Uppáhalds gulrótarkakan mín
Gulrótarkaka er algjörlega lykill að góðu sunnudagskaffi. En til að baka góða gulrótarköku þykir mér afar mikilvægt að nota fersk hráefni. Þær gulrótarkökur sem við fáum í matvöruverslunum og bakaríum eru oft gerðar úr tilbúnu pakkadeigi sem bakaríin kaupa frá heildsölum með annað hvort þurrkuðum gulrótum eða frosnum. Frosnu gulræturnar eru svo sem ekki alslæmar en þær eru að minnsta kosti ekki jafn góðar og ferskar íslenskar. Svo er kremið oftast tilbúin sykurleðja sem inniheldur sjaldnast eitthvað í líkingu við rjómaost. Ég vil hafa rjómaost í minni sykurleðju og mikið af honum! Þessa gulrótarköku bakaði ég til að hafa með kaffinu uppi í hesthúsi í gær. Uppskriftin er gömul frá mömmu með smá Tinnutvisti. Ég lýg því ekki þegar ég segi að kremið sé guðdómlegasta rjómaostakrem veraldar.
Þið dæmið mig vonandi ekki fyrir myndgæðin. Ég var eins og hungraður úlfur eftir þriggja tíma reiðtúr og mátti ekkert vera að þessu.
Gómsæt gulrótarkaka
Gulrótarbotnar
350 g rifnar gulrætur
1 lítil dós kurlaður ananas
100 g pekanhnetur
280 g hveiti
320 g sykur
2 tsk matarsódi
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
1 1/2 tsk kanill
4 egg
2 1/2 dl olía
2 tsk vanilludropar
Blandið saman í skál rifnum gulrótum, kurluðum ananas, muldum pekanhnetum, hveiti, sykri, matarsóda, lyftidufti, salti og kanil. Hrærið vandlega saman við þurrefnin eggjum, olíu og vanilludropum. Smyrjið tvö hringlaga kökuform og skiptið deiginu jafnt á milli þeirra. Bakið kökubotnana við 180° í 35-40 mínútur eða þar til þeir verða fallega dökkbrúnir. Gott er að stinga prjóni í miðju botnanna til að gá hvort þeir séu bakaðir. Kökubotnarnir eru tilbúnir ef prjónninn kemur hreinn upp. Kælið botnana. Ég frysti kökubotna oftast yfir nótt áður en ég set krem á þá þannig að þeir verði mjúkir og rakir.
Rjómaostakrem
200 g mjúkt smjör
4 dl flórsykur
2 tsk vanilludropar
600 g rjómaostur
Þeytið smjör þar til það verður kekkjalaust og bætið flórsykri og vanilludropum saman við. Þeytið þar til úr verður smjörkrem. Setjið rjómaost saman við kremið og þeytið þar til það verður silkimjúkt.
Hvolfið öðrum gulrótarbotninum á kökudisk og smyrjið með 1/3 af kreminu. Leggið hinn botninn ofan á og þekið alla kökuna með rjómaostakremi. Skreytið kökuna með heilum pekanhnetum.
Ég nota alltaf rjómaostinn frá Ostahúsinu. Hann hefur glansandi og silkimjúka áferð og verður ekki kekkjóttur þegar honum er blandað saman við smjörkremið. Ef þið notið aðra tegund er mikilvægt að rjómaosturinn sé við stofuhita.
Öll hráefnin í þessa dásamlegu gulrótarköku fást í Fjarðarkaupum.
Eigið góðan sunnudag!
Tinna
Björg
Ummæli
Skrifa ummæli