Stutt uppgjör ársins 2013 og Mexíkóýsa


Sælir kæru vinir og gleðilegt ár 2014!

Í dag er síðasti dagur jóla og því ekki úr vegi að líta aðeins yfir farinn veg og minnast þess sem helst stóð upp úr á árinu 2013.
Þessi jól voru afar óhefðbundin en jafnframt notaleg og góð. Þau einkenndust einna helst af veikindum, fjölskyldumeðlimir fengu hverja pestina á fætur annarri og svoleiðis gekk það framyfir áramót en dóttir mín fékk berkjubólgu og átti líka óskaplega bágt vegna tanntöku.
Jólabaksturinn hjá mér var því af skornum skammti þetta árið en gullið hún móðir mín sá um að baka nokkrar sortir svo við vorum nú ekki með öllu smákökusvelt.

 Fjölskyldan litla í jólaboði á Akranesi.

Árið 2013 var heldur betur viðburðaríkt en strax 1. janúar bættist nýr meðlimur í fjölskylduna þegar systir mín fæddi dóttur sína.

Rúmlega fjórum mánuðum síðar, þann 11. maí, kom stúlkan okkar Sævars svo í heiminn. Hún er fyrsta barn okkar beggja og fékk nafnið Klara Sóllilja.


Áður en ég fæddi dótturina þóttist ég nokkurn veginn vita hvernig það væri að vera móðir en ég hafði rangt fyrir mér.
Ég var handviss um að ég yrði ekki ein af þessum barnasjúku mæðrum sem einoka fréttaveitur fólks á Facebook með barnamyndum og aftur hafði ég rangt fyrir mér.
Móðurhlutverkið er ólýsanlegt, að fylgjast með svona pínulitlum einstaklingi vaxa og dafna er það merkilegasta sem ég hef nokkurn tíma upplifað. Hvert einasta þroskaskref barnsins fyllir mann svo gríðarlega miklu stolti.


Við erum núna búin að fá að fylgjast með litlu fallegu stelpunni okkar í næstum átta mánuði. Hún er komin með tvær tennur, farin að segja ,,mamma'', byrjuð að skríða eða öllu heldur draga sig áfram og setjast upp.
Hún er líka farin að reyna að klæða sig í föt og setja á sig bleiu svo það styttist í að hún geti hreinlega farið að sjá um sig sjálf.

Foreldrar mínir eignuðust þrjú barnabörn á fimm mánaða tímabili en sonur bróður míns fæddist í desember 2012.
Það er því óhætt að segja að 2013 hafi verið sannkallað ömmu- og afaár hjá þeim.

 Í júlí ákvað ég að stíga það djarfa skref að stofna matarbloggsíðuna svo ég gæti deilt sérlegum áhuga mínum á mat með þeim áhugasömu.

Í lok ágúst fórum við litla fjölskyldan ásamt foreldrum mínum til Svíþjóðar að heimsækja bróður minn og hans fjölskyldu. Ferðin var frábær þótt stutt hafi verið og alveg yndislegt að fá að hitta þau öll í fyrsta skipti í eitt og hálft ár. Son bróður míns var ég að hitta í fyrsta skipti.


Í október fékk ég þann heiður að vera matgæðingur Vikunnar sem var afar skemmtilegt verkefni. Birt var stutt viðtal við mig ásamt sex af mínum uppáhalds uppskriftum.


Það sem stóð svo mest upp úr á lokaspretti ársins var jólagjöfin frá kærastanum en hann gaf mér langþráðu antíkhvítu KitchenAid hrærivélina.
Ég er ekki ennþá komin niður úr skýjunum og geri það sennilega bara aldrei.


Við vinkonurnar á góðri stundu að kynnast hvor annarri.

 Þótt ég hafi byrjað árið með höfuðið ofan í klósettskálinni hef ég fulla trú á að það verði eins gæfuríkt og það sem var að líða. Ég stefni meðal annars á að útskrifast með BA gráðu í lögfræði í vor og get ekki beðið eftir að fá að kynna dóttur mína fyrir fallegu Vestfjörðum í sumar. Auk þess ætla ég að veita bloggsíðunni smá andlitslyftingu ásamt fleiri spennandi hlutum tengdum matargerð.
Ég hvet ykkur því til að fylgjast með.

Áramótaheit strengi ég sjaldan enda gleymi ég þeim oftast daginn eftir. Í ár hef ég hins vegar strengt það heit að borða meira af fiski og hreyfa mig meira, við sjáum til hvernig það gengur.

Í ljósi háleitra markmiða minna um fiskát árið 2014 er við hæfi að láta eina slíka uppskrift fylgja með.
Þennan ljúffenga ofnbakaða fiskrétt gerði ég stuttu fyrir jól við góðar undirtektir fjölskyldunnar.Mexíkóýsa
Fyrir 6-8 manns

3 dl villt hrísgrjón
4 1/2 dl vatn
3/4 tsk salt
7-10 meðalstórar gulrætur
1 stórt brokkolíhöfuð
2 hvítlauksgeirar eða 1/2 tsk hvítlauksduft
1 mexíkóostur
500 ml matreiðslurjómi
100 g spínat
1 kg ýsa
125 g beikonostur
250 ml mjólk
svartur pipar
sjávarsalt
200 g gratínostur

Hitið vatn með salti að suðu og sjóðið hrísgrjón í 10 mínútur.
Sigtið hrísgrjón og setjið í stórt eldfast mót.

Skerið gulrætur og brokkolí smátt og dreifið yfir hrísgrjónin ásamt pressuðum hvítlauk eða hvítlauksdufti.

Skerið mexíkóost í smáa bita og bræðið saman við matreiðslurjóma.
Hellið ostablöndunni yfir grænmetið og bakið í ofni við 200° í 20 mínútur.

Takið mótið úr ofninum og dreifið spínati yfir réttinn.
Skerið ýsu í smáa bita og raðið ofan á spínatið.

Bræðið beikonost saman við mjólk og hellið yfir fiskbitana.
Saltið og piprið eftir smekk og sáldrið gratínosti yfir.
Bakið fiskréttinn áfram í 15-20 mínútur við 200° þar til osturinn verður fallega brúnn.Fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir mjólkurvörum er gott að skipta matreiðslurjómanum og mjólkinni út fyrir jurtarjóma eða laktósafrían og laktósafría mjólk.
Kærastinn minn er með mjólkuróþol og ég skipti stundum mjólkurvörum út við matargerðina.
Rétturinn verður ekki síðri og ef til vill léttari fyrir vikið en osturinn gerir hann alveg nógu creamy.

Ég hvet ykkur öll til að prófa þennan frábæra fiskrétt, sérstaklega ykkur sem eruð lítið fyrir fiskrétti. Þið verðið ekki svikin.


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur