laugardagur, 25. janúar 2014

Matarboð í Morgunblaðinu & nesti í skólann og vinnuna


Í vikunni hafði samband við mig blaðakona frá Morgunblaðinu. Hún bauð mér að halda matarboð sem yrði birt í sunnudagsblaðinu ásamt uppskriftum og viðtali. Ég auðvitað þáði það með þökkum og bauð systur minni, frænku og vinkonu í þetta fína saumaklúbbsmatarboð.
Matarboðið birtist í sunnudagsblaðinu sem kom út í dag.
Ég bauð upp á þrjá rétti, sushi með humar tempura í forrétt, hægeldaðan svínabóg í aðalrétt og créme brûlée í eftirrétt. Matarboðið heppnaðist ljómandi vel og að því loknu tylltum við vinkonurnar okkur niður í stofu ásamt dóttur minni. Eftir þetta eðalát sofnuðum við allar kúrandi eins og klessur í sófanum, ljúfa líf.
Eftir hópblundinn okkar komumst við að þeirri niðurstöðu að saumaklúbburinn er úti, svefnklúbburinn er kominn til að vera.

En að öðru!
Nú eru langflestir skólar komnir á fullt og allir að skríða í rútínu aftur eftir jólafrí. Þá fara margir að velta því fyrir sér hvað á að hafa með í nesti.
Mér þykir svolítið gott að sofa frameftir og erfitt að fara á fætur frá litlu kúridýri svo ég er alltaf á síðustu stundu. Til að geta leyft mér þessar nokkrar mínútur aukalega þá útbý ég alltaf nestispakkann kvöldið áður. Áður en ég fór að haga nestismálunum með þessum hætti var ég afar hugmyndasnauð þegar kom að fljótlegu og hollu nesti sem endaði oft með því að ég keypti mat í mötuneyti skólans. Oftar en ekki varð þá óhollur matur fyrir valinu á himinháu verði. Ég geri mér stundum dagamun og fæ mér hádegismat í mötuneytinu en að öllu jöfnu mæti ég með tilbúið nesti.

Fyrir ykkur sem eruð hugmyndasnauð eins og ég langar mig að deila nokkrum hugmyndum að nesti sem ég hef með mér reglulega í skólann. Svo eru þessir réttir og snarl líka tilvalinn hádegismatur og millimál heimafyrir.

Ég hef sjaldnast tíma fyrir morgunmat heima svo ég er alltaf með létt nesti sem er tilvalið með morgunkaffinu.


Mér þykir afar gott að byrja morguninn með tveimur rúsínuspeltbrauðsneiðum með smjöri og osti. Rúsínuspeltbrauðið inniheldur kornblöndu og kókosmjöl ásamt öðru góðgæti. Þegar brauðið kemur út úr ofninum kæli ég það, sker í sneiðar og frysti tvær sneiðar saman í plastfilmu. Svo tek ég út eina pakkningu kvöldið áður og set í ísskápinn. Þannig fæ ég alltaf mjúkt og ferskt brauð á hverjum morgni.


Grófar speltbollur verða líka stundum fyrir valinu í morgunkaffinu en þá sker ég þær áður en ég pakka þeim í plastpoka svo ég geti sett strax á þær álegg.


Á milli mála finnst mér afar gott að narta í eitthvað góðgæti og þá er gott að hafa það í hollari kantinum.
Þegar nartþörfin gerir vart við sig finnst mér gott að eiga lágkolvetna hrökkbrauð í skólatöskunni.


Vanilluskyr með grænu epli og kókosflögum er ótrúlega bragðgóð blanda og afar heppilegt millimál þegar sætindapúkinn skýtur upp kollinum. Til að vera sérlega góð við sjálfa mig sáldra ég nokkrum rúsínum yfir til að toppa sæluna.

1/2 lítil dós vanilluskyr
1/2 - 1 grænt epli
handfylli kókosflögur
handfylli rúsínur

 Skerið grænt epli í litla bita og blandið saman við vanilluskyr.
Sáldrið kókosflögum og rúsínum yfir og setjið í nestisbox.


Stundum hef ég í nestispakkanum gríska jógúrt með hindberjasósu og múslí. Mér finnst afar þægilegt að setja hana í glerkrukku sem ég get lokað.

1 dl frosin hindber
1 tsk hunang
150 - 200 g grísk jógúrt
handfylli múslí

Sjóðið hindber og hunang saman í 5-7 mínútur og kremjið berin þannig að þau soðni niður og úr verði sósa. Kælið hindberjasósuna.
Setjið gríska jógúrt og hindberjasósu í glerkrukku í lögum og sáldrið múslí yfir.


Avocado og kotasæla eru himnesk blanda. Ef þið elskið avocado eins og ég geri þá verðið þið að prófa.
Millimálið gerist ekki einfaldara og þægilegra.

1/2 avocado
2-3 msk kotasæla

Kljúfið avocado í tvennt, fjarlægið steininn og fyllið holuna með kotasælu.


Svo er alltaf gott að hafa með sér bland í poka með þurrkuðum aprikósum, kókosflögum og möndlum.


Baunabuff með hvítlaukssósu og salati er matarmikill og góður hádegisverður. Ég á alltaf til baunabuff í frystinum til að setja í nestispakkann eða hafa í kvöldmatinn.


Kjúklingasalat með pestó er eitt af mínum uppáhalds salötum. Ég hef það stundum í kvöldmatinn og tek afganginn með mér í nesti daginn eftir.


Indverska vetrarsúpan er tilvalin í nestispakkann til að gæta smá fjölbreytni. Ég á svo sniðugar nestisskálar frá Kitchen Aid sem henta vel til að ferðast á milli staða með súpuna. Sambærilegar skálar frá öðrum framleiðendum hef ég séð í hinum ýmsu búsáhaldabúðum.


Blómkálssúpa með góðu brauði er einnig tilvalið nesti í skólann eða vinnuna.


Stuttu eftir hádegi fæ ég undantekningalaust þessa svakalegu sykurþörf og þá þykir mér gott að grípa í eina eða tvær bananamuffins. Þær innihalda hvorki hvítt hveiti né sykur heldur möndlumjöl, spelt og döðlur. Þótt spelt sé ekki hollasti kosturinn vel ég það framyfir hveiti í baksturinn þegar ég vil halda mig í hollari kantinum.


Ein eða tvær kókoskúlur með þurrkuðum ávöxtum og hnetusmjöri eru afbragðs millimál með síðdegiskaffinu.


Að lokum mæli ég með þessu stórgóða bananabrauði sem inniheldur hvorki sykur né hveiti heldur sætuefni og malað haframjöl. Ég sker það í sneiðar og frysti tvær saman í plastfilmu.

 Ég vona að þið getið nýtt ykkur þessar hugmyndir að nesti í vinnuna eða skólann kæru lesendur.
Eigið góða helgi.


Tinna Björg

mánudagur, 20. janúar 2014

Kryddbrauðið hennar mömmu


Helgarnar einkennast oftar en ekki af dásamlegum mat með tilheyrandi áti en þessa helgi var alveg sérlega mikil átveisla.
Á laugardaginn skellti ég mér á nýárshátíð lagadeildar HR með tveimur vinkonum þar sem boðið var upp á veglegt hlaðborð fullt af forréttum, aðalréttum og eftirréttum.
Gærdagurinn var ekki síðri en ég bakaði gulrótarköku og kryddbrauð með kaffinu, sem var eins gott því við fengum góða gesti í heimsókn. Foreldrar mínir buðu svo upp á sunnudagslærið góða.

Gulrótarkökuuppskriftina mun ég birta síðar en núna langar mig að deila með ykkur besta kryddbrauði sem ég hef smakkað, kryddbrauðinu hennar mömmu sem hún gerði svo oft þegar ég var barn.


Kryddbrauð

320 g hveiti 
300 g sykur
240 g haframjöl
2 tsk  matarsódi
2 tsk lyftiduft
2 tsk kanill
2 tsk negull
2 tsk kakó
3 bollar mjólk

Blandið hveiti, sykri, haframjöli, matarsóda, lyftidufti, kanil, negul og kakó saman í skál.
Hrærið mjólk saman við.

Smyrjið tvö brauðform og hellið deiginu jafnt í þau.
Bakið í 40-50 mínútur við 180°.

Athugið að gott er að stinga prjóni í miðju brauðsins til að athuga hvort það sé bakað í gegn. Ef prjónninn kemur hreinn upp úr brauðinu er það tilbúið.Verði ykkur að góðu!

Tinna Björg

fimmtudagur, 16. janúar 2014

Hárbönd fyrir litlar skvísur


Dóttir mín hún Klara Sóllilja var skírð í Kópavogskirkju í lok júní 2013. Skírnarkjólinn keypti móðir mín fyrir öll barnabörnin til að skírast í. Hann er ofboðslega fallegur með síðum bleikum slaufuborða en hægt er að skipta honum út fyrir bláan.


Til að hafa dótturina enn prinsessulegri á skírnardaginn langaði mig í fallegt hárband í stíl við kjólinn en hvergi fann ég búð sem seldi eitthvað í líkingu við það sem ég leitaði að.
 Eftir mikla leit og á síðustu stundu datt mér svo í hug að útbúa hárband sjálf.


Ég keypti teygjanlegan blúnduborða og pappírsblóm sem ég festi saman og límdi á borðann. Í miðju blómanna límdi ég svo bleikar perlur. Hægt er að nota hvaða gerviblóm sem er og ekki er vera ef þau eru úr plasti frekar en pappír.

Úr urðu þessi tvö svona líka ágætu hárbönd. Stelpan er núna orðin 8 mánaða og böndin passa ennþá á hana.Í staðinn fyrir að kaupa stúlkuhárbönd dýrum dómum þá hvet ég ykkur til að prófa að gera þau sjálf. Það kemur á óvart hversu einföld og fljótgerð böndin eru.


Bestu kveðjur,

Tinna Björg

mánudagur, 13. janúar 2014

Indversk vetrarsúpa og speltbollur


Nú þegar nýtt ár er gengið í garð lofa margir sér, ef ekki flestir, að stunda heilsusamlegra líferni á einn eða annan hátt.
Ég er engin undantekning en ætla þó að setja mér raunhæfari markmið en fyrri ár og huga meira að heilsusamlegri réttum í miðri viku án þess þó að fara út í öfgar.
Holl og matarmikil súpa einu sinni á dag er ofboðslega einfaldur og þægilegur kostur fyrir þá sem vilja minnka aðeins mittismálið. Ég geri stóran pott af súpu sem endist út vikuna og það tekur aðeins örstutta stund að hita hana upp.

Þessi indverska karrýsúpa er í miklu uppáhaldi hjá mér. Hún er svolítið sterk og inniheldur aðallega grænmeti en gott er að steikja kjúklingabringur í bitum og setja saman við súpuna, þannig verður hún enn matarmeiri.Indversk vetrarsúpa

1 1/2 rauðlaukur
3 hvítlauksrif
olía
1 lítil sæt kartafla
4 gulrætur
5 msk milt karrýmauk
2 tsk karrý
4 msk tómatpúrra
1 1/2 dl kókosflögur
1 dós kókosmjólk
700-800 ml vatn
grænmetiskraftur
salt
svartur pipar

 Skerið rauðlauk í bita og steikið í stórum potti með olíu ásamt pressuðum hvítlauk í 5 mínútur eða þar til rauðlaukurinn verður mjúkur.

Afhýðið og skerið sæta kartöflu og gulrætur í teninga.
Bætið teningunum í pottinn og steikið áfram í nokkrar mínútur.
Hrærið karrýmauki, karrý og tómatpúrru saman við grænmetið ásamt kókosflögum.

Hellið kókosmjólk og vatni í pottinn og hitið að suðu.
Smakkið súpuna til með grænmetiskrafti, salti og svörtum pipar og látið krauma við vægan hita í 45 mínútur.
Takið að lokum pottinn af hellunni og maukið súpuna með töfrasprota eða í matvinnsluvél.

Magnið af grænmetiskrafti fer eftir tegund því hann er misjafnlega saltur. Þess vegna hef ég þá þumalputtareglu að setja alltaf kraftinn fyrst og svo saltið.

Til að fullkomna þessa yndislegu súpu ber ég fram með henni nýbakaðar speltbollur.
Þessa bráðgóðu bolluuppskrift fékk ég hjá Patrycju vinkonu minni sem er einstaklega góður bakari og lumar alltaf á einhverjum hollustuuppskriftum.


Grófar speltbollur

5 dl gróft spelt
1 dl fimm korna fræblanda
1 1/2 tsk lyftiduft
1 tsk sjávarsalt
2 dl AB mjólk
1 1/2 - 2 dl heitt vatn

Blandið spelti, fræblöndu, lyftidufti og sjávarsalti saman í skál og hrærið AB mjólk og vatni saman við.
Mótið í hæfilega stórar bollur og sáldrið fræjum yfir.
Bakið við 200° í 20-25 mínútur.

Deigið á að vera blautt og klístrað þegar bollurnar eru mótaðar.
Í staðinn fyrir að dreifa úr speltbollunum á bökunarplötunni baka ég þær saman í klasa, þannig haldast þær mýkri.

Upprunalega uppskriftin inniheldur vínsteinslyftiduft en með því verða bollurnar mun blautari og klesstar.
Fyrst um sinn gerði ég bollurnar alltaf með vínsteinslyftidufti. Í eitt skipti gleymdi ég vínsteinslyftiduftinu og úr ofninum komu nákvæmlega eins bollur. Upp frá því hef ég notað venjulegt lyftiduft og bollurnar lyfta sér fallega og verða mjúkar og góðar.

Þegar ég á ekki til AB mjólk hef ég stundum í hallæri notað hreint skyr eða gríska jógúrt hrista saman við smá mjólk.
Bollurnar verða alls ekki síðri með skyri eða grískri jógúrt.


Ég hvet ykkur til að láta þessa dásamlegu vetrarsúpu ylja ykkur í  kuldanum.


Tinna Björg

laugardagur, 11. janúar 2014

Sérstök og sérlega góð frönsk súkkulaðikaka


Ég á tvær uppáhalds franskar súkkulaðikökuuppskriftir.
Önnur þeirra er gamla góða uppskriftin hennar mömmu sem ég mun deila með ykkur síðar og hin þessi guðdómlega uppskrift frá kokkinum henni Möggu minni sem vann með mér á hóteli sumarið 2012.

 Þessi uppskrift er svolítið sérkennileg og öðruvísi en allar uppskriftir að franskri súkkulaðiköku sem ég hef séð.
Kakan er blaut í gegn og svo unaðsleg!


Frönsk súkkulaðikaka á la Magga

250 g sykur
150 ml vatn
400 g suðusúkkulaði
150 g smjör
4 egg
4 msk hveiti

Sjóðið sykur og vatn saman í potti þar til blandan verður að þunnu sýrópi.
 Bræðið suðusúkkulaði og smjör saman í öðrum potti.

Blandið sýrópinu saman við súkkulaðiblönduna í skál og hrærið einu eggi í einu saman við.
Sigtið að lokum hveiti í skálina og blandið saman við deigið.
Til að hræra hveitinu saman við deigið nota ég pískara svo ekki myndist kekkir.

Smyrjið smelluform og sníðið smjörpappír í botninn.
Hellið deiginu í formið og bakið við 170° í 25-30 mínútur á undir- og yfirhitastillingu.

Athugið að deigið er afar þunnt svo passið að smelluformið sé þétt og leki ekki. Eins og sést á myndinni er súkkulaðikakan svolítið þunn einmitt af því að gamla góða smelluformið klikkaði

Franska súkkulaðikakan er langbest þegar hún hefur verið geymd í ísskáp í 1-2 daga.


Enginn súkkulaðiunnandi ætti að láta þessa yndisköku framhjá sér fara.

Ég þakka ykkur innilega fyrir innlitið á síðuna.

Tinna Björg

miðvikudagur, 8. janúar 2014

Heimagert pestó og lúxussamloka tilvalin í nestispakkann


Stuttu fyrir jól rann á mig pestóæði og ég borðaði mikið af því í nokkra daga ásamt camembert osti. Grænt pestó og camembert ostur eru himnesk blanda ofan á ristað brauð en best finnst mér þó að útbúa væna lúxussamloku þegar ég splæsi í pestógerð. Samlokunni góðu kynntist ég í Leifsstöð fyrir mörgum árum og það var ást við fyrsta bita.

Ég kaupi stundum pestó í krukkum en mér finnst það óttalega bragðlaust og jafnast ekkert á við heimagert.

Hérna er uppskriftin mín að ljúfu basilíkupestó.


Basilíkupestó

50 g fersk basilíka
1 tsk sjávarsalt
1 1/2 dl furuhnetur
1 msk rifinn parmesan ostur
1 1/2 dl ólífuolía
1/2 tsk sítrónupipar

Ristið furuhnetur á þurri pönnu.
Maukið basilíku, furuhnetur, parmesan ost, sítrónupipar og sjávarsalt í matvinnsluvél eða blandara og hellið ólífuolíu smátt og smátt saman við þar til pestóið verður hæfilega þunnt.

Ég kýs að setja heldur mikla olíu í pestó því hráefnin drekka hana svolítið í sig þegar pestóið er geymt í ísskáp.


Þegar basilíkupestóið er tilbúið er tilvalið að setja saman eina lúxussamloku.


Lúxussamloka

2 sneiðar dökkt brauð
1 msk basilíkupestó
salatblöð
2 sneiðar ítalsk salami
2 sneiðar tómatur
3 sneiðar camembert ostur

Smyrjið brauðsneiðar með basilíkupestó og raðið samlokunni fallega saman svo  hún verði nú enn bragðbetri.

Mér þykir dökkt og gróft brauð passa best með hráefnunum og verður Fitty brauð oft fyrir valinu.


Það er svo gaman að gera einfaldan en jafnframt góðan mat, það þarf stundum ekkert að vera flóknara en falleg samloka!


Bestu kveðjur,

Tinna Björg

mánudagur, 6. janúar 2014

Stutt uppgjör ársins 2013 og Mexíkóýsa


Sælir kæru vinir og gleðilegt ár 2014!

Í dag er síðasti dagur jóla og því ekki úr vegi að líta aðeins yfir farinn veg og minnast þess sem helst stóð upp úr á árinu 2013.
Þessi jól voru afar óhefðbundin en jafnframt notaleg og góð. Þau einkenndust einna helst af veikindum, fjölskyldumeðlimir fengu hverja pestina á fætur annarri og svoleiðis gekk það framyfir áramót en dóttir mín fékk berkjubólgu og átti líka óskaplega bágt vegna tanntöku.
Jólabaksturinn hjá mér var því af skornum skammti þetta árið en gullið hún móðir mín sá um að baka nokkrar sortir svo við vorum nú ekki með öllu smákökusvelt.

 Fjölskyldan litla í jólaboði á Akranesi.

Árið 2013 var heldur betur viðburðaríkt en strax 1. janúar bættist nýr meðlimur í fjölskylduna þegar systir mín fæddi dóttur sína.

Rúmlega fjórum mánuðum síðar, þann 11. maí, kom stúlkan okkar Sævars svo í heiminn. Hún er fyrsta barn okkar beggja og fékk nafnið Klara Sóllilja.


Áður en ég fæddi dótturina þóttist ég nokkurn veginn vita hvernig það væri að vera móðir en ég hafði rangt fyrir mér.
Ég var handviss um að ég yrði ekki ein af þessum barnasjúku mæðrum sem einoka fréttaveitur fólks á Facebook með barnamyndum og aftur hafði ég rangt fyrir mér.
Móðurhlutverkið er ólýsanlegt, að fylgjast með svona pínulitlum einstaklingi vaxa og dafna er það merkilegasta sem ég hef nokkurn tíma upplifað. Hvert einasta þroskaskref barnsins fyllir mann svo gríðarlega miklu stolti.


Við erum núna búin að fá að fylgjast með litlu fallegu stelpunni okkar í næstum átta mánuði. Hún er komin með tvær tennur, farin að segja ,,mamma'', byrjuð að skríða eða öllu heldur draga sig áfram og setjast upp.
Hún er líka farin að reyna að klæða sig í föt og setja á sig bleiu svo það styttist í að hún geti hreinlega farið að sjá um sig sjálf.

Foreldrar mínir eignuðust þrjú barnabörn á fimm mánaða tímabili en sonur bróður míns fæddist í desember 2012.
Það er því óhætt að segja að 2013 hafi verið sannkallað ömmu- og afaár hjá þeim.

 Í júlí ákvað ég að stíga það djarfa skref að stofna matarbloggsíðuna svo ég gæti deilt sérlegum áhuga mínum á mat með þeim áhugasömu.

Í lok ágúst fórum við litla fjölskyldan ásamt foreldrum mínum til Svíþjóðar að heimsækja bróður minn og hans fjölskyldu. Ferðin var frábær þótt stutt hafi verið og alveg yndislegt að fá að hitta þau öll í fyrsta skipti í eitt og hálft ár. Son bróður míns var ég að hitta í fyrsta skipti.


Í október fékk ég þann heiður að vera matgæðingur Vikunnar sem var afar skemmtilegt verkefni. Birt var stutt viðtal við mig ásamt sex af mínum uppáhalds uppskriftum.


Það sem stóð svo mest upp úr á lokaspretti ársins var jólagjöfin frá kærastanum en hann gaf mér langþráðu antíkhvítu KitchenAid hrærivélina.
Ég er ekki ennþá komin niður úr skýjunum og geri það sennilega bara aldrei.


Við vinkonurnar á góðri stundu að kynnast hvor annarri.

 Þótt ég hafi byrjað árið með höfuðið ofan í klósettskálinni hef ég fulla trú á að það verði eins gæfuríkt og það sem var að líða. Ég stefni meðal annars á að útskrifast með BA gráðu í lögfræði í vor og get ekki beðið eftir að fá að kynna dóttur mína fyrir fallegu Vestfjörðum í sumar. Auk þess ætla ég að veita bloggsíðunni smá andlitslyftingu ásamt fleiri spennandi hlutum tengdum matargerð.
Ég hvet ykkur því til að fylgjast með.

Áramótaheit strengi ég sjaldan enda gleymi ég þeim oftast daginn eftir. Í ár hef ég hins vegar strengt það heit að borða meira af fiski og hreyfa mig meira, við sjáum til hvernig það gengur.

Í ljósi háleitra markmiða minna um fiskát árið 2014 er við hæfi að láta eina slíka uppskrift fylgja með.
Þennan ljúffenga ofnbakaða fiskrétt gerði ég stuttu fyrir jól við góðar undirtektir fjölskyldunnar.Mexíkóýsa
Fyrir 6-8 manns

3 dl villt hrísgrjón
4 1/2 dl vatn
3/4 tsk salt
7-10 meðalstórar gulrætur
1 stórt brokkolíhöfuð
2 hvítlauksgeirar eða 1/2 tsk hvítlauksduft
1 mexíkóostur
500 ml matreiðslurjómi
100 g spínat
1 kg ýsa
125 g beikonostur
250 ml mjólk
svartur pipar
sjávarsalt
200 g gratínostur

Hitið vatn með salti að suðu og sjóðið hrísgrjón í 10 mínútur.
Sigtið hrísgrjón og setjið í stórt eldfast mót.

Skerið gulrætur og brokkolí smátt og dreifið yfir hrísgrjónin ásamt pressuðum hvítlauk eða hvítlauksdufti.

Skerið mexíkóost í smáa bita og bræðið saman við matreiðslurjóma.
Hellið ostablöndunni yfir grænmetið og bakið í ofni við 200° í 20 mínútur.

Takið mótið úr ofninum og dreifið spínati yfir réttinn.
Skerið ýsu í smáa bita og raðið ofan á spínatið.

Bræðið beikonost saman við mjólk og hellið yfir fiskbitana.
Saltið og piprið eftir smekk og sáldrið gratínosti yfir.
Bakið fiskréttinn áfram í 15-20 mínútur við 200° þar til osturinn verður fallega brúnn.Fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir mjólkurvörum er gott að skipta matreiðslurjómanum og mjólkinni út fyrir jurtarjóma eða laktósafrían og laktósafría mjólk.
Kærastinn minn er með mjólkuróþol og ég skipti stundum mjólkurvörum út við matargerðina.
Rétturinn verður ekki síðri og ef til vill léttari fyrir vikið en osturinn gerir hann alveg nógu creamy.

Ég hvet ykkur öll til að prófa þennan frábæra fiskrétt, sérstaklega ykkur sem eruð lítið fyrir fiskrétti. Þið verðið ekki svikin.


Tinna Björg