolli Flax seed meal
1/4 bolli Sukrin
2 tsk kanill
1 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
1 stórt egg
30 g brætt smjör
5 dropar vanillustevia
2 tsk vanilludropar

Blandið saman í skál möndlumjöli, Flax seed meal, Sukrin, kanil, lyftidufti og salti. Hrærið eggi, bræddu smjöri, steviudropum og vanilludropum saman við þurrefnin. Klæðið ferkantað kökuform, sem er um það bil á stærð við hálfa ofnskúffu, með bökunarpappír og þrýstið blöndunni jafnt ofan í formið með fingrunum. Bakið í ofni við 100° í 1 klst. Slökkvið því næst á ofninum og látið kexið standa í honum í um 1 klst. Skerið kexið í hæfilega stóra bita og berið fram með túnfisksalati.

Flax seed meal finnið þið í Fræinu, heilsuvörudeild Fjarðarkaupa.
 

Túnfisksalatið mitt

3/4 lítil dós kotasæla
3 msk grísk jógúrt
1/2 dós túnfiskur
2 soðin egg
1/4 rauðlaukur/laukur
hvítlaukssalt
Kød & Grill krydderi frá Knorr

Hrærið saman í skál kotasælu, grískri jógúrt og túnfiski. Skerið egg með eggjaskera, saxið laukinn smátt og blandið saman við túnfisksalatið. Kryddið með hvítlaukssalti og grillkryddi.



Til að gera gott túnfisksalat eru þessi tvö krydd lykilatriði, hvítlaukssalt og grillkrydd frá Knorr. Grillkryddið finnið þið í kryddhillunni í Fjarðarkaupum. Þessa snilld kenndi tengdamóðir systur minnar henni og ég hermi eftir.

Öll hráefni í kanilkexið og túnfisksalatið fást í Fjarðarkaupum.



Ég treysti því að þið heilsuálfarnir smakkið þessa ljómandi góðu og sérkennilegu blöndu.


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur