Sérstök og sérlega góð frönsk súkkulaðikaka


Ég á tvær uppáhalds franskar súkkulaðikökuuppskriftir.
Önnur þeirra er gamla góða uppskriftin hennar mömmu sem ég mun deila með ykkur síðar og hin þessi guðdómlega uppskrift frá kokkinum henni Möggu minni sem vann með mér á hóteli sumarið 2012.

 Þessi uppskrift er svolítið sérkennileg og öðruvísi en allar uppskriftir að franskri súkkulaðiköku sem ég hef séð.
Kakan er blaut í gegn og svo unaðsleg!


Frönsk súkkulaðikaka á la Magga

250 g sykur
150 ml vatn
400 g suðusúkkulaði
150 g smjör
4 egg
4 msk hveiti

Sjóðið sykur og vatn saman í potti þar til blandan verður að þunnu sýrópi.
 Bræðið suðusúkkulaði og smjör saman í öðrum potti.

Blandið sýrópinu saman við súkkulaðiblönduna í skál og hrærið einu eggi í einu saman við.
Sigtið að lokum hveiti í skálina og blandið saman við deigið.
Til að hræra hveitinu saman við deigið nota ég pískara svo ekki myndist kekkir.

Smyrjið smelluform og sníðið smjörpappír í botninn.
Hellið deiginu í formið og bakið við 170° í 25-30 mínútur á undir- og yfirhitastillingu.

Athugið að deigið er afar þunnt svo passið að smelluformið sé þétt og leki ekki. Eins og sést á myndinni er súkkulaðikakan svolítið þunn einmitt af því að gamla góða smelluformið klikkaði

Franska súkkulaðikakan er langbest þegar hún hefur verið geymd í ísskáp í 1-2 daga.


Enginn súkkulaðiunnandi ætti að láta þessa yndisköku framhjá sér fara.

Ég þakka ykkur innilega fyrir innlitið á síðuna.

Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur