Fjölskyldubakstur í inniveðrinu um helgina


Ég datt í þennan fína bakstursgír í morgun og lét loksins verða af því að baka fyrir frænda minn sem átti afmæli í byrjun janúar. Betra seint en aldrei...

Fyrir valinu urðu þessar dásamlega ljúffengu hnetusmjörsmuffins með súkkulaðibitum og Nutellakremi. Uppskriftin er svolítið stór eða um 20 muffins en það er auðvelt að helminga hana. Svo er líka ljómandi góð hugmynd að frysta kökurnar og eiga með kaffinu síðar.

 
Hnetusmjörsmuffins með Nutellakremi
20-22 stk
 
Muffins

600 g hveiti
150 g púðursykur
200 g hrásykur
4 tsk lyftiduft
1 tsk salt
4 egg
200 g brætt smjör
400 ml mjólk
3 tsk vanilludropar
3/4 krukka hnetusmjör
200 g súkkulaðibitar

Blandið saman í skál hveiti, púðursykri, hrásykri, lyftidufti og salti. Brjótið egg í aðra skál og pískið örlítið. Blandið saman við eggin bræddu smjöri, mjólk og vanilludropum. Hrærið blöndunni smátt og smátt saman við þurrefnin. Velgið hnetusmjör í örbylgjuofni og hrærið saman við deigið ásamt súkkulaðibitum.

Fyllið stór muffinsform af deigi og bakið í ofni við 180° í 20-25 mínútur. Ég klippti bökunarpappír niður í litlar arkir og bjó til muffinsformin sjálf.
Súkkulaðibitarnir sem ég notaði eru 56% frá Freyju.

  
Nutellakrem

100 g mjúkt smjör
1 krukka Nutella
1/4 krukka hnetusmjör
2 dl flórsykur
1 tsk vanilludropar
2-4 msk mjólk

Þeytið smjör þar til það verður alveg mjúkt og kekkjalaust. Bætið við nutella, hnetusmjöri, flórsykri og vanilludropum og þeytið áfram. Þynnið kremið með 2-4 msk af mjólk þannig að það fái silkimjúka áferð.


Öll hráefni í þessar stórgóðu hnetusmjörsmuffins fást í Fjarðarkaupum.



Er ekki tilvalið að skella sér í bakstur með börnunum í vonda veðrinu um helgina? Það held ég nú!

Njótið helgarinnar kæru vinir.



Tinna Björg

Ummæli

  1. Hvað er hnetusmjörskrukkan sem þú notar stór?

    SvaraEyða
    Svör
    1. Ég nota hnetusmjör frá Whole Earth eða Sollu, held þær séu 400 g.

      Eyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur